Evrópusambandssinnar, eins og t.d. Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður eru iðnir við að saka menn og stofnanir um ófagleg og ótrúverðug vinnubrögð ef niðurstöður þeirra eru ekki í samræmi við þeirra eigin skoðanir. Ekki er langt síðan tekin var saman skýrzla um Ísland og Evrópusambandið fyrir ríkisstjórnina sem hneig að því að aðild Íslands að Evrópusambandinu væri síður en svo fýsileg. Þessu vildu Evrópusambandssinnar engan veginn una og höfðu uppi sama söng þá og nú um skort á hlutleysi, fagmennsku, trúverðugleika o.s.frv.
Í framhaldi af því lét Samfylkingin semja sína eigin skýrzlu um Ísland og Evrópusambandið sem fékk niðurstöðu sem var í samræmi við fyrirfram ákveðnar skoðnir hennar. Auðvitað átti þessi skýrzla síðan að heita hlutlaus þó að ritstjóri hennar sé einn helzti Evrópusambandssinni á Íslandi, Eiríkur Bergmann Einarsson, sem í þokkabót mun sennilega vera á launum frá Evrópusambandinu við það að reka áróður hér á landi í þágu sambandsins. Þetta eru sem sagt þær hugmyndir sem Evrópusambandssinnar hafa um hlutleysi og trúverðugleika.
Í Morgunblaðinu 8. júní sl. ritar Bryndís Hlöðversdóttir grein þar sem hún gagnrýnir grein Illuga Gunnarssonar hagfræðings gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu í Morgunblaðinu frá deginum áður. Illugi óskaði í grein sinni eftir rökum Bryndísar fyrir árásum sínum á hagfræðistofnun Háskóla Íslands vegna skýrzlu stofnunarinnar um Ísland og Evrópusambandið sem kynnt var á dögunum sem kunnugt er. Sú skýrzla var þó víst ómarktækt plagg, að sögn Bryndísar, og þá sennilega vegna þess að niðurstöður hennar voru ekki í samræmi við hennar eigin skoðanir. Í grein sinni verður annars ekki betur séð en að Bryndís viðurkenni að hún hafi ekki áður fært rök fyrir árásum sínum á stofnunina og að úr því verði bætt í greininni. Gallinn er þó sá að það sem fram kemur í grein hennar hrekur engan veginn rök Illuga svo séð verði.
Að lokum má síðan nefna að í grein sinni talar Bryndís um að Davíð Oddsson sé húsbóndi Illuga og á því væntanlega við að skrif Illuga séu í hans þágu. Fyrst Bryndís gengur út frá því að menn eigi sér húsbónda er ekki úr vegi að spyrja hver sé hennar húsbóndi? Evrópusambandið?
Hjörtur J.
(Birt í Morgunblaðinu 12. júní 2002)
Með kveðju,