Í London geysa nú óeirðir. Ungt fólk veitist að lögreglu, brýst í hús, kveikir í þeim sem og bílum og rænir úr verslunum. Lögreglan má hafa sig alla við að stemma stigu við þessu og hefur kallað til liðsstyrk úr nærliggjandi þéttbýli.
Fréttamaður BBC velti í beinni útsendingu vöngum yfir staðsetningu óeirðanna, sem ná nú vítt og breitt um London. Hann tautaði fyrir sér hvernig það gæti verið að jafnvel í ríkum hverfum (Ealing, ef mig minnir rétt) væri slík skálmöld. Hann bætti svo við að í London væri reyndar þétt sambýli ríkra og fátækra.
Án þess að vita nokkuð til staðarhátta og haglags London kæmi það mér lítið á óvart þótt fátækir unglingar sem þurfa að horfa upp á ríkidæmi nágranna sinna daglega yrðu beiskir af þeim sökum.
Það má ekki láta ofbeldið og fordæmingu þess blinda mann fyrir þeirri ólgu sem orsakar það. Orð manns frá Tottenham lýsa því vel - Tottenham er, vel að merkja, með mest atvinnuleysi af hverfum London, sem og upphafsstaður núverandi óeirða. Aðspurður hvort ofbeldi sé rétta leiðin til að koma skoðun sinni á framfæri svarar hann
já. Þú værir ekki að tala við mig ef ekki væri fyrir óeirðirnar, er það? Fyrir tveimur mánuðum gengum við til Scotland Yard, fleiri en tvö þúsund svartra, í friðsemd og spekt, og veistu hvað? Ekki stakt orð í fjölmiðlum. Í gærkvöld voru einhverjar óeirðir og hnupl, og viti mennbætir hann við og vísar til fjölmiðlamergðarinnar umhverfis.
Ég vil ekki dæma verr stadda fyrir þær aðferðir sem þeir beita til að draga athygli að neyð sinni, enda gæti ég það ekki án þess að hljóma hinn versti snobbsnáði og kastalabúi.
Mótmælin minna um margt á flestar þær óeirðir sem hafa átt sér stað frá upphafi kreppunnar. Stúdentamótmæli hafa verið víða um heim, enda virðast stúdentar taka þátt í mótmælum heldur frjálslega, allt frá Tiananmentorgi til Trípólí, Túnis til Tottenham. Eins og í mótmælunum í Aþenu hófust mótmælin í London örstuttu eftir að lögreglan skaut almennan borgara til bana. Jafnvel í Túnis hófust mótmælin gegn forsetanum Ben Ali eftir að Múhammeð Buazizi brenndi sig til bana. Hann hafði orðið fyrir ítrekuðu áreiti yfirvalda, og einelti og niðurlægingu af hendi lögreglufulltrúa.
Í Norður-Afríku urðu byltingar ekki síst vegna hækkandi matarverðs hjá þjóðum sem nota stóran hluta tekja sinna til matarkaupa. Hækkandi kornverð 2008 kom einkar hart niður á þeim, til viðbótar við áratugalanga kúgun sem almenningur þar kennir ekki síst Bandaríkjunum um.
Í Grikklandi eru vandamálin öllu kunnuglegri, og óeirðirnar líkjast þeim sem nú eiga sér stað í London öllu meir. Vantraust á stjórnmálamönnum, ósætti við lausnirnar sem þeir bjóða upp á við skuldavanda ríkisins, aðdróttanir að þeir hygli að hinum ríku án tillits til atvinnulausra og fátækra.
Atvinnulausir hafa ríkan tíma og ríka ástæðu til að mótmæla. Vegna lágmarkslauna og atvinnuleysisbóta enda ungmenni, sem annars gætu krafsað (og yrðu að krafsa) í láglaunastörf, á bótum, og eru ásamt stúdentum vígreifur hópur í mótmælum.
Það er svolítið síðan að bent var á hvernig gríski harmleikurinn væri á norðurleið. Þrátt fyrir rándýra útbreiðsluheftingu gríska skuldavandans, á kostnað almennings evrulandanna og einkum í hag banka sem keyptu í óráði grískar skuldir, þrátt fyrir tilraunir til að breiða yfir vanda óskynsamra fjárfestinga banka og ríkja, breiðist vandinn út. Ítalía krefst nú svipaðrar meðhöndlunar og Grikkland, og útlit er fyrir að fleiri fylgi á eftir. Raunar hefur mátt leiða að því líkur nokkuð lengi.
Spurningin er hvort byltingarandinn sé ekki bara eitthvað sem við getum dáðst að úr fjarska, heldur hvort hann éti sig í hrein teppi og torg Norðvestur-Evrópu og Bandaríkjanna líka. Þá verður áhugavert að sjá hvernig fjölmiðlarnir, sem sungu byltingarmönnum Afríku lof fyrir örfáum mánuðum, bregðast við. Ef atburðir síðustu daga setja tóninn, þá munu þeir eflaust líkjast norður-afrískum ríkisfjölmiðlum meira en frelsiselskendunum sem þeir voru í vor. Það gæti vel breyst þegar á líður, og vissulega eru ítök þeirra stjórnmálamanna sem uppreisnarmenn gagnrýna svo harkalega minni í fjölmiðlum hér en í verandi og fyrrverandi einræðisríkjum. En það er vert að hafa í huga að eigendur fjölmiðla, ritstjórnir þeirra og fréttamennirnir sjálfir eru allir sérhagsmunahópar, missamstæðir hópum almennra borgara hvað skoðanir og stefnumál varðar.
Loks er áhugavert, svo við snúum okkur aftur að raunamædda Tottenhambúanum, að svart fólk skuli vera svo áberandi í fátækrahverfum og á myndum af núverandi óeirðum. Svart fólk og innflytjendur eru mikið til fátækasta fólk vesturlanda. Anders Breivik óttaðist að í uppsiglingu væri uppreisn múslima, innfluttra til Evrópu, gegn þeirri evrópsku menningu sem honum sýndist fara fölnandi. Þessi mótmæli bera þess þó ekki merki. Enn sem komið er virðast menn óháð litarhafti standa hlið við hlið, sameinaðir í sjálfheldu á botni núverandi hagstjórnar, drukknir óeirðaseggir og fingralangir tækifærissinnar. Eflaust eru margir þeirra ótíndir glæpamenn. Eflaust sýnist mörgum þeirra að ríkir, hvítir karlar virði þá að vettugi til að föndra við hagtölur og veita auð landsins til sín og sinna, öruggir á bak við skildi lögreglu sinnar, nema rétt á meðan fátæklingarnir bókstaflega kynda undir þeim, brjótast inn í verslanir og brenna lögreglubíla. Eflaust leiða margir þeirra hugann ekki að stökum hlut sem ég hef minnst á. Þeir eru engu að síður undir hjólum núverandi ástands og hrista nú upp í því.
Megi þeir fá uppreisn æru áður en meiri skaði hlýst af.