Í dag, 30. mars, eru 53 ár liðin frá því að Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið (NATÓ). Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra í marsmánuði 1949, og það var hann sem markaði stefnu Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar allrar í utanríkismálum, eftir seinni heimsstyrjöldina og var í fararbroddi þegar ákveðið var að taka þessa heillaríku ákvörðun að ganga formlega í NATO, hann varð svo að lokum einn sterkasti leiðtogi þjóðarinnar á seinustu öld, og einn sterkasti leiðtogi hægrimanna í Evrópu. Það var Bjarni sem undirritaði Atlantshafssáttmálann, stofnskrá Atlantshafsbandalagsins, í Washington, þann 4. apríl 1949, að hálfu Íslands.

Stefna og störf bandalagsins ráðast af því, hver er niðurstaða samráðs fulltrúa bandalagsríkjanna. Þar eru ekki teknar ákvarðanir af meirihluta ríkja í andstöðu við minnihluta. Hvert einstakt ríki hefur neitunarvald, enda er um lífshagsmuni hvers og eins að ræða. NATO er samnefnari þess, sem aðildarríkin telja nauðsynlegt til að tryggja öryggi sitt. Við fundarborð Atlantshafsráðsins hefur fulltrúi Íslands nákvæmlega sömu stöðu og fulltrúi Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands eða Þýskalands. Þegar menn ráða ráðum sínum á þessum stað, geta góðar röksemdir af Íslands hálfu mótað niðurstöðuna ekki síður en annarra. Að þessu leyti er Atlantshafsbandalagið einstakur alþjóðlegur vettvangur. Engin alþjóðasamtök eru mikilvægari fyrir okkur Íslendinga, og ákvörðun um aðild var rökrétt á sínum tíma og hefur komið sér vel fyrir þjóðina.

NATO hefur á ferli sínum endurspeglað hina sameiginlegu viðleitni aðildarríkjanna til að stuðla að friði og ekki síður að varðveita öryggi sitt með tvíþættum aðgerðum. Annars vegar hefur verið byggt upp sameiginlegt varnarkerfi með sameinuðum herstjórnum. Hins vegar hefur verið þróað pólitísk samráðskerfi til að móta hina sameiginlegu varnarstefnu og gefa herstjórnunum fyrirmæli. Bandalagið sækir styrk sinn til valds og viðræðna.

Saga NATO er mjög farsæl. Bandaríkin bera höfuð og herðar yfir öll önnur ríki. Án tengsla Evrópu við Bandaríkin yfir Atlantshaf er NATO algerlega einskis virði. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er afsprengi aðildar okkar að NATO. Gildi samningsins er og hefur verið mikið og víðtækt. Rök má færa fyrir því, að á þessum breytingatímum innan NATO veiti samningurinn Íslendingum auk varnanna mikilvægari stjórnmálalega tryggingu en nokkru sinni. Varðstaða um varnarsamninginn við Bandaríkin og aðildina að NATÓ er jafnmikilvæg nú og áður. Rök andstæðinga hinnar farsælu stefnu okkar í utanríkis- og varnarmálum eru nú sem fyrr reist á ákaflega veikum grunni. Engar hrakspár þeirra hafa ræst, hvorki vegna aðildarinnar að NATO né varnarsamningsins. Undarlegast er þó, hve andstæðingunum líðst lengi að ræða ekki, hvað eigi að koma í stað þeirrar góðu öryggistryggingar, sem við höfum. Fyrr á tímum var ástæðan fyrir þögninni sú, að þeir vildu ekki viðurkenna samstöðu sína með Sovétvaldinu. Gengið var til aðildar Íslands að NATO eftir markvissa tilraun kommúnista til að hnekkja með valdi lögmætum ákvörðunum Alþingis Íslendinga. Árásin á alþingishúsið þann 30. mars 1949 er sem betur fer einsdæmi í Íslandssögunni. Á meðan sú saga er skráð verður árásin jafnan til marks um rökþrot kommúnista í umræðum um utanríkis- og varnarmál. Svo mikið er víst!

Það er vonandi að Íslendingar verði áfram þátttakendur í varnarsamstarfi ríkja heimsins og að Íslendingar verði áfram í varnarsamstarfi við Bandaríkin, það hefur komið sér vel fyrir þjóðina að vera í NATÓ og haft góð samskipti við Bandaríkin, allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

stebbifr
kasmir.hugi.is/stebbif