Sæll aftur,
Ég vil í þessu sambandi vitna í grein BJOx sem hann ritaði á Deigluna þann 11. september sl. og ber nafnið “Ísland eða ESB?”:
—
Ísland eða ESB?
BJOx, þann 11. desember 2001
Það er vart hægt að komast hjá því nú til dags ,á öldum ljósvakans, að heyra ekki einhverjar umræður um ESB (Evrópusambandið) mál. Nú er svo komið að menn vilja nýta sér hjöðnun á íslensku efnahagslífi, slagt gengi krónunnar, gjaldþrotahrinu og verðbólgu til þess að auka hilli landans að ESB aðild og upptöku Evrunnar. Í sjálfu sér eru þetta engin rök þar sem landið hefur áður séð tímana tvenna, auk þess verri þrengingar en menn munu upplifa nú. Þetta er náttúrulega ekkert annað en blekking. Ísland er komið eins mikið að ESB og þorandi er, að svo stöddu, með aðild sinni að EES (Evrópska efnahagssvæðið) samningi okkar við ESB.
Hvað væru Íslendingar í raun að gefa eftir með aðild að ESB? Hver væri staða okkar innan ESB í framtíðinni? Hvað er ESB og hver er stefnan?
Hvað er ESB?
ESB var í upphafi EB (Evrópubandalagið), þjóðríkjabandalag sem samanstendur af þjóðum sem hafa afsalað veigamiklum völdum til æðstu stofnana ESB og því virðist sem svo að hér sé að myndast nýtt sambandsríki, ekki ósvipað og við þekkjum í Bandaríkjunum þó að þeir séu búnir að lifa miklu lengur við það fyrirkomulag en lönd innan ESB. Þessu til stuðnings má benda á breytt nafn þessarar stofnunar, úr bandalagi yfir í samband. Nú er það svo að það færist í vöxt innan ESB að neitunarvald er að hverfa og í stað þess kemur meirihlutavald, ekki ósvipað og í sjálfstæðu ríki. Því má spyrja sig þeirrar spurningar hvort að hér sé að myndast Stórríki undir einum fána og einnar myntar. Svarið hlýtur óneitanlega að vera jákvætt, miðað við forsendur í dag.
Það er alls ekki svo að allt sé slæmt við aðild að ESB, langt í frá, gallarnir eru bara svo miklu fleiri og veigameiri, að aðild er ekki forsvaranleg.
Það er staðreynd að ESB auk innlendra hagsmunapotara, eyða árlega miklum fjármunum, tugum milljóna, í áróðursstarf fyrir inngöngu Íslands í ESB. Helstu rök fyrir inngöngu er að sjálfsögðu okkur öllum kunn:
1) Ísland hlýtur að einangrast utan ESB.
2) Við getum samið sérstaklega um fiskveiðarnar og aðgang að fiskimiðum okkar við ESB.
3) Efnahag landsins er betur borgið í höndum ESB.
4) Við getum haft meiri áhrif innan ESB en utan þess.
5) Það er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með umsókn um aðild.
6) Neytendur njóta góðs af inngöngu í ESB í formi lækkaðs vöruverðs.
7) Fyrirtæki njóta góðs af aðild í formi greiðari aðgangs að mörkuðum og hagræðingar í rekstri.
Öllum þessum spurningunum hér að ofan er svarað í þessari grein, þó í engri sérstakri röð, og fleiri til. Ég gríp í það helsta, enda málið svo stórt að það myndi rúma heila bók og vel til. Ég ákvað því að benda á ókosti þessara málaflokka, enda lítið farið fyrir slíkum skrifum, þar sem ég er á móti ESB aðild og upptöku Evrunnar.
Fiskimiðin
Árið 1958 hófu Íslendingar sitt fyrsta þorskastríð, þegar fiskveiðilögsaga landsins var færð í 19 km (12 míl.). Íslendingar hófu svo sitt annað þorskastríð árið 1972 þegar lögsaga landsins var færð í 80 km (50 míl). Á árunum 1975 – 1976 stóðu Íslendingar í sínu þriðja og síðasta þorskastríði þegar ákveðið var að lögsaga landsins yrði 320 km (200 míl). Íslendingar, hvergi bangnir, vörðu sín nýju fiskimið í hvert skipti með kjafti, klóm og hinum illræmdu klippum sínum. Ísland hefur markað afkomu sína af hafinu, flóknara er það ekki. Hér er efnahagslífið ennþá mjög einhæft og því mikilvægt að skoða í kjölinn hvað er í boði með inngöngu í ESB.
Það að hafa skrifstofukarla við völd við úthlutun á veiðiheimildum Íslendinga er eitt og sér mjög varhugavert. Það mun vera víst að fleiri hagsmunamál en Íslendinga sjálfra munu ráða því hvar og hver veiðir innan íslenskrar lögsögu. Í sjálfu sér er það ekki kvótakerfið eitt og sér sem hefur átt sök á hnignun fiskistofna við Íslandsstrendur, heldur líka aðferðarfræði Fiskistofu. Unnið hefur verið ötullega að því undanfarin ár að bæta núverandi kerfi. Hvort það leiðir til endanlegs fráhvarfs kvótakerfisins skal ósagt látið. Ekki er heldur forsvaranlegt að treysta stofnun sem er í slíkri fjarlægð frá umráðasvæði sínu.
Ef Íslendingar myndu velja ESB, myndi það m.a. þýða að íslensk veiðihefð myndi færast aftur til þess sem hún var árið 1958. Það eru engin rök að Íslendingar fái veiðiheimildir hjá öðrum þjóðum, þar sem okkar haf er með því hreinasta sem gerist í veröldinni, fiskurinn þar með talinn líka. Íslendingar hafa gefið sér gott orð fyrir eðals fiskvörur. Ljóst er að það myndi án efa breytast þegar hráefnið verður lélegra.
Það er t.d. orðin hefð innan ESB að veiðiheimildir geta skipt um hendur án frekari afskipta viðkomandi lands sem í raun á þær heimildir, svipað og kvótabrask hér á Íslandi. Vegna þessa ágalla hafa t.d. Spánverjar og Hollendingar sölsað undir sig 20% af fiskiskipaflota Breta. Þeir veiða af heimildum Breta, en landa svo aflanum í heimalandi sínu. Með þessu móti fara öll verðmæti frá Bretunum, t.d. veiðiheimildir, hráefnisvinnsla og fullvinnsla á fiskafurðum. Þetta mun án efa gerast hér líka, sé taumnum sleppt og dýrinu hleypt inn. Þetta er án efa mikið verra vandamál en núverandi kvótakerfi, þar sem verðmæti myndu alfarið flytjast úr landinu.
ESB vill meina að samkvæmt veiðireynslu ættu Íslendingar að njóta þess að sitja einir að fiskimiðum sínum. Þetta er ekki rétt þar sem í fyrsta lagi myndi ESB ekki samþykkja aðra eigin-veiðilögsögu Íslendinga en sú innan 19 km. Einnig kemur hvergi fram af ESB hálfu hversu langt aftur í tímann svokölluð ,,veiðireynsla” er í raun skoðuð annað en það að “tekið er mið af” veiðireynslu áranna 1973 – 1978. Þess má geta að á árunum 1973-76 var fiskveiðilögsaga Íslands 80 kílómetrar (50 míl). Menn mega ekki gleyma því að á Íslandssmiðum hafa m.a. Bretar, þjóðverjar, Hollendingar, Spánverjar o.fl. veitt mest allann fyrri hluta síðustu aldar og langt undir lok síðasta þorskastríðs árið 1976. Væri þá ekki augljóst hverjir gætu og myndu gera tilkall til veiðiheimilda á Íslandsmiðum, í ljósi veiðireynslu hér? Þetta er svo stórt hagsmunarmál fyrir Íslendinga að það er ekki forsvaranlegt að hunsa það eða gera lítið úr því.
Landbúnaður
Annar mikilvægur þáttur í ferlinu varðandi ESB er að gera sér grein fyrir stöðu landbúnaðarins ef að inngöngu kæmi. Leiða má líkur að því að það séu tvísýn rök, með og á móti í þessum málaflokki. Margt af því sem neytendur fengju með tilkomu ESB væri á allann hátt góður rökstuðningur til þess að innganga væri fýsilegur kostur. Á hinn bóginn má ekki gleyma því að heilu byggðarlögin eru undir því komin að þar þrífist landbúnaður, sama og með fiskinn.
Ríkisstyrkir til landbúnaðar hafa farið minnkandi með hverju árinu. Þetta er gert í samræmi við pólitíska stefnu, auk þess að við höfum skyldað okkur til þess með EES samningi við ESB. Þetta er gert til þess að þessi grein hagræði og samnýti þann kost sem fyrir hendi er, neytendum til góða.
Ef að aðild kæmi í ESB, væri nánast augljóst að byggðarlög sem byggja afkomu sína á landbúnaði myndu nánast örugglega leggjast af. Þarna er verið að flýta því ferli og vandamáli sem fylgir landsbyggðarflótta. Sjálfsagt myndi þetta fólk þurfa að skipta um búsetu, eiga við atvinnuleysi og sökkva í fjöldann á Suð-Vesturhorni landsins, eða jafnvel höfuðstöðvum Norðulands. Þetta er þróun sem hefur ötullega verið barist við. Nær öruggt þykir að með þessu yrðu þetta endalok þess málaflokks hér á landi. Það má ekki fara með flembrur eða ósannindi og halda því fram að fólk “vilji sjálft” flytjast. Flestir væntanlega eru til þess neyddir þegar atvinna þess er tekin af því og skilyrði til búsetu eru ekki fyrir hendi. Hér færi þá af stað alsherjar eignarrýrnun og nánast eignarupptaka, þar sem fasteignir þessa fólks væru verðlausar, þegar grundvelli fyrir búsetu er kippt undan heilu byggðarlagi með slíkum hætti.
Margir bændur lifa við eða undir fátækramörkum, þetta myndi reka smiðshöggið fyrir þann hóp. Sennilega eina afurðin sem gæti lifað af er lambakjötið. Annað, t.d. mjölkurafurðir (mjólk, ostar, smjör), svínakjöt, kjúklingar o.m.fl. myndu syngja sitt síðasta í engri samkeppnisaðstöðu gagnvart óheftum innflutningi frá ESB ríkjum.
Einnig má leiða hugann að þeirri ógn sem stafar af sjúkdómum í afurðum ESB ríkja t.a.m. gin og klaufaveiki, sem hefur lagt af töluverðann hluta stofna búpenings t.d. í Bretlandi, eins og landsmönnum er enn í fersku minni.
Fyrirtæki
Margir hafa bent á það hagræði sem byðist íslenskum fyrirtækjum ef af aðild ESB yrði. Þetta væri þá í formi þess að fyrirtækin hefðu greiðari aðgang að mörkuðum innan ESB.
Ef tekið er tillit til fyrirtækjaumhverfis og almenns ástands í þjóðfélaginu í dag á Íslandi, er ekki laust við að maður spái í því hvort sé verra fyrir almenning, íslensk gjaldþrot eða ESB. Halda menn virkilega að Ísland þurfi að afsala 80% af landsframleiðslu, sbr. fiskinn, til þess eins að nokkur fyrirtæki fái stærri markað, eða litlu meiri lífslíkur? Og hvaða markað þá? Hvaða fyrirtæki þá? Staðreyndin er sú að aðild myndi einungis þjóna hagsmunum lítils sérhæfðs hluta fyrirtækja hér á landi.
Það er staðreynd að hlutfallslega eiga íslendingar ekki mikilla hagsmuna að gæta er varðar markaði innan aðildarríkja ESB. Ég hef ekki betur séð en að fyrirtæki spjari sig ágætlega í fjölþjóðaflórunni, og við erum ekki gengin í ESB. Nýjasta dæmið er X18, þar hefur sannað sig að íslensk fyrirtæki geta vel þanið út anga sína utan ströndum Íslands. Baugur, þeir eru á fullri ferð að byggja upp sinn rekstur utan Íslands, þar sem þeirri vinnu er lokið hér, tími til útþennslu. Opin Kerfi hafa einnig komið sér útfyrir landsteinana, Össur einnig svo ekki sé minnst á Íslenska Erfðagreiningu eða Landsteina. Þar með er slegið á öll rök um einangrun og vandkvæði íslenskra fyrirtækja á að komast á “opnari” markaði. Menn hafa talað um það í 10 ár að Ísland muni einangrast utan ESB. Það er ekki reyndin í dag, og verður sjálfsagt aldrei reyndin í nánustu framtíð.
Gjaldmiðlar
Miklar breytingar í gjaldeyrisfrelsi fyrirtækja eru á næsta leiti með nýjum lögum þar um sem taka gildi eftir áramót. Nú mun fyrir alvöru reyna á hvaða gjaldmiðill mun lenda efstur á lista, fremur en krónan.
Margir hafa álitið Evruna vera bjargvætt krónunnar. Þetta er ekki hægt að taka undir, m.a. vegna þess að íslenskur efnahagur er mikið háðari t.d. Bresku pundi og Bandarískum dollar. Mikið nær væri að halda uppi merkjum GBP eða USD, en ekki EUR hjá ESB.
Hagsveiflur Íslands og aðildarríkja ESB eiga heldur ekkert sameiginlegt. Það má t.d. nefna að árið 1999 féll evran á stuttum tíma um 30% í frjálsu falli, þegar Íslendingar voru að upplifa gríðarlega uppsveiflu og þennslu. Það þarf engann hagfræðing til að ímynda sér hver útkoman hefði verið fyrir íslenskann efnahag, hafi evran verið ráðandi gjaldmiðill. Það er þó þannig að krónan hefur veikst mikið undanfarið. Það eru þó ekki rök fyrir því að kasta henni fyrir borð. Að lýðræðisríki eins og Ísland hafi sinn eigin gjaldmiðil er mikilvægara fyrir þær sakir að hér er efnahagslífið einhæft og smátt í sniðum. Þar með þurfum við eiginn gjaldmiðil til að nota sem hagstjórnartæki þegar kreppir að. Ef að Íslendingar missa þetta vald er ljóst að hér mun verða slæmt ástand í atvinnumálum og almennum hagvexti. Talandi um hagvöxt, þá er það staðreynd að t.d. Noregur og Ísland hafa búið við betri og meiri hagvöxt undanfarin ár en nokkurt ríkja innan ESB. Þetta leiðir mig aftur að þeirri skoðun að aðild er þjóðhagslega slæm.
Ríkisstjórnin hefur þó stigið mikilvægt skref fyrir fyrirtækin og ný lög sem taka gildi um áramótin gera fyrirtækjum kleift að gera upp í þeirri mynt sem þau kjósa. Þetta er óneytanlega upphafið að hliðarinnkomu nýs gjaldmiðils á Íslandi. Persónulega tel ég þetta vera eðliegri farveg fremur en að afsala ríkinu þeim hagstjórnartækjum sem m.a. eiginn gjaldmiðill svo sannanlega er. Svo verður reynslan að leiða okkur í ljós hvaða gjaldmiðill mun standa ofar öllum öðrum.
Kostnaður
Margir hafa bent á það að Ísland muni njóta styrkja úr sjóðum ESB. Enginn hefur þó þorað að gefa upp þá tölu sem þar um ræðir hvorki fylgdarmenn ESB aðildar eða hvað þá ESB sjálft.
Innganga og aðild að ESB er þó blóðtaka fyrir ríkissjóð. Líkja mætti “aðildargjaldinu” við viðbótar tekjuskatt á íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki sem nemur allt að 2,5% tekjuskatti aukalega við það sem nú er, eða í kringum 9 milljarðar á ári. Þegar ríkjunum fjölgar innan ESB kemur þetta hlutfall eðlilega til með að hækka þeim mun meira og kostnaðurinn aukast enn frekar. Þetta er þróun sem Íslendingar ættu ekki að þrá, þegnar sem lifa við hæstu jaðarskatta, þó víðar væri að leitað.
Fullveldið
Sá algengi miskilningur hefur því miður vaðið um götur vor að Ísland hafi í raun afsalað fullveldi sínu, sjálfstæði þar með, við gerð og staðfestingu EES samningsins. Þessu til stuðnings hafa menn varpað því fram að hér á landi séu að taka gildi sam-evrópsk lög þar sem við fáum engu ráðið um. Hér er bæði mikill miskilningur og ósannindi á ferð.
Ef við lítum á það í stuttu máli hvað felst í fullveldi þá er það þjóð sem er sjálfráða og sjálfbær innbyrðis og útbyrðis, sem tekur eigin ákvarðanir í eigin þágu án utanaðkomandi afskipta á eigin forsendum. Með inngöngu í ESB mun þetta vald verða afsalað til skrifblokka ESB í Brussel. Þar með væru Íslendingar að hverfa meira en hálfa höld aftur í tímann í sjálfstæðisbaráttu sinni, með því að taka upp fyrirkomulag sem tíðkaðist fyrir 17. júní 1944. Á þeim tíma voru Íslendingar undir oki Danaveldis, með einungis heimastjórn að vopni. Þetta er nákvæmlega það sem gerist ef Ísland gengur í ESB.
Þróun ESB hefur verið frá bandalagi yfir í það að nú er þetta fyrirbæri orðið ríkjasamband. Neitunarvald ríkja innan ESB hefur verið að hverfa smátt og smátt og þess í stað er meirihlutaákvörðun að skapa sér sterkt fordæmi. Þetta þýðir að fyrir Íslendinga í framtínni: Engin völd. Íslendingar munu sjálfsagt hafa meiri völd innan ESB með EES samningi sínum en nokkurn tímann beinni aðild. Ákvörðunarréttur Íslands myndi sjálfsagt jafnast á við lítinn bæ, í litlu þorpi, innan borgarmarka, í sýslu, í einu af 50 ríkjum í Bandaríkjunum.
Að lokum
Ég vil eindregið hvetja fólk til almennrar umræðu um alla kosti og galla sem fylgir aðild að ESB og upptöku Evrunnar. Það eru t.d. ítarlegar upplýsingar á slóðinni -
http://www.fullveldi.is - og í bókinni - “Sjálfstæðið er sívirk auðlind”, eftir Ragnar Arnalds. Svo er hægt að benda á vef sambandsins,
http://europa.eu.int - Það er ekkert eins hættulegt og fáfræði, mannkynssagan sannar það. Margir andstæðingar ESB hafa tekið svo sterkt til orða að jafna inngöngu ESB við landráð. Ég kýs að taka ekki svo sterkt í pólinn enda held ég að þegar hver og einn skoðar galla aðildar á móti kostum, hlýtur viðkomandi að vera það ljóst að innganga í ESB er ansi dýru verði keypt. Þetta er í raun spurning hvort almenningur kýs ESB fremur en Ísland. Í raun leysir aðild engin vandamál á Íslandi, heldur býr bara til ný vandamál - aukalega ofaná þau sem fyrir eru.
Kveðja, bjox@visir.is
—
Þessi grein segir í raun allt, eða a.m.k. flest, sem segja þarf um þessi mál. Það þjónar e.t.v. hagsmunum ákveðinna örfárra hópa innan þjóðfélagsins að ganga í ESB en ef menn hætta að vera þröngsýnir og horfa á stóru myndina, þ.e. allt þjóðfélagið, þá þjónar það alls ekki hagsmunum þess í heild að ganga í sambandið.
Kv.
Hjörtu