Má ég halda með íslenska landsliðinu í handbolta?
www.framfarir.net

Má ég halda með íslenska landsliðinu í handbolta? Er það leyfilegt að mati þeirra aðila hér á landi sem helst vilja víst opna landamæri Íslands upp á gátt fyrir streymi útlendinga til landsins? Eða felur slík þjóðleg og eðlileg viðleitni e.t.v. í sér útlendingaandúð gagnvart handboltalandsliðum annarra þjóða að mati umræddra aðila?

Af hverju höldum við með landsliðinu okkar í handbolta umfram önnur handboltalandslið? Hvers vegna teljum við það ganga fyrir að okkar landslið vinni leiki fram yfir önnur slík? Er það vegna þess að við hötum önnur handboltalandslið? Er það vegna einhverra fordóma í garð þeirra þjóða sem tefla þeim fram? Nei, það er vegna þess að við höldum með okkar mönnum. Þeirra velgengni stendur okkur nær en velgengni annarra af eðlilegum ástæðum.

Faðir hatar ekki önnur börn þó hann hvetji sitt barn áfram í kappleik. Þó maður elski einn þarf það engan veginn að fela í sér hatur í garð annarra. Illa væri fyrir mannlegu samfélagi komið ef ekki mætti lengur elska nokkuð án þess að því þyrfti sjálfkrafa að fylgja hatur á öðru eins og ákveðnir aðila virðast halda að raunveruleikinn hljóði upp á.

Sama gildir í þjóðfélögum almennt og um eðlilega ást manna til föðurlanda sinna. Velferð fólks er á ábyrgð þess ríkis sem það hefur þegnrétt í. Forystumönnum ríkja ber því að beina sjónum sínum fyrst og fremst að hagsmunum sinna eigin þegna áður en þeir líta til annarra hagsmuna.

Hagsmunir íslenskra ríkisborgara eru þannig þeir hagsmunir sem við Íslendingar látum ganga fyrir, og eigum að láta ganga fyrir, áður en röðin kemur að öðrum. Þó ekki vegna einhvers haturs í garð útlendinga, eða vilja til þess að gera þeim illt á nokkurn hátt, heldur vegna þess að okkar fólk stendur okkur nær en annað fólk. Hagsmunir þess eru okkar hagsmunir.

Hjörtur J.
Með kveðju,