Það er algengt að maður heyri:

Af hverju ertu alltaf að ásaka? Af hverju kemur þú ekki með neinar lausnir? Ég hef engan áhuga á sökudólgum, ég vil bara heyra lausnir.
Ég skil vel þessa afstöðu. En að benda á sökudólga er hluti af ferlinu þótt það sé óþægilegt og okkur Íslendingum leiðast óþægindi. (Eins og að mótmæla hávært eða jafnvel ítrekað).

Af hverju er það hluti af ferlinu?

Af því að sökudólgarnir eru hluti af vandamálinu. Traust er mikilvægur hluti af því að reka banka ekki satt? Ef fólk treystir ekki bankanum þá treystir það honum ekki fyrir peningum.
Ef banki fer á hausinn en heldur nákvæmlega sama fólkinu í sömu stöðum hvernig getur hann þá áunnið sér traust?
Ef fólk treystir ekki ákveðinni mynt og vill ekki geyma verðmæti sinn í ákveðnum peningum hvað á að gera? (Segjum íslenskum peningum).
Við getum byrjað á því að reka fólk sem sér um myntkerfið. Og ráðið nýtt fólk til þess að reka nýja stefnu.

Ef vandamálið felst í spillingu hvað gerir maður þá? Ef stjórnmálamenn, gott ef ekki heilu stjórnmálaflokkarnir hafa orðið uppvísir að spillingu og ekkert bendir til eftirsjár… Hvað gerir maður þá?
Hvað nú ef forsætisráðherran leyfir sama bankafólkinu og sömu seðlabankastjórninni að sitja áfram? Hvað nú ef eitthvað afar vafasamt í kringum tengsl bankana við pólitíkusana er á almannavitorði?

Hver er lausnin?

Lausnin er nýtt fólk. Annað fólk.


Brunalíkingin

Við heyrum oft talað um slökkvistarf. Eins og við megum ekki trufla það með kröfum um afsagnir eða rannsóknir. En er þetta virkilega sambærilegt? Ef þetta er allt í okkar þágu af hverju er þetta þá leynilegt? Ekki reyna slökkviliðsmenn að hylma yfir hetjudáðum sínum.

Að bera stjórnmálamenn saman við slökkviliðsmenn er niðrandi fyrir slökkviliðsmenn.
Fólk sem vinnur við að bjarga fólki úr brennandi húsum er fórnfúst og hugrakkt. (Og með léleg eftirlaun).
Fólk sem vinnur á alþingi þorir ekki einu sinni að gagnrýna nánustu samstarfsmenn sína og þora ekki einu sinni að segja satt. (Og það hefur góð eftirlaun).

Það veldur mér áhyggjum hve margir styðja ennþá Geir og Davíð í spillingu sinni og vanhæfni. En meira að segja George Bush á ennþá sína fylgjendur svo það er kannski ekki skrýtið.