Ég skrapp á hátíðarmálþing Orator, nemendafélags lögfræðinga í Háskóla Íslands, í dag. Það var að vísu ekki síst vegna loforðs um fríar veitingar að því loknu sem ég lét sjá mig, en umræðuefnið lofaði góðu: Staða lögfræðinnar í samfélaginu. Ekki var frummælendalistinn verri, en hann skipuðu umboðsmaður Alþingis, formaður lögmannafélagsins og aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Reyndar kom á daginn að síðastnefnd, Halla Gunnarsdóttir, hafði sérstaklega fengið boðið fyrir að vera kona, en það umræðuefni fær að bíða annarrar færslu á öðru áhugamáli. Mig langar hér að drepa á nokkrum atriðum sem vöktu athygli mína í þessum orðræðum og spurningunum sem komu fram eftir þær. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hverra skoðanirnar hér eru, ef einhverjum finnst það skipta máli get ég skýrt það í athugasemdum.
Lagahyggja
Salurinn var þéttskipaður verandi og verðandi lögfræðingum, og máli var mest beint til slíkra. Ég reyndi því að láta lítið fyrir mér (og mínum einkar óviðeigandi klæðnaði, sem tók ekkert tillit til hátíðar-partsins í titli þingsins) fara. Á fundarborðinu stóð uppstoppuð grágæs, sem ég komst fljótt að að væri vísun í ævafornu lagaskrudduna Grágás. Fyrstur, að lokinni kynningu, tók til máls Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Hann er þekktur fyrir slagara á borð við Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis - Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir og fjölda bréfa um réttarstöður og stjórnsýsluhætti í umboði starfs síns. Honum þótti bagalegt hve illa væri farið að lögum, og tók ítrekað fram á málþinginu að “lögin eru leikreglur samfélagsins”. Einn af útgangspunktum umræðunnar var einmitt samtímaumræðan um “lagahyggju”, hugtak sem hann og annar frummælandi, Birgir Níelsson, voru ekki mjög hrifnir af. Þeir tóku báðir fram að umræðan væri á svolitlum villigötum, og höfðu nokkuð fyrir sér í því. Það er rétt að skýra megindrætti þeirra útlistana.
Þríliða valds
Það hefur borið á því í kjölfar úrskurðar hæstaréttar, að ógilda skuli kosningu til stjórnlagaþings, að aðdróttanir séu hafðar í frammi um hlutdrægni dómaranna, ósvífni þeirra gagnvart almannavilja og þess háttar. Helst bölvaði Birgir þeim sem vildu fá Alþingi til að skipa nefnd til að endurskoða dóminn. Það væri vissulega glapræði sem ætti sér fá fordæmi - eins og það sé ekki nógu slæmt að tveir armar ríkisvaldsins hangi í sömu stofnun nú þegar. Það sem virðist ráða í þessari gagnrýni, eins og svo oft annars, er ósætti við niðurstöðuna, og ráðist er á stoðir hennar úr öllum áttum. En það þýðir ekki að gagnrýnin eigi sum ekki rétt á sér. Spurningin er bara eins og svo oft, hverjar eru forsendurnar? Það er, hvað ætlum við að gefa okkur sem sameiginlegan grundvöll áður en við hefjum gagnrýnina? Ef við viljum hafa sameiginlega löggjöf sem skal yfir alla ganga er til lítils að gagnrýna niðurstöðu hæstaréttar út frá ósanngirni - löggjöf byggir ekki á sanngirni í hverju máli fyrir sig, heldur sanngirni á heildina litið. Eitt skal yfir alla ganga. Ef við byrjum að veita undanþágur frá lögum spretta upp alls kyns erfiðar spurningar um hvernig skal hátta þeim og hver má gefa þær. Ef við viljum dómstól sem dæmir eftir tíðaranda og gildum almennra borgara þarf að bjóða almenningi að kjósa um dóma eða dómara. En það er með það eins og persónukjör og þess háttar, fólk þarf líka að nenna því. Samfélagið gæti eflaust orðið prýðilegt ef við myndum öll nenna að leggja fram vinnu í þágu þess. Mikið til virðist þó enn vera stemming fyrir því að kjósa fólk til að redda þessu fyrir okkur, og kvarta síðan yfir því þess á milli.
Almennir samfélagslegir almannahagsmunir samfélagsins
Þegar samræðuaðilar hafa sæst á hvers lags grunnbyggingu þeir vilja hafa er hægt að deila um hvernig þátttakendur í því ættu að hegða sér. Þótt enginn á málþinginu hafi farið ítarlega í hvers lags forsendum umræðan byggðist á heyrðust mér þær vera “réttarríki”, þótt deilt hafi verið um hvort slíkt væri raunar til staðar á Íslandi. Þessi forsenda skaut sumsé yfir markið hvað varðar hluta gagnrýni á “lagahyggju”, sem er eflaust að lögin ættu ekki að standa skynsemi og sanngirni ofar. Vandamálið þar er þó fljótséð - hvers skynsemi og hvers sanngirni skal ráða? Birgir benti á að meðal röksemda umhverfisráðherra í höfnun aðalskipulags Flóahrepps nýverið hefðu verið “almannahagsmunir”, ekki bara þreytandi heldur stórhættulegt orð. Um leið og valdhafar fara að bera fyrir sig öryggi og hagsmunum samfélagsins er hætta á að ástæðan sé að erfitt sé að finna einhvern innan þess sem hefur þessa hagsmuni, nema kannski valdhafinn sjálfur. Eina leiðin til að tryggja sanngirni væri þá aftur aukin þátttaka almennings í stjórnsýslu, beinna lýðræði og svo framvegis. Það krefst, sem áður sagði, meiri vinnu af almenningi. Ef við viljum taka ábyrgð af herðum réttarkerfisins getum við ekki bara hent henni fyrir róða. Einhver þarf að gæta þess að fólk sé ekki hlunnfarið, að það skaði ekki hvert annað, og ef við ákveðum að við treystum ekki ríkinu til þess þurfum við að gera það sjálf. Ef við treystum löggjöfinni ekki (og að treysta löggjöfinni er í raun að treysta útfærendum hennar - dómurum og lögfræðingum) en treystum í staðinn stöku ráðherra fyrir öllu valdi hennar er einræði handan við hornið.
Get þú betur
Svo það er freistandi að fallast án frekari umhugsunar á það með Tryggva að lögin séu leikreglur samfélagsins, þar sem annað væri heljarinnar vesen. Beint lýðræði felur í sér mikla vinnu, þar sem maður þarf að kynna sér málefni, taka ákvarðanir og gera alla erfiðu hlutina sem fólkið á Alþingi þrasar um dögunum saman. En mörg af þeim málefnum enda á morgunverðarborðum okkar og í dagblöðunum hvort eð er. Okkur er meira að segja gert að kjósa fólkið til að sjá um þau á grundvelli hæfni þeirra í því. Svo einhvers konar þversögn felst í því að segja okkur ófær um að fjalla um málefnin, en fær um að velja fólkið til þess. Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnmálamenn, eina lýðræðislega kjörna starfsstéttin (að minnsta kosti að nafninu til), njóti gífurlega lítils trausts. Annað hvort erum við fær um að sinna starfinu þeirra, og þeir þar með óþarfir, eða þeir sem velja þá til embættis eru ófærir um að meta árangur þeirra, og þeir því líklega óhæfir.
Móses Níelsson…
En þar geta lögfræðingar, að því er manni heyrðist á þinginu, komið okkur til bjargar. Og raunar virtist þingið í heild, þegar á leið, vefjast um það vandamál hve lögfræðingar eru illa liðnir, hve lítið mark er tekið á skoðunum þeirra, hvað þær eru birtar sjaldan í fjölmiðlum, hvernig ímynd þeirra hefur sverst að undanförnu og þar fram eftir götunum. Ef samfélagið myndi aðeins hlýða á vísdóm þeirra (og ef þeir gætu bara asnast til að halda kjafti um aðra hluti en lögfræði, svo ég umorði Tryggva) myndi fólk eiga auðveldara með að skilja hluti eins og úrskurð hæstaréttar, og kannski vera ögn hamingjusamara með réttarríkið og leikreglurnar, og jafnvel byrja að fara eftir þeim. Það er vissulega mikið til í þessu. Einhver þarf að bera okkur steintöflurnar ofan af Austurvelli og túlka það sem á þeim stendur. En Birgir lét ekki sitt eftir liggja í þessa veruna. Við megum, eftir hans túlkun á sögunni, þakka hans stétt fyrir að hafa lýðræði á annað borð. Þeir færa okkur ekki aðeins visku sína og innsæi, heldur réttarríkið í heild sinni.
… og Aron Axelsson
Fylltur þessum innblæstri og nýrri virðingu og þakklæti gagnvart þessari hljóðlátu og vanmetnu stétt gekk ég íhugull upp á aðra hæð Lögbergs að borða snitturnar og kjúklinginn og jarðarberin með súkkulaðiídýfunni og drekka vínið sem var á boðstólum, að íhuga það sem ég hafði heyrt. Áhugaverðustu athugasemdirnar, þegar allt kom til alls, voru Birgis. Hann lastaði þáttastjórnendum og fréttamönnum fyrir hvernig þeir virtust fá alla nema lögfræðinga til viðtals við sig um lögfræðileg málefni. Það setti bitran pistil hans um "Snillinga ársins“ í samhengi. Það hlýtur að vera leiðinlegt að vera hart gagnrýnd stétt að stunda óvinsælt fag og fá hvergi að verja sig. Það lítur líka út fyrir að ef við viljum losna við þau stjórnfarslegu vandræði sem við vælum yfir daglega, þá þurfum við að gera eitthvað sjálf, hvort sem það er að passa betur upp á stjórnmálamennina okkar með hjálp lögfræðinga, eða að taka ábyrgðina af höndum ríkisins og leysa þau sjálf. Og á meðan við ákveðum okkur getur Birgir huggað sig við, eins og hann orðar það, ”að græða fullt af peningum."
P.s.
Árvökulir lesendur hafa tekið eftir að ég minnist ekki á orðræðu Höllu, prýðileg sem hún nú var. Ástæðan er helst sú að ég er hér að velta fyrir mér lögfræði, og nota málþingið sem átyllu. Þar sem Halla var málsvari ólöglærðra meðal frummælenda hef ég lítið um hennar málstað að segja í þessu samhengi, þótt eflaust fari eitthvað af gagnrýni hennar saman við þá sem ég set fram hér.