(www.framfarir.net)
Víða í grunnskólum Reykjavíkur er ýmist fólk af erlendu bergi brotið við ýmis störf sem ekki er talandi á íslensku og jafnvel ekki ensku heldur. Fræðslustjóri Reykjavíkur, Gerður Óskarsdóttir, var spurð álits á því í Útvarpi sögu sl. fimmtudag hvort ekki væru gerðar þær kröfur til starfsmanna grunnskóla Reykjavíkur að þeir gætu tjáð sig á íslensku.
Gerður svaraði því til að ekki þætti nein sérstök ástæða til að gera þær kröfur til starfsmanna grunnskólanna og ennfremur að það væri einungis gott fyrir börnin að hafa samskipti við fólk af erlendum uppruna. Hvers vegna eru þessar kröfur ekki gerðar til starfsmanna skólanna? Og hvernig geta börnin átt samskipti við erlenda starfsmenn skólanna ef þeir geta ekki talað íslensku?
Hvað síðan með öryggisþáttinn? Hvers vegna í ósköpunum er öryggisstaðallinn í grunnskólum Reykjavíkur lækkaður með svo afgerandi hætti með því að hafa þar fólk við störf sem er óhæft til að bregðast við í neyðartilfellum vegna þess að það getur ekki gert sig skiljanlegt við nemendur skólanna og jafnvel ekki heldur við aðra starfsmenn þeirra? Hvernig geta þessir starfsmenn t.d. brugðist við hlutum eins og einelti þegar þeir geta hvorki vitað hvert vandamálið er né út á hvað það gengur? Og hvað ef slys ber að höndum þar sem hver mínúta skiptir máli? Er það virkilega réttlætanlegt að stefna öryggi nemenda grunnskólanna í hættu eins og nú er gert með þessu fyrirkomulagi?
Og hvað með þjónustuþáttinn við börnin? Hvers vegna í ósköpunum á að skerða þjónustuna við börnin í grunnskólum Reykjavíkur vegna þess að ákveðnir starfsmenn eru ófærir um að hafa samskipti við þau og þar með algerlega óhæfir til að gegna stöðum sínum? Þessir starfsmenn gætu allt eins verið mállausir, enda eru þeir það í raun.
Gerður fullyrðir aukinheldur að íslenska þjóðin vilji búa í fjölmenningarlegu samfélagi án nokkurra raka. Hvenær í ósköpuum var íslenska þjóðin eiginlega spurð að því hvort hún vildi búa í slíku samfélagi? Því er auðsvarað: Aldrei! Hins vegar hafa aðilar eins og Gerður greinilega tekið sér það vald að ákveða það hreinlega fyrir þjóðina að henni forspurðri. Mikil er virðing slíkra aðila fyrir vilja íslensku þjóðarinnar svo ekki sé minnst á lýðræðinu.
Í lok svars síns fullyrðir Gerður síðan að Ísland sé í dag fjölmenningarlegt samfélag og sem fyrr án nokkurs rökstuðnings. Um þetta virðist þó vera mikill ágreiningur meðal fjölmenningarsinna því aðeins fyrir stuttu síðan lýsti Mörður Árnason því yfir í Silfri Egils að Ísland væri þjóðríki. Staðreyndin er einmitt sú að Ísland ER þjóðríki, enda eru einungis um 2% íslenskra ríkisborgara með annan menningarbakgrunn en íslenskan. Það fyrirkomulag að um 98% íbúa þjóðfélags séu með sama menningarbakgrunn kallast þjóðríki en ekki fjölmenningarlegt samfélag. Fjölmenningarlegt samfélag kallast það þegar engin ein menning er með afgerandi yfirburði yfir aðrar í viðkomandi samfélagi. Við skulum þó vona að slíkt Balkanskaga-ástand, með tilheyrandi hörmungum, verði aldrei raunin á Íslandi.
Hjörtur J.
Með kveðju,