Ýmsir hafa sjálfsagt heyrt Flokk framfarasinna nefndan á nafn, mun færri vita þó sennilega nákvæmlega fyrir hvað hann stendur. Tilgangur þessara skrifa er því að kynna fyrir fólki hvað Flokkur framfarasinna er, fyrir hvað hann stendur og hvað flokkurinn vill gera í hagsmunamálum íslensku þjóðarinnar í aðalatriðum.
Á heimasíðu flokksins segir að hann sé þjóðlegur og framfarasinnaður lýðræðisflokkur sem setur heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar í forgang. Aðalmarkmið flokksins er því að vinna að hagsmunum íslensku þjóðarinnar nr. 1, 2 og 3, umfram annað. Hagsmunir þjóðarinnar er það sem ganga á fyrir að mati flokksins.
Flokkurinn hefur á að skipa stefnuskrá sem nær til 15 málaflokka og um 140 greina. Stefnuskráin er engu að síður enn í fullri vinnslu. Flokkurinn tekur afstöðu til flestra málaflokka í þjóðfélaginu, s.s. stjórnskipunarmála, stjórnsýslumála, utanríkismála, sjávarútvegsmála, félagsmála, innflytjendamála, dómsmála, heilbrigðismála, menntamála, efnahagsmála, umhverfismála o.s.frv.
Flokkurinn vill t.a.m. standa vörð um menningu íslensku þjóðarinnar og menningararf, sjálfstæði hennar og fullveldi og tryggja áframhaldandi tilveru hennar; stuðla að þjóðlegum framförum í þjóðfélaginu og styðja við bakið á öllum góðum hlutum sem geta orðið íslensku þjóðinni til farsældar; treysta lýðræðið og þingræðið í landinu; þyngja refsingar fyrir fíkniefna- og kynferðisglæpi; efla löggæslu í landinuog forvarnir; vinna að gagngerum endurbótum í menntakerfinu; gera ríkisreksturinn skilvirkari og ódýrari í rekstri án þess þó að draga úr þjónustu við borgarana og tryggja að allir borgarar landsins búi við félagslegt og efnahagslegt öryggi.
Flokkurinn vill ennfremur tryggja að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar verði hagnýttar í þágu hennar á sanngjarnan hátt; styðja jákvætt alþjóðlegt samstarf á jafnréttisgrundvelli og berjast á móti öllu yfirþjóðlegu gerræði; koma á aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í innflytjendamálum; styðja við bakið á grunneiningu þjóðfélagsins, fjölskyldunni og vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli atvinnu- og einstaklingsfrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum svo eitthvað se nefnt. Að lokum er flokkurinn síðan, samkvæmt stefnuskrá sinni, algerlega andsnúinn öllum öfgastefnum, hvort sem þær flokkast undir öfgaafturhald, öfgafrjálslyndi eða hvað annað.
Þar sem Flokkur framfarasinna er nánast eina stjórnmálaafl landsins sem hefur mótað sér stefnu í innflytjendamálum, auk þess hve erfitt er stundum að ræða þau mál á málefnalegan hátt við menn á öndverðri skoðun, hefur sá málaflokkur orðið nokkuð fyrirferðarmikill hjá flokknum. Ein ástæða þess er einnig sú sorglega staðreynd að ef einhver vogar sér að gagnrýna innflytjendamál hér á landi er hann umsvifalaust stimplaður sem rasisti að ósekju af a.m.k. sumum stuðningsmönnum fjölmenningar. Nokkuð púður hefur því farið í að reyna að sýna slíkum aðilum villu síns vegar og benda þeim á þá staðreynd að Flokkur framfarasinna hefur ekkert með rasisma að gera. Sem betur fer er hér þó aðeins um að ræða örfáa ómálefnalega einstaklinga.
Stefna flokksins í innflytjendamálum gengur einfaldlega út á aðhald og ábyrgð, enda ljóst að ef illa tekst til í þessum málum verður ekki aftur snúið. Eins og heimurinn er í dag verður það sennilega seint úrelt sjónarmið að vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann.
Hjörtur J.
Flokkur framfarasinna
www.framfarir.net
E.s. Væntanlega má gera ráð fyrir að fyrrnefndir ómálefnalegir einstaklingar eigi eftir að tjá sig um þessa grein með stimpla sína á lofti.
Með kveðju,