Tilefni þessarar greinar minnar er eftirfarandi setning:
“Verkalíðsfélög (sic!) hafa altaf (sic!) verið til vandræða og hafa haft alltof mikið frelsi það er skilda hvers hugsandi manns að bera hag fyrirtækjana fyrir brjósti því þau koma með auðlegðina.”
Rökrætt var um M.Thatcher og hvernig henni tókst til við stjórn Bretlands á sínum tíma.
Það sem mig fýsir að vita, er þetta. Koma fyrirtækin ein og sér með auðlegðina? Nú man ég alltaf eftir sögu af H.Ford, sem uppi var um aldamótin 1900 (minnir mig) og þá ákvörðun sem hann tók þegar illa áraði. Ákvörðun hans var þessi:
Að tvöfalda laun starfsmanna sinna ! ! !
Þetta vakti mikla úlfúð meðal annara fyrirtækjaeigenda, enda bjuggust þeir við ámóta kröfum frá sínum starfsmönnum. Henry Ford benti þeim á þá staðreynd (?) að starfsmenn án launa eyða ekki peningum í viðskiptum við fyrirtæki og fyrirtækin fara því á hausinn.
Nú sýnist mér að í sinni einföldustu mynd, þá endi keðjan alltaf hjá viðskiptavininum. Þó þú rekir fyrirtæki sem sér öðru fyrirtæki fyrir vörum / þjónustu, þá hlýtur þú að vera háður því að það fyrirtæki geti selt vörur sínar. Annars minnkar væntanlega eftirspurnin eftir þinni þjónustu / vörum. Þannig eru fyrirtæki annaðhvort með beinum hætti eða með keðjuverkun alltaf háð því að einhver kaupi vörur þeirra.
Það skal tekið fram að ég er mjög skammt á veg kominn í hagfræðilegum þroska og er því að óska eftir því að einhver geti útskýrt þetta samhengi milli viðskiptavini og fyrirtækja fyrir mér.
Mér finnst einhvern veginn að öll þessi ofuráhersla á fyrirtæki hljóti að valda því að upp komi fullt af fyrirtækjum sem standi ágætlega í nokkra mánuði en fari svo á hausinn því fólk hefur ekki efni á að versla neitt við þau.
Spurningin er s.s þessi í einföldu máli: Skiptir engu þó almenningur hafi ekki efni á að versla við fyrirtækin, koma þau samt með áðurnefnda auðlegð?
Það skal tekið aftur fram, að ég er ekki að ráðast að neinum með þessum spurningum….ég spyr til að fræðast.
Kveðja.