Sagt er að Sjálfstæðisflokkurinn skjóti sig í fótinn fyrir hverjar kosningar. Svo mikið er víst að það sannast í þetta skipti svo um munar, þótt ekki sé ég með fleiri dæmi þess á hraðbergi (kannski aðrir Hugarar geti hjálpað upp á).
Heilbrigðisráðherra, framsóknarmaður, undirritar ásamt borgarstjóra viljayfirlýsingu um byggingu nýrra hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Fjármálaráðherra, sjálfstæðismaður bregst reiður við, kallar gjörninginn ómark m.a. vegna þess að ekki hafi fengist vilyrði fyrir fjárveitingu úr ráðuneyti hans.
Skoðum nú nokkur atriði þessa máls:
* Viljayfirlýsing af þessu tagi er ekki bindandi, því síður er hún fordæmislaus. Slíkt hefur verið gert áður jafnvel án þess að staðið hafi verið við.
* Alþingi hefur samþykkt ályktun með atkvæðum allra þingmanna um að byggja skuli þessi hjúkrunarrými.
* Samkvæmt stjórnarskrá fer Alþingi með fjárveitingarvaldið. Þar sem Alþingi er einhuga um að þessi framkvæmd skuli ná fram, er það varla víðáttulangsótt að ætla að sama stofnun muni samþykkja fjárveitingu til þess þegar þar að kemur.
Það er raunar tímanna tákn að fjármálaráðherra skuli telja að fjárveitingarvaldið liggi hjá honum og ríkisstjórninni, og það sé hann sem ráði því í hvað skattpeningarnir fara. Það hefur lengi vantað mikið upp á að Alþingi fari í raun með það vald sem því er gefið. Hroki fjármálaráðherrans er skiljanlegur í því ljósi.
Hvað sem öðru líður er orðið nokkuð ljóst að sjálfstæðismenn töpuðu borgarstjórnarslagnum endanlega með þessu. Það sem stendur eftir er að þeir eru einfaldlega á móti þessum hjúkrunarrýmum í augum kjósenda.