Ef það er einhver maður sem oftar hefur verið nefndur í fréttum ársins en Osama bin Laden þá er það George W. Bush Bandaríkjaforseti.
Hann tók við forsetaembættinu 20. janúar 2001 og er því tilvalið að líta á nokkur valin verk hans nú um áramót, næstum ári síðar.
Hann beið ekki lengi með að taka umdeildar ákvarðanir. Sú fyrsta var að stöðva greiðslur til félaga sem framkvæmdu fóstureyðingar eða veittu ráðgjöf í þeim efnum. Það er svolítið kaldhæðnislegt að afkastamesti böðull seinni tíma í Bandaríkjunum skuli gera það að sínu fyrsta verki að koma í veg fyrir að fóstureyðingar séu styrktar af almanna fé, en það kemur ungum fátækum stúlkum verst og fjölgar vanhirtum börnum sem mörg eiga enga framtíð fyrir sér nema í glæpum.
Í mars ákvað Bush að skrifa ekki undir Kyoto samkomulagið þar sem það væri ósanngjarnt gagnvart bandarískum fyrirtækjum. Bandaríkin bera ábyrgð á 25% þess magns af gróðurhúsalofttegundum sem blásið er út í andrúmsloftið á hverju ári, þrátt fyrir að þar búi einungis 4% mannkyns. Bush var þó því fylgjandi að vinna að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í heimunum, t.d. í þróunarlöndunum.
Það er því gamla góða stefnan: Við skulum laga þetta en ég ætla ekkert að leggja á mig til þess.
Aðfaranótt fyrsta apríl lenti bandarísk njósnaflugvél í árekstri við tvær kínverskar orustuþotur. Önnur þotan fórst með flugmanni en bandaríska njósnavélin, sem hafði verið í leiðangri við kínverska lofthelgi, laskaðist og þurfti að nauðlenda á kínverskri eyju.
Þessi atburður hleypti ollu í loft upp í samskiptum þjóðanna.
Þó það hafi verið nokkuð ljóst að Kínverjar mundu ekki hætta á það að skaða bandarísku áhöfnina þá voru þeir ekki tilbúnir að skila vélinni mótþróalaust.
Eftir þónokkrar viðræður létu þeir þó til leiðast en vildu afsökunarbeiðni frá Bandaríkjamönnum fyrir að hafa valdið dauða kínverska flugmannsins. En það fannst Bush alls ekki koma til greina.
En hvernig er það, haldið þið að Bush hefði skilað vélinni ef hlutverkum hefði verið snúið við?
Seinna í apríl var lítil flugvél skotin niður yfir Perú af hernum þar í landi. Innanborðs voru bandarískir trúboðar.
Seinna kom í ljós að bandarísk yfirvöld höfðu komið að málinu með því að gefa upp einkennisstafi flugvéla, sem grunaðar voru um að flytja fíkniefni, svo skjóta mætti þær niður.
Bandarískum yfirvöldum finnst það semsagt í lagi að taka grunaða fíkniefnasmyglara af lífi yfir Suður-Ameríku án dóms né laga. Það var leitt fyrir þessa trúboða, þar sem þeir voru alsaklausir.
Um miðjan maí sagði Bush að of mikið væri um ofbeldi í Bandaríkjunum en þó styddi hann ekki ný byssulög sem takmarka eiga byssueign Bandaríkjamanna. Þetta er þó varla skrýtið þar sem mér skilst að Bush sé hinn ágætasti veiðimaður og finnist fátt skemmtilegra en að fara á fuglaveiðar með M 16 riflinum sínum.
Í maí lýsti Bush því einnig yfir að eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna yrði að veruleika sama hvað hver segði.
Með þessu kerfi taka Bandaríkjamenn sér einkaleyfi á notkun meðal- og langdrægra flauga. Eitthvað sem ég held að ýmiss önnur ríki séu ekki sátt við og munu því fara í nýtt vígbúnaðarkapphlaup.
Í júni kom Bush svo öllum á óvart og sagðist vilja hætta lögsókn á hendur tóbaksfyrirtækjum og leita sátta. Þetta hefði þó ekki átt að koma svo mikið á óvart þar sem tóbaksfyrirtækin studdu hann ötullega í kosningarbaráttunni.
Það sást í ágúst að það eru fleiri sem eiga vin í Hvíta húsinu en tóbaksframleiðendur. En þá samþykkti fulltrúadeildin orkufrumvarp þar sem m.a. þar er stutt að borað verði eftir olíu og gasi á dýraverndunarsvæði í Alaska. Ekki var hlustað á tillögur sem mundu minka eldsneytisnotkun enda væri það líklega, eins og Kyoto samkomulagið, ósanngjarnt fyrir bandarísk fyrirtæki.
Um svipað leiti komu Bandaríkin ein og sér í veg fyrir að samþykkt yrði eftirlit með banni við sýklavopnum. Bush sagði það ekki koma til greina að hleypa erlendum eftirlitsmönnum inn í landið þar sem þar gætu leynst iðnaðarnjósnarar eða vitneskja úr bandarískum lyfjafyrirtækjum lekið út.
Enn sem fyrr er Bush meistari í kaldhæðni þar sem hann virðist hafa fengið þessi rök að láni frá starfsbróður sínum Saddam í Írak. Munurinn er aðallega sá að Saddam vildi ekki láta njósna um sjálfan sig.
Þrátt fyrir að Bush komi svona í veg fyrir alþjóðlegt eftirlit (líka í Bandaríkjunum) með sýklavopnum þá kemur það ekki í veg fyrir að hann setji Saddam úrslitakosti um að hleypa eftirlitsmönnum inn.
Enn er það afstaðan: Það verður að passa upp á að enginn hafi svona, nema við.
Það var reyndar ekki skrýtið að Bush væri á móti svona alþjóðlegu eftirliti þar sem í ljós hefur komið að Bandaríkjaher hefur verið að rannsaka og þróa miltisbrand til notkunar.
Það kom einungis í ljós vegna póstsendinga eftir 11. 9. en hvað ætli sé verið að framleiða annað.
Setpember byrjaði á því að Bandaríkin hættu þátttöku í ráðstefnu SÞ um kynþáttafordóma vegna gagnrýni alþjóðasamfélagsins á stefnu Ísraelsmanna.
En svo kom þessi hryllilegi atburður 11. September og á eftir fylgdu hryllilegar aðgerðir Bandaríkjastjórnar.
Í kjölfarið var stærru hluti heimsins en nokkurn tíman áður sameinaður í samúð með Bandaríkjamönnum.
Fljótlega voru samþykkt lög sem heimiluðu Bush af skipa CIA að myrða hvaða mann í heimi sem er, þar með talda þjóðarleiðtoga.
Bush skipti heiminum upp í tvær fylkingar: Þá sem voru tilbúnir að styðja baráttu gegn því sem hann telur vera hryðjuverk og svo rest, bæði þá sem eru á móti öllum hryðjuverkamönnum og svo hryðjuverkamenn sem ekki voru vinir Bandaríkjamanna.
Stríð var undirbúið og stuðningur keyptur. Viðskiptaþvingunum var létt að Indlandi og Pakistan og Kínverjar fengu nýja varahluti í bandarískar þyrlur sýnar.
Allir fengu eitthvað fallegt nema Castró, börnin í Írak, talíbanar og auðvitað Íslendingar sem veita Bandaríkjunum stuðning sinn fyrirvaralaust.
Bush setti talíbönum úrslitakosti: Framseljið bin Laden til Bandaríkjanna eða búið ykkur undir að vera eytt.
Bandaríkin höfðu reyndar átt í leynilegum viðræðum við talíbana fyrir árásina á WTC. Einhverjir sem komu að þessum viðræðum fyrir hönd Bandaríkjanna sögðu eftir árásina að þeir hefðu greinilega misskilið merkjasendingar talíbana. Þeir hefðu viljað losna við bin Laden en þurft eitthvað á móti til að halda andlitinu. Þeir gerðu því kröfu um að hann yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna heldur til þriðja lands, t.d. Saudí-Arabíu.
Eftir árásina voguðu þeir sér að krefjast þess að sjá einhverjar sannanir fyrir því að bin Laden tengdist þessum árásum. En Bush sagði einfaldlega: “Það verða engir samningar.”
Reglan, “Saklaus uns sekt er sönnuð”, var alveg horfin úr kollinum hans Bush enda sagði hann um bin Laden “WANTED DEAD OR ALIFE”.
Þetta samfélag jafnréttis og ríkisstjórn þess er enn með um 600 meinta brotamenn innflytjendalöggjafar í varðhaldi í tengslum við árásina, er með áform um að yfirheyra 5.000 karlmenn af mið-austurlenskum uppruna sem dveljast í Bandaríkjunum á ferðamannavegabréfsáritun og hefur svo samþykkt að leiða erlenda menn grunaða um hryðjuverk fyrir herrétt í stað almennra réttarhalda en í herrétti eru réttindi hins grunaða næstum engin.
Um 10. desember var talið að 3.767 óbreyttir borgarar hefðu fallið árásum Bandaríkjamanna á Afganistan. ATH: Þessar tölur koma ekki frá talíbönum heldur er þetta samkvæmt samantekt Marcs W. Herold, prófessors við háskóla í New Hampshire. Nú þremur vikum seinna er þessi tala enn að hækka.
Eftir því sem næst verður komist voru það rúmlega þrjúþúsund manns sem féllu í árásunum 11. september.
Af hverju fordæmum við ekki dráp á óbreyttum borgurum í Afganistan fyrst við fordæmdum drápin 11. september?
Er líf óbreyttra afganskra borgara kannski ekki eins verðmætt og líf óbreyttra Bandaríkjamanna?
Það þótti síðan snilldarleikur hjá Bush í desember þegar hann sagði upp ABM gagnflaugasamningnum en þar kom hann andstæðingum stjörnustríðsáætlana algjörlega að óvörum. Ég held líka að ef hryðjuverkamenn kæmust yfir kjarnorkuvopn, að einfaldasta leiðin til að sprengja hana í bandarískri borg væri að senda hana með DHL.
15. desember beittu Bandaríkin svo neitunarvaldi sínu og komu þannig í veg fyrir samþykkt ályktunar sem fordæmir hryðjuverk Palestínumanna sem og Ísraelsmanna og krefst þess að endi verði bundinn á 15 mánaða ofbeldi fyrir botni Miðjarðarhafs.
Bandaríkjamenn voru þeir einu sem greiddu atkvæði gegn ályktunni.
Vesturlönd, með Bandaríkin í broddi fylkingar eru mjög stolt af lýðræðinu sínu, en halda svo í löngu úrelt neitunarvald sem lamar SÞ.
Svona var fyrsta árið hans Bush í forsetaembættinu í stórum dráttum. Hvað ætli við fáum að sjá á næstu þremur, eða sjö ef hann verður endurkjörinn?