Nú nýlega hefur verið undirritaður samningur millum Bændasamtaka landsins og ríkisins um fjárstuðning í formi gæðastýringar þar sem tæplega hálfum milljarði er varið í þetta verkefni af hálfu stjórnvalda.

Nokkur orð hafa verið látin falla af hálfu ráðherra þess efnis hve nauðsynlegt sé að neytendur geti rakið framleiðsluferlið til framleiðanda og þessi gæðastýring sé til þess fallin.

Því miður á framleiðsla á kindakjöti eins og hún nú er, langt í land með það að geta talist frambærileg söluvara undir formerkjum sjálfbærrar þróunar einungis vegna stærðar framleiðslueininga.

Ausið var fé í söluátak í USA sem misheppnaðist enda menn út í móa í aðferðafræðinni, þrátt fyrir það atriði að hið háa Alþingi hafi samþykkt lög um lífræna ræktun, 1994, þá virðist vald stórframleiðenda til þess að “ breyta ekki neinu ” það mikið að
fáir hafa viljað af þessum lögum vita og þeir sem hófu þá lífræna ræktun hraktir burt af hinum sem vildu engu breyta og stjórnvöldum sem aðeins hafa eygt stóriðju í matvælaframleiðslu til þessa.

Svo virðist sem enn ætli menn að róa á sömu miðin þ.e. henda peningum í “ gæðastýringu ” til handa stórframleiðendum þótt framleiðsla þeirra verði ALDREI talin söluvara undir sjálfbærum markmiðum á alþjóðavísu, eins og áður sagði vegna verksmiðjuframleiðslueininga og notkunar tilbúins áburðar á tún.

Hér er að ég held aðeins verið að slá ryki í augu kjósenda og neytenda þess efnis að halda gangandi allt of dýru apparati alls konar vélvæðingar og verksmiðjuframleiðslu sem núverandi landbúnaður er, ásamt rándýrrri ráðgjafarþjónustu , því nota bene smábændur hafa flest ALLIR nú þegar
flutt á mölina og verið hraktir úr störfum sínum vegna
“ hagræðingar ” núverandi stjórnvalda í matvælaframleiðslu í formi þess að stækka búin.

Tal um að hér sé á ferð leiðrétting á kjörum sauðfjárbænda, er fremur seint á ferð er þeir hinir sömu hafa flosnað upp úr fjötrum fátæktar með tilheyrandi byggðaröskun.
Það eru nefnilega aðeins fremur fáir eftir í stéttinni og flest allir í stórframleiðslu eða búnir að selja burt sinn framleiðslurétt.

Hér er um hálfan milljarð að ræða og ég er ekki sátt við það að þessir peningar undir formerkjum gæðastýringar séu nýttir til annars en að auka gæði framleiðslu , en þau felast ekki í núverandi skipulagi mála.

kveðja.
gmaria.