Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mönnum mál Árna Johnsen sem nú um stundir er aftur orðið mál málanna í fjölmiðlum. Eins og menn væntanlega þekkja er rauði þráðurinn í málflutningi Árna sá að hlutirnir séu meira eða minna öllum öðrum að kenna en honum sjálfum og er ekki að sjá nokkur merki um iðrun hjá honum fyrir það sem hann gerði.
Svona viðhorf eru auðvitað ekki ný hjá mannskepnunni og má vel segja að um sé að ræða eins konar böl þess. Annað dæmi mætti nefna en það er uppgangur hægriöfgamanna í Evrópu á síðustu mánuðum og árum. Ýmsir ráðamenn í aðildarlöndum Evrópusambandsins keppast við það að lýsa yfir áhyggjum af téðum uppgangi og að við honum verði að sporna. Þessir menn átta sig hins vegar ekki á því að það er í raun þeim sjálfum að stóru leyti að kenna að þessi uppgangur hefur getað átt sér stað.
Ástæða þess að hægriöfgamenn hafa fengið byr undir báða vængi víða í Evrópu er einfaldlega sú það hafa verið skapaðar forsendur til þess að svo gæti orðið. Þeir hafa einfaldlega fengið fylgi út á ýmis þjóðfélagsvandamál sem ráðamenn í viðkomandi löndum hafa ákveðið að láta sitja á hakanum að ráða fram úr og í versta falli kosið að viðurkenna hreinlega ekki tilvist þeirra. Einn slíkur málaflokkur eru öryggismál borgaranna og annar er innflytjendamál.
Umræddir ráðamenn líta einfaldlega á það sem svo, í barnalegum sandkassahugsunarhætti sínum, að ekkert sé að hjá þeim og að þeir hafi alls ekki sofið á verðinum við að sinna skyldum sínum. Þess í stað er eitthvað að hjá flestum öðrum en þeim. Ef það er ekki bara hægriöfgamönnunum sjálfum að kenna þá er það kjósendum að kenna sem asnast til að kjósa “vitlaust” eða þá hinu lýðræðislega stjórnkerfi sem gerir kjósendum kleift að asnast til að kjósa “vitlaust”. Skýringuna á uppgangi hægriöfgamanna er því að þeirra mati að finna hjá flestum öðrum en þeim sjálfum.
Hjörtur J.
Með kveðju,