Bush Bandaríkjaforseti flutti fyrstu stefnuræðu sína kl. 2 í nótt að íslenskum tíma (þ.e. kl. 21 að staðartíma). Það er ástæða til að óska forsetanum til hamingju með fallega og djarfa framkomu, skemmtilegt bros o.s.fr. en því miður er ekki sama hægt að segja um innihald ræðunnar.
Undrabarnið Bush upplýsti Bandaríkjaþing um að Bandaríkin hefðu nú aldrei verið sterkari en jafnframt að “stríðið gegn hryðjuverkum” væri rétt að byrja. Hann upplýsti þingið um að Íran, Írak og Norður-Kórea væru sérstaklega varasöm lönd sem ynnu hörðum höndum að því að koma vopnum til hryðjuverkamanna og annað álíka huggulegt. Sannanir og rök voru reyndar víðs fjarri en hverju skiptir það þegar forseti Bandaríkjanna, voldugasta lands í heimi, er að tjá sig?
Í stefnuræðunni lagði hann þó aðaláherslu á öryggi bandarísku þjóðarinnar og útskýrði þannig mestu útgjaldahækkun til hersins í tvo áratugi. Með þessum svífandi fjárhæðum munu hershöfðingjar og aðrir vitringar sjá til þess að herinn verði færanlegri og nákvæmari, þetta gefur e.t.v. til kynna hvað við eigum eftir að sjá í utanríkismálum Bandaríkja Norður-Ameríku.
Bush mun þá hafa lagt sérstaka áherslu á öryggismál innanlands, einkum á fjórum sviðum; eiturefnahryðjuverk, neyðarúrræði, flugvallar- og landamæraöryggi og aukin vitneskja í öryggismálum. Einhverjum finnast eflaust að forsetinn sé að einbeita sér að röngum málum, og sé e.t.v. ekki að ráðast að rót vandans. Þessum sömu mönnum finnast kannski að Bandaríkjastjórn ætti frekar að auka við sín 0,1% af þjóðartekjum sínum sem renna til fátækra þjóða, í stað þess að minnka hlutfallið, eins og horfur eru á. Rétt er að minna á að flestar mun fátækari þjóðir verja miklum mun stærra hlutfalli til fátækra þjóða og markmið Sameinuðu þjóðanna er að allar þjóðir verji 0,7%.
Ennfremur segir forsetinn knái að hann muni fylgja “öruggri skattastefnu” og að Bandaríkjamenn geti fengið “áreiðanlega orku á viðráðanlegu verði”. Eitthvað segir mér að þetta séu hvorki góðar fréttir fyrir vinnandi einstaklinga í landinu né fyrir þá sem gagnrýna gríðarlega jarðefniseldsneytisnotkun Bandaríkjamanna. Bandaríkjaforseti mun þannig, að öllum líkindum, auka enn við gróðurhúsaáhrifin sem flestar þjóðir heims (þó ekki Bandaríkin) ákváðu að berjast gegn.
Bush er einnig með efnahagsmálin á hreinu eins og kom fram í ræðu hans, lykillinn er að Bandaríkjamenn vinni fyrir sér og þá og því aðeins munu Bandaríkjunum vegna vel. Hann vísaði gagnrýni Demókrata á efnahagsmstefnu Repúblikana á bug, án þess þó að koma með sérstök rök og sagði bjarta tíma vera framundan í efnahgsmálum.
Bush endaði ræðu sína á þessum orðum: “We have known freedom's price. We have shown freedom's power. And in this great conflict, my fellow Americans, we will see freedom's victory,”. En Bush yngri hafði tæplega lokið við seinustu setninguna þegar mikil fagnaðarlæti brutust út og fólk sem hafði jafnvel dottað á meðan á ræðunni stóð sameinaðist í fagnaðarlátunum, ekki ósvipað og þegar einræðisherrar 20. aldarinnar héldu múgsefjandi ræður sínar.
Iluvata