Mikil fylgisaukning Danska þjóðarflokksins veldur skjálfta meðal vinstrimanna
(www.framfarir.net)

Mikil fylgisaukning Danska þjóðarflokksins í nýafstöðnum þingkosningum í Danmörku hefur víða valdið miklum skjálfta meðal vinstrimanna og annarra fjölmenningasinna. Lýðræðisleg niðurstaða kosninganna hefur þannig greinilega farið eitthvað fyrir brjóstið á þeim. Hafa ýmsir vinstrimenn haft stór orð um niðurstöður kosninganna og lýst yfir megnri óánægju með hana. Einkum eru þó jafnaðarmenn víða óánægðir af skiljanlegum ástæðum enda komu danskir jafnaðarmenn mjög illa út úr kosningunum.

Sem dæmi um viðbrögð annarra jafnaðarmanna við þessum kosningum má nefna orð Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann m.a. að Poul Nyrup Rassmussen hafi ekki verðskuldað að tapa kosningunum. En sama hvað Össuri kann nú að finnast þá voru danskir kjósendur greinilega á annarri skoðun og þar við situr væntanlega enda kallast það lýðræði og þykir til eftirbreytni. A.m.k. ætti svo að vera að mínu viti þó andlýðræðislegur blær fari leiðinlega oft um þá jafnaðarmenn. Vilja þeir margir hverjir banna ákveðnar skoðanir sem þeim líkar ekki auk þess að reyna að hafa áhrif á stjórnarmyndanir í öðrum lýðræðisríkjum, sbr. t.d. viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Austurríkismönnum fyrir að hafa kosið “vitlaust” fyrir um tveimur árum.

En það breytir víst ekki því að jafnaðarmenn eru duglegir að benda á bresti annarra og oft svo uppteknir við það að þeir gleyma að líta í eigin barm þar sem brestirnir eru yfirleitt ekki minni. Hver þekkir ekki fjölmenningarsinna sem þykir ekkert skemmtilegra en að stimpla menn í bak og fyrir sem fordómafulla rasista að ósekju fyrir það eitt að voga sér að hafa öndverða skoðun á við þá í innflytjendamálum. Hver þekkir ekki fjölmenningarsinna sem viðhafa áróður fyrir því að slíkum aðilum sé hreinlega bannað að tjá sig um innflytjendamál og jafnvel ganga svo langt að vilja stjórna því hvernig slíkir menn hugsi um þessi mál líka? Hvar eru nú fordómarnir mestir? Já, mikið er þetta fólk nú einstaklega “lýðræðissinnað”…

En svo snúið sé aftur að óánægju vinstrimanna með uppsveiflu Danska þjóðarflokksins þá hafa vinstrimenn m.a. hamrað á þeim áróðri að flokkurinn hafi “spilað á strengi” þjóðernishyggju af mikilli ósvífni og “gert út á” slæmt ástand í innflytjendamálum í Danmörku. Í fyrsta lagi þá þætti mér gaman að vita hvernig í ósköpunum þjóðernissinnaflokkur eins og Danski þjóðarflokkurinn getur spilað á strengi þjóðernishyggju? Það að spila á strengi einhvers þýðir að notfæra sér eitthvað sem maður alla jafna hefði ekki notast við. En nú er Danski þjóðarflokkurinn þjóðernissinnaflokkur og þar af leiðandi er þjóðernishyggjan sú hugmyndafræði sem flokkurinn byggir tilveru sína á. Af hverju má þá flokkurinn ekki nota sína eigin hugmyndafræði? Hvaða aðra hugmyndafræði ætti flokkurinn eiginlega að nota? Hann hefði nú væntanlega fyrst verið að spila á eitthvað ef hann hefði notast við eitthvað annað en þjóðernishyggjuna.

Og í annan stað, hvernig má segja að flokkurinn hafi gert út á slæmt ástand innflytjendamála í Danmörku? Hvað er nú orðið að því að benda á að vandamál sé til staðar og segjast vilja laga það? Danski þjóðarflokkurinn spratt fyrir nokkrum árum út frá Framfaraflokknum danska sem á upphaf sitt á áttunda áratugnum, eða við upphaf þess ófemdarástands sem ríkir í innflytjendamálum í Danmörku í dag. Það má því segja að flokksmenn hafi alla tíð varað við þessum málum og það löngu fyrir tilurð þess slæma ástands sem ríkir í þessum málum í Danmörku í dag. Þessar yfirlýsingar vinstrimanna falla því algerlega um sig sjálfar.

En ef við annars tölum um að spila á strengi einhvers þá er ljóst að ef einhver hefur spilað á strengi þjóðernishyggju í nýafstöðnum kosningum í Danmörku þá var það fráfarandi forsætisráðherra Dana, Poul Nyrup Rassmussen, sem lýsti því yfir í kosningabaráttunni, þegar honum varð ljóst hvert stefndi, að hann ætlaði líka herða dönsku innflytjendalöggjöfina. En nei, hann var ekki að spila á strengi þjóðernishyggju, nei nei, enda er hann ekki þjóðernissinni og þar af leiðandi ekki vondur maður samkvæmt kokkabókum vinstrimanna. Hversu tvöfaldir geta menn nú eiginlega orðið??

Hjörtur J.

Es. Þegar talað er um vinstrimenn í greininni er af skiljanlegum ástæðum fyrst og fremst átt við jafnaðarmenn (krata).
Með kveðju,