Kosturinn við prinsipp
yfirburðir vinstrisins á Íslandi

Væntanlega mun titill þessarar greinar vekja hörð viðbrögð en hann segir ekki endilega það sem þið kunnið að halda að hann segi í fyrstu. Þessi pistill er annars vegar ætlað að greina sorgleg hlutskipti íslenska hægrisins, og vonandi kveikja aðeins í hægrimönnum, því þeim vantar eitthvað þessa daganna.

Mér virðist oft eins og hlutskipti hægrimanna á Íslandi sé það eitt að vera lobbýistasamtök fyrir kvótagreifa og álframleiðendur. Inn á milli kurrar í frjálshyggjumönnum eða evrópu-hægrikrötum en það liggur í augum uppi að hægri menn á Ísland þjást af málefnafátækt og skortum á prinsippum.

Að segja að hægrið á Íslandi sé í krísu merkir ekki það að ég haldi að hægri menn geti ekki náð völdum á Íslandi aftur. Þvert á móti, ég hef fulla trú á því að sjálfstæðisflokkurinn geti náð völdum aftur á Íslandi. En hvað mun hann svo nota völdin sín í, er annað mál. Í pólitík eru völd tæki til þess að koma hugsjónum þínum í verk, móta samfélagið að þinni sýn. (Allavega í fullkomnum heimi). Auðvitað munu sjálfstæðismenn þurfa að deila völdum sínum með flokk sem telur sig vera félagshyggjuflokk. Margir segja að nú sé fyrsta hreina vinstristjórnin í sögu Íslands. Það má nú segja að til hafi verið vinstrisinnaðri stjórnir samt, þó þrír flokkar hafi þá verið en ekki tveir. En hefur einhvern tímann verið hrein hægri stjórn. Hvernig yrði sú stjórn?

Um daginn andmæltu frjálshyggjumenn einkasjúkrahúsi á Suðurnesjum. Þeir tóku undir með Ögmundi Jónassyni sem var á móti því að ríkið myndi deila kostnaði með einkasjúkrahúsi til að skapa störf. Þeir sögðu að nóg væri komið af pilsfaldakapítalisma. En hvað gerðu sjálfstæðismenn? Sögðu þeir ekki að Ögmundur væri á móti atvinnu-uppbyggingu?

Sjálfstæðisflokkurinn er mjög hlynntur ríkisinngripum í markaðinn þrátt fyrir fögur loforð. Það sést kannski best á álversstefnu Íslands en er í raun augljóst á flestum stigum samfélagsins. Forræðishyggjunni formæla þeir jafnvel meir en ríkisrekstri en eru þó engu skárri en aðrir flokkar. Skoðum hvernig þingflokkurinn greiddi atkvæði um bann á nektardansi:

Greiddu atkvæði með banni:


Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson , Guðlaugur Þór Þórðarson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,

greiddu ekki atkvæði:


Árni Johnsen, Ragnheiður E. Árnadóttir


Voru ekki í vinnunni:


Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson,Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir

Flokkur einstaklingsfrelsisins stendur fyrir sínu. Ímyndum okkur nú í stutta stund hvernig kjósendur VG hefðu tekið því ef eitthvað hjartans mál VG hefði verið á dagskrá. Segjum sem svo að kjósa ætti um hvort Ísland ætti að leyfa herstöð aftur í Keflavík. Tækju kjósendur það gilt ef meirihluti þingmannana skrópuðu og restin sætu hjá?

Sumir segja að vinstrimenn nái aldrei árangri af því þeir kljúfi sig alltaf í fylkingar. En hægrimenn ættu að vita kosti frjálsrar samkeppni. Samfylkingin þorir aldrei að fara of langt til hægri af ótta við að kjósendur flytji sig þá yfir til VG. Sama gildir um framsókn. Fyrst um sinn virðist það kostur fyrir sjálfstæðismenn að eiga einir “hægri hliðina.” Þeir mynda þá yfirleitt stærstu blokkina í þinginu.

En er þetta ekki álíka og að vera eini kaupmaðurinn í firðinum og okra á liðinu. Vinstrimenn geta alltaf kosið þann flokk sem þeim lýst best á, og yfirleitt ef þeim líkar ekki kostirnir enda þeir á því að kljúfa sig og stofna flokk sem þeim líkar. Hefur þetta hamlað þeim eða hefur þetta kannski þrátt fyrir allt gert þá trúverðugri?

Og loka spurningin er Sjálfstæðisflokkurinn trúverðugur hægriflokkur?