Hægrisinnaður anarkismi, einnig nefnd öfgafrjálshyggja, gengur út á að einstaklingurinn eigi að ráða sér algerlega sjálfur og enginn eigi að hafa vald til segja honum hvað hann megi og hvað ekki. Þessar hugmyndir eiga þó aðeins erindi í heimi þar sem hver einstaklingur býr í einn út af fyrir sig og þar sem gerðir hans hafa einungis áhrif á hann einan og aðra ekki. Þannig er það bara ekki í raunveruleikanum eins og flestir kannast væntanlega við. Gerðir okkar, slæmar sem góðar, hafa meira eða minna áhrif á umhverfi okkar og þar með talið aðra einstaklinga. Hugmyndafræði sem þessi mun vera í hávegum höfð t.a.m. í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðimanna í Reykjavík.
Vinstrisinnaður anarkismi á það sameiginlegt með þeim hægrisinnaða að telja allt yfirvald af hinu illa hvaða nafni sem það nefnist og hvert sem þetta yfirvald er. Hins vegar mun vinstri-anarkismi gera út á samvinnu einstaklinganna í stað algers frelsis einstaklingsins til að ráða sér sjálfum. Hægrisinnaður anarkismi er þannig að því leytinu mun sannari en sá vinstrisinnaði þar sem sá síðarnefndi mun vilja skikka alla til samvinnu og til að lifa samkvæmt hugmyndafræði sinni hvort sem þeir vilja það eður ei á meðan sá fyrrnefndi vill að einstaklingarnir ráði því alfarið sjálfir hvort þeir vinni með öðrum eða hangi úti í horni einir út af fyrir sig.
Samkvæmt boðskap vinstri-anarkista er grundavallarspeki anarkismans að yfirvald sé ekki bara óþarft heldur og komi það í veg fyrir að hæfileikar hvers einstaklings fái að njóta sín og ennfremur að anarkistar almennt trúi því að manneskjur séu færar um að annast eigin mál á grunni sköpunarvilja, samvinnu og gagnkvæmrar virðingar. Einnig að í fyrirmyndar anarkistasamfélagi sé vonast til að þörfum samfélagsins í heild sinni sé hægt að mæta án þess að troðið sé á frjálsum vilja og sjálfákvörðunarrétti einstaklingsins innan samfélagsins. Samt vilja þeir skikka menn til samvinnu og til að lifa skv. ákveðinni hugmyndafræði hvort sem menn vilja það eður ei.
Það er einu sinni bara ekki hægt að steypa alla í sama form og því síður gera öllum til geðs þó anarkistar virðist halda það. Allt yfirvald getur ennfremur bara ekki verið slæmt. Hugmyndir anarkista fela einfaldlega í sér allt of mikla alhæfingu og einföldun. Hvað með t.d. vald foreldra yfir börnum sínum? Á það sem sagt ekki rétt á sér? Ekki samkvæmt hugmyndum anarkista.
Annars má að lokum nefna það að anarkistar virðast, ásamt mörgu öðru, hafa gleymt að valdi verður ekki útrýmt í þessum heimi. Það mun alltaf einhver taka sér það og þess vegna er nauðsynlegt að tryggja að valdið sé í höndum þeirra sem við almennt treystum best til að fara með það sem í flestum tilfellum eru sennilega þeir sem við veljum til þess. Lýðræði er kannski ekki fullkomið stjórnarform, en eins og Winston Churchill sagði eitt sinn þá höfum við bara ekkert betra.
Kv.
Hjörtur J.
Með kveðju,