Ef ég hef skilið þá menn, er sig vilja kenna við jöfnuð, rétt, þá snýst þeirra hugsjón um að allir þegnar samfélagsins hafi jafnan rétt og aðgang að þeim gæðum sem lífð hefur uppá að bjóða. Þeir vilja skapa jafnan grundvöll fyrir alla til að vinna sem best úr þeim hæfileikum og því frelsi sem hver og einn fékk í vöggugjöf.

Ég er mjög sammála.
Ég trúi að hver og einn ætti að fá tækifæri til að þroska og þróa með sér sína hæfileika. Hver einstaklingur, óháð litarhætti, kynferði, trú o.s.frv. á réttinn á frelsi frá kúgun, ofbeldi og fátækt, og réttinn til mannsæmandi lífs.

…og samt kalla ég mig frjálshyggjumann(!?).

Ég hef frá öndverðu skilnings haldið fast í ofangreindar hugsjónir, en það var ekki fyrr en að ég gerði mér grein fyrir eigin aðild að þeim hildarleik sem gerir það einmitt að verkum að ofangreindar hugsjónir eru orðin tóm, að ég sagði mig úr þeim hugðarvítahring sem gerir fátæka fátækari, og gerðist frjálshyggjumaður.

Að vera frjálshyggjumaður þýðir í stuttu máli að bera virðingu fyrir ákvörðunum nágrannans. Þetta kann að hljóma ankannalegt í fyrstu, vegna þess að virðingu fyrir náunganum, tillitsemi og “að bæta fyrir misgjörðir okkar” drukku flestir í sig með móðurmjólkinni. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi siðferðislögmál eru sameiginleg flestum ef ekki öllum mannlegum samfélögum í dag. Að allri umræðu um eðli mannsins undanskildri má líta á þetta sem þróun samfélaga þar sem einstaklingarnir hafa gert sér grein fyrir því að þeir uppskera eins og þeir sá. Þ.e.a.s. ef ég geng á eignir eða skipti mér af einkamálum náungans get ég búist við því að hann geri e-ð á minn hlut á móti.

Okkur verður sem sagt snemma ljóst að ribbaldaskapur og yfirgangur leiði einungis til illdeilna og lægra fasteignaverðs. Allir tapa.

Við berum þvi virðingu fyrir ákvörðunum nágrannans og sköpum þar með frið og farsæld í okkar litla horni af heiminum.

Af hverju búum við þá í heimi sem er fullur af ofbeldi og fátækt?
Af því að sem samfélag förum við ekki eftir eftir þeim lögmálum sem stjórna hegðun okkar gagnvart einstaklingnum. Þvert á móti. Við höldum að sameiginlegur yfirgangur og rányrkja gagnvart öðrum geri lífið auðveldara og samfélagið betra. Ekkert er fjær sannleikanum.

T.d. lágmarkslaun.
Á sínum tíma í Suður-Afríku börðust verkalýðsfélög hvítu yfirstéttarinnar mikið fyrir lögbundnum lágmarkslaunum. Ekki var það þó gert af kærleik fyrir svörtum verkamönnum heldur gerðu félögin sér fyllilega grein fyrir að með hærri lágmarkslaunum var verið að neyða atvinnurekendur til að ráða færri fyrir sama kostnað. Svörtu verkamennirnir, sem oftast höfðu minni starfsmenntun en hvítir starfsbræður þeirra, fengu ekki tækifæri á að undirbjóða hvítu umsækjendurna. Þeir höfðu því ekki tækifæri á að byrja smátt, en auka smám saman á reynslu og starfsmenntun sína og þar með auka virði sitt í augum markaðarins. .Þeim var bannað, með lögum, að vinna sig upp úr því hlutskipti sem hvíti minnihlutinn hafði bundið þeim.

Hið sama er uppá teningnum í öllum heiminum, þ.e. ómenntuðum og fátækum minnihlutahópum(fólki) er skúfað út úr tækifærisstiganum á læstu þrepunum. Lágmarkslaun virðast því bittna á þeim sem þau eiga að hjálpa og einungis bæta hlutskipti hinna betur settu.

Eða opinbera atvinnureglugerðir.
Fólk sem er lagið við smíðar, leigubílakeyrslu, kennslu eða næmt fyrir börnum og sjúklingum, svo dæmi séu tekin, er oft útilokað frá þessum sviðum atvinnulífsins án tilskilinna opinberra leyfa eða “réttinda”. Sem tekur oftar en ekki mikinn tíma og pening að nálgast.
Hinir ríku verða ríkari. Þeir hafa efni á andlausa stagglinu og leyfunum sem þarf að sýna hinu opinbera til að öðlast “réttindin”.
Tökum leigubílakeyrslu sem dæmi. Fátækur innflytjandi í New York, sem vill skapa auð fyrir sig og fjölskyldu sína, ákveður að taka lán og kaupa bíl til að stunda leigubílaakstur. Það sem hann veit hins vegar ekki er að til að fá “réttindi” til að keyra fyrir greiðslu, þarf hann að kaupa atvinnuleyfi frá ríkinu. Hann verður því snemma að hætta keyrslu eða sæta sektum og jafnvel fangelsisvist. Leyfi fyrir “réttindum” á leigubíl í New York kostaði árið 1986 $100.000!

Lágmarkslaunin og leigubílaréttindin eru einungis tvö af ótal dæmum um hvernig opinber valdaníðsla kemur verst niðra fátækum. En þrautagöngu okkar er hvergi lokið. Eins og í dæminu að ofan um samskipti einstaklinga, þá uppskerum við eins og við sáum. Einn hópur, hinir efnameiru, beitir ríkinu fyrir sig til að betra hlutskipti sitt á kostnað hins, hinna fátæku.
Og nú er komið að fátækum og minnihlutahópum að svara fyrir sig, og senda handrukkara hins opinbera á afganginn af samfélaginu. Þeir krefja samfélagið um að kosta á sig fæði, uppihald, tryggingar, sjúkrakostnað og allt annað sem þeir telja vera “réttindi”, og minnihlutahópar krefjast “réttinda” vegna hörundlitar, trúar, þjóðernis o.s.frv. á kostnað allra annarra. (Ath. dæmin að ofan eru ekki einu dæmin um hagsmunavörslu á vegum hins opinbera!)

Allir tapa.
Ef ríkið léti okkur einfaldlega í friði með lágmarkslaunum og reglugerðum ættu fátækir raunverulegan möguleika á að vinna sig upp úr volæðinu. Mun fleirri væru um hverja þjónustu sem þýðir meira framboð, sem og aftur þýðir meiri gæði og lægra verð. Engin þyrfti að krefjast sér “réttinda” á kostnað hins. Að ógleymdu öllum þeim pening sem sparast myndi við að leggja niður skriffinnsluna á bakvið þetta allt saman.
Þegar við notum vald til að reyna að stjórna hverju öðru verður uppskeran sú sama og í dæminu um einstaklingana; illdeilur, einn hópur uppá móti öðrum. Allir verða fátækari, allir tapa.

Galdurinn við að bera virðingu fyrir ávörðunum nágrannans er ekki jafn auðnuminn og við fyrstu sýn. En það hjálpar að vita að yfirgangur, hvaða nafni sem hann nefnist, kemur aftur í hausinn á okkur.
Ég minntist á það hér að ofan að hegðun okkar gagnvart náunganum væri í versta falli samfélagsleg þróun einstaklinga. Nú er þess bara að vona að við sem hópur og samfélag lærum sömu lexíu, og hættum að beita fyrir okkur ríkisribbaldinu til að stjórna “öllum hinum” í samfélaginu, að við lærum af mistökunum og höldum áfram á samfélagslegu þroskabrautinni.

Á toppi samfélagsþróunnar trjónir frjálshyggjan.

friður
badmouse

(Dæmin tvö um lágmarkslaun og atvinnureglugerðir eru tekin uppúr bókinni “Healing our world” e. Mary J. Ruwart.)