Spurningin er minna um hvort þeir eru taldir vera með eða á móti. Ég myndi samt hafna þessari staðhæfingu þinni algjörlega.
Fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum eru í eigu stórfyrirtækjanna og er í dag talað um hina fimm risa en talið er að þeir verði þrír í framtíðinni. Robert Murdoch sagði það altént og spáði því að hans fjölmiðlaveldi yrði eitt af þeim.
Bandarískir fjölmiðlar eru ekki sjálfsstæðir fjölmiðlar á neinn hátt og er glöggt að sjá það þegar maður rýnir ofan í fréttirnar og frá hvaða atburðum er skýrt frá og hverjum ekki. Þetta nær allt til upphafs síðustu aldar þegar að hugtakið fagleg fréttamennska varð til eða eins og það útleggst á ensku; “professional journalism.”
Með því að skilgreina og forma þetta hugtak þá voru stofnaðir í fyrsta sinn fréttmennsku skólar og fréttamennska átti að heita hlutlaus.
Fyrir stofnun þessara skóla var blaðamennska í bandaríkjunum alveg sérlega kynleg. Það var ódýrt að stofna blað og gefa út og oft voru fimmtán til tuttugu mismunandi blöð til staðar í borgum og stórum bæjum. Ef þitt sjónarmið var ekki til staðar í einhverju blaði þá var ekki það dýrt að stofna þitt eigið blað og koma því sjónarmiði fram.
Vandamálið var hinsvegar ef að blað var kannski tengt við Demókrata flokkinn eða Repúblikana flokkinn þá fjallaði það blað kannski einungis um sinn frambjóðanda. Ef þú last það blað þá hefðir þú kannski ekki hugmynd um að það væri til Repúblikanna frambjóðandi. Þessi blöð voru því oft á tíðum bara einföld áróðurstímarit fyrir eitt sjónarmið.
Aftur á móti þá virkaði þetta kerfi mjög vel vegna þess að það voru svo mörg sjónarmið sem voru til staðar vegna þess að auglýsingar iðnaðurinn var ekki búinn að festa tangarhaldi sínu á þennan iðnað enn.
Það gerði það að verkum að til að öðlast gróða á blaðaútgáfu þinni þá þurftirðu ekki að markaðsetja blað til 60/80 eða 100% lesenda. Þú gast lifað af sem dagblað á 5% hlutfalli lesenda.
Er það fór hinsvegar að nálgast aldaskiptin og fram yfir þau þá fór auglýsingariðnaðurinn að hafa meiri áhrif er hann varð umfangsmeiri og þar af leiðandi fóru dagblöð að leggja upp laupanna vegna markaðspressunnar sem fylgdi. Önnur dagblöð fóru að kaupa upp dagblöð til þess að stækka sem fyrirtæki og start kostnaðurinn við að stofna nýtt blað varð of hár og innganga á markaðinn of erfið. Þetta leiddi endanlega að sér að það hefur ekki verið stofnað nýtt dagblað í um hundrað ár í Bandaríkjunum. Þetta er það sem efnahagsfræðingar kalla; barriers to entry.
Þegar að dagblöðunum fækkaði svona skyndilega þá kom krísa í blaðamennsku í Bandaríkjunum. Þegar það voru svona fá blöð á markaðinum og þau voru öll svona hlutdræg þá fór blaðamennskan að líkjast meir því sem viðgengst í einræðisríki. Það er upp úr þessari krísu sem að hugtakið fagleg fréttamennska varð til.
Svarið sem eigendurnir komu með var að aðskilja vald þeirra frá pólitískri stjórn á viðfangsefni blaðsins og láta það í hendur fréttamannanna sjálfra og ritstjóra. Þar með gætu lesendur treyst fréttunum og greinunum sem væru í blaðinu og litið á fréttamanninn eða ritstjórann en ekki eigandann. Afleiðingin var sú að almenningur var ekki með athyglina á samdráttinn í fjölda dagblaða á markaðinum því það hélt að þessu nýju hugtök um faglega fréttamennsku tryggði hlutleysi fréttamannanna og þar með að fréttirnar væru hlutlausar og þar með sannar.
Þetta leiddi hinsvegar af sér mjög neikvæða þróun sem á endanum ól af sér stórfellt vandamál. Vandamálið er að fyrir fréttamenn til að skera úr um hvað sé lögmæt frétt þá reiða þeir sig á það sem einstaklingar í valdastöðum segja að séu lögmætar fréttir, það sem er kallað opinberar heimildir. Ef að fólk í valdastöðum er að rökræða um málefni þá getur fréttamaður komið og skýrt frá því og verið hlutlaus fréttamaður.
Ef að forsetinn segir að það séu gereyðingarvopn í einhverju landi og leiðtogi demókrata flokksins í þinginu segir að það sé rökrétt að álykta svo þá mun fréttamaðurinn skýra frá þessum staðhæfingum sem hlutlausar fréttir. Ef að demókrata leiðtoginn heldur því hinsvegar fram að forsetinn hafi rangt fyrir sér þá getur fréttamaðurinn rýnt aðeins í málin.
Hinsvegar ef að fréttamaðurinn reynir að rýna í málin þegar að forsetinn og leiðtogi demókrata í þinginu eru sammála þá er sá fréttamaður allt í einu ekki hlutlaus fréttamaður og þar af leiðandi ekki faglegur fréttamaður. Þetta leiðir af sér að fréttamenn verða hálfpartinn bara fréttaritarar opinberra heimilda. Robert Fisk ferðaðist um Bandaríkin fyrir tveimur árum síðan til að kynna nýjustu bókina sína og þar gantaðist hann að stóru bandarísku dagblöðin ættu að kallast; “officials say” vegna þess að allar heimildirnar í blöðunum voru frá opinberum heimildum sem voru aldrei nafngreindar.
Það þýðir samt ekki að það séu bara tveir möguleikar, fréttamenn sem eru algjörlega hlutdrægir og skrifa bara eina hlið af kosningabaráttu eða fréttamenn sem skýra nánast einungis frá því sem að opinberir aðilar eða menn í valdastöðum segja.
Meira að segja í árdögum faglegrar fréttamennsku þá var barátta á milli þeirra sem voru að framkvæma sína hugmynd af faglegri fréttamennsku, það er að segja að skýra frá því sem að opinberir aðilar segja, og þeirra sem fannst að blaðamenn ættu ekki að vera svona vinalegir við fólkið í valdastöðum og ættu að rannsaka það eins gaumgæfulega og hægt var. Síðarnefndi hópurinn tapaði baráttunni en það eru samt til frábær dæmi um rannsóknar fréttamennsku í bandarískri sögu.
Hápunktur rannsóknar fréttamennsku í bandarískri sögu átti sér stað gróflega á tímabilinu frá fimmta áratugnum fram til loka Víetnam-styrjaldarinnar. Þrátt fyrir að þetta tímabil hafi verið hápunktur rannsóknar fréttamennsku í bandaríkjunum þarf einungis að líta á lygarnar sem að nánast allir bandarískir fjölmiðlar gleyptu án spurninga er varðaði Víetnamstríðið. Það hefur lengi verið haldið fram að fjölmiðlarnir hafi gert bandaríska hernum ókleyft að sigra stríðið og þá verið að ýja að því að fjölmiðlarnir hafi verið of gagnrýnir á meðan á stríðinu stóð. Þetta er hinsvegar gróf lygi og hreinn áróður. Eina gagnrýnin sem þú getur fundið í bandarískum fjölmiðlum fram til loka styrjaldarinnar snérist um það hvort að herinn gæti unnið stríðið, þá var ekki verið að gagnrýna hvort að það væri rétt af bandaríska hernum að vera þarna. Eins og Noam Chomsky orðar það þá geturðu fundið samskonar gagnrýni í herstjórn Hitlers í seinni heimsstyrjöldinni. Gagnrýni á faglegum grundvelli, umræðan snérist um hvort stríðið væri vinnanlegt eða ekki, ekki hvort að bandaríkjamenn ættu að vera þarna yfir höfuð.
Þetta gengur jafnvel lengra því að á meðan á þessu stríði stóð þá gengu fréttamenn svo langt að ritskoða sjálfa sig. Það tók hermanninn sem vildi uppljóstra My Lai fjöldamorðunum um tvö ár að finna fréttamann sem var tilbúinn að birta fréttina. Eins og John Pilger bendir á það voru um 700 fréttamenn staddir í Víetnam þegar að My Lai fjöldamorðin áttu sér stað og enginn þeirra “náði” fréttinni. John Pilger lýsir líka sem og aðrir fréttamenn hvernig mörgum ljósmyndum og vitnisburðum var vísvitandi haldið utan fréttavírþjónustuna. Þá erum við að tala um grófar ljósmyndir, myndskeið og grófa vitnisburði vegna þess að það þótti kannski ekki bera vott um hlutleysi að birta slíkt efni.
Þetta er hinsvegar bara eitt dæmi þó það sé kannski eitt það grófasta.
Samt sem áður þá fóru sumir fréttamenn að ímynda sér að fyrst að bandarískt þjóðfélag átti að heita frjálst þjóðfélag og vegna þess að það var ekki ritskoðun við lýði þá mættir þú kannski segja það sem þú vildir og skrifa það sem þú vildir. Margir brenndu sig því miður á þessu því margir fréttamenn voru gerðir útlægir úr iðnaðinum þess vegna sem og að prófessorar í háskólum, eiginlega heilum háskóladeildum var bara vísað af skólasvæðinu og nýir ráðnir í staðinn.
Það sem gerðist einnig var að nú fór fjöldi fréttasamsteypa að dragast saman og þær að stækka og stækka. Eigendur hugsuðu sér að það væri lítið til í því að leyfa ritstjórum og fréttamönnum að vera svona sjálfsstæðir vegna þess að eigendurnir voru að reyna að hámarka gróða sinn. Þá voru deildir fljótt að hverfa sem voru taldar óþarfar, hver þarf t.d. á heilli deild af fréttamönnum í útlöndum sem skýra frá erlendum málefnum þegar að þú getur notað AP fréttastofuna eða Reuters. Ennfremur þá er dýrt að reka rannsóknar fréttamenn því þeir þurfa oft að eyða miklum tíma og fá aðstoð annarra fréttamanna til að rannsaka mál sem skilar ekki endilega af sér frétt. Það er dýrt að fjármagna starf þeirra og það er í raun ódýrara að reka þá bara og ráða sex nýja fréttamenn sem geta skilað inn fréttum daglega. Það er oft sagt að fréttamenn eru í raun bara fólk sem skrifar aftan á auglýsingar.
Það er heldur ekkert endilega sniðugt að hafa rannsóknar fréttamann sem kannski uppgötvar eitthvað hneyksli því það hneyksli mun líklega varða einhvern einstakling sem er í valdastöðu eða stórfyrirtæki sem hugsanlega auglýsir í blaðinu. Eigendur vilja að sjálfssögðu sem minnst með slíkar fréttir hafa því það getur haft neikvæð áhrif á afkomu blaðsins. Þetta snýst á endanum bara um hversu mikið af peningum þú getur kreist út úr fyrirtækinu.
Þetta leiðir af sér að stóru fjölmiðlarnir eru í raun hálfpartinn hættir að stunda raunverulega rannsóknar blaðamennsku. Það sem telst sem rannsóknar blaðamennska í dag er oftast nær þegar að einhver aðili sem er í valdastöðu vill uppljóstra einhverju og lekur kannski einhverju skjali til fréttastofu. Þá mun fréttastofan birta það skjal og segja kannski; Fox fréttastofan fann í dag skjal sem bendlar……… Þetta lætur það hljóma eins og Fox stöðin sé með fullt af rannsóknar fréttamönnum úti að snuddast um Washington.
Niðurstaðan í dag er að staðall frétta hefur lækkað gífurlega. Fréttir snúast meir um fræga fólkið og lífstíll þess, slys og sjaldnar um raunverulega valdabaráttu, baráttu almennings gagnvart sífellt þrúgandi ríkisvaldi og stórfyrirtækjum.
Þeir fáu fjölmiðlar og fréttamenn sem reyna að rannsaka raunverulega stjórnvöld eru í dag sífelld ásakaðir fyrir að vera vinstri menn og keyrður út úr störfum sínum en það er í raun efni í aðra ritgerð og örugglega lengri.
Ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira núna en til þess að glöggva þig á því hvernig ástandið er í dag í fréttamennsku í bandaríkjunum skoðaðu vel hvað gerðist fyrir Bill Moyers og hvað gerðist fyrir Phil Donahue. Það eru frekar nýleg dæmi og dæmigert fyrir hvernig þetta kerfi virkar og hvernig það hreinsar sig af óæskilegum fréttamönnum sem kannski raunverulega fjalla um málefni og reyna að komast að því sem skiptir máli.
Er varðar staðhæfingu þína varðandi að fjölmiðlar í bandaríkjunum í dag eru á móti núverandi ríkisstjórn þá er það einungis satt ef þú samþykkir að hinn hugmyndafræðilegi grundvöllur sem að pressan starfar á sé raunverulega dæmigerð fyrir almenning sjálfan.
Ég hef skrifað um þetta hér áður, hvernig heill armur af pólitískri umræðu var skorin burt úr bandarísku þjóðlífi eftir seinni heimsstyrjöldina. Ég nenni ekki að skrifa það aftur en ef þú skoðar greinina um forseta Bandaríkjanna í sagnfræði áhugamálinu þá geturðu fundið þau skrif.
Það er samt í rauninni ekki nóg en til þess að skilja þig eftir með eitthvað svaraðu eftirfarandi spurningu fyrir mig:
Heldur þú að ef að fréttamaður við t.d. New York Times ákveddi einn dag að hann vill skrifa lofgreinar um kommúnista flokk Bandaríkjanna á forsíðuna. Heldur þú að hann kæmist upp með það?
Annars þá er það ekkert meira í bili.
Rock on.
Daníel.