Þeim mun fleiri orð sem eru notuð, þeim mun líklegra er að menn skiljist almennilega. Annars væri ágætt ef þú sæir þér fært, a.m.k. þegar þú ert að skrifa til mín að þú gerðir tvennt; annars vegar merktir við “láta höfund vita…” og hins vegar ekki gera ráð fyrir að ég viti neitt voðalega mikið (fyrir utan að geta lesið og skrifað).
En það getur nú verið dálítill vandi að greina á milli þess hvað eigi að teljast stór mál og hvað ekki. Myndi lögleyfin hnefaleika vera stórt mál eða lítið? Hvað með smásölu á áfengi? Eða hvaða mál er fjallað um á Alþingi sem eru lítil og léttvæg - skipta þau öll eða flest ekki nokkuð miklu máli fyrir mjög marga?
Annars átta ég mig ágætlega á því að lýðræði er fokdýrt - ennþá dýrara ef það á að fara að fjölga kosningum (ég myndi a.m.k. flokka laun þingmanna undir kostnað lýðræðis). Og sjálfsagt mál er að reyna að styrkja lýðræðið - sem er svo ekki ókeypis frekar en annað - en spurningin var “hvaðan ætti peningurinn að koma?”
Humm … ég minnist þess annars ekki að hafa kallað kjósendur “letingja” (þótt það sé raunar tilfellið í löndum eins og Sviss að minna en helmingur þjóðarinnar hefur haft fyrir því að kjósa, a.m.k. samkvæmt
http://www.idea.int/voter_turnout/westeurope/switzerland.html). Svo er þetta kannske ekki spurning um nennu - en fólk sem er í annarri vinnu kannske tíu tíma á dag, alla daga vikunnar, er ef til vill frekar þreytt eftir daginn (ég veit að ég er það) og nennir kannske ekki að fara að lesa endalausar skýrslur, rannsóknir og svo framvegis.
En það er varla lygi - a.m.k. ekki vísvitandi blekking - ef maður trúir því sjálfur að það sé satt. Ef Davíð trúir eða trúði því sjálfur að hann hefði skapað góðærið, þá væri hann varla að ljúga að okkur. Að minnsta kosti væri það ekki eins hræðileg lygi og ef að hann vissi vel að hann væri að segja ósatt. Ef ég trúi því að Vincent Gallo sé að ganga fyrir utan gluggann minn, kalla á kærustuna og segi “Sjáð'elskan, Vincent Gallo!” þá var ég varla að ljúga að henni, jafnvel þótt að þetta hafi verið einhver allt annar. Það er alveg satt, að lygin þarf ekki að heppnast til að teljast lygi, en hún þarf að vera sögð af vissu hugarástandi - því ástandi að vilja blekkja viðmælendur/lesendur/áheyrendur. Telji maður sig sjálfan í raun og veru vera að segja satt, þá er varla hægt að segja að maður ljúgi, alveg sama hve heimskulegt eða rangt það er sem maður er að segja.