Já, nú lítur úr fyrir að Framsókn hafi fengið yfir sig alla holskeflu óænægjunnar sem ríkti í samfélaginu með þessa ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn, með átakalausri kosningabaráttu, virðast komast upp með öll afglöp síðustu kjörtímabila. Hvernig þeim tókst að skella skuldinni svona rækilega á Framsóknarmenn, veit ég ekki, en lúmskt var það. Ég vil líta á þetta mikla afhroð Framsóknar sem arfleið fyrrverandi formanns flokksins, og tel að sökinni verði seint komið á núverandi formann, Jón Sigurðsson. Held jafnvel að hann hafi náð að koma í veg fyrir að flokkurinn þurkaðist alveg út.
Það er staðreynd að ójöfnuður hefur aukist í samfélaginu á síðustu árum. Tekjuhærri millistéttarhlutinn sem hefur fitnað síðustu ár virðist vera að þakka Sjálfstæðismönnum fyrir. Hinn stóri hópur námsmanna, fólks í umönnunarstörfum, og þeir sem almennt hafa þurft aldeilis að kenna á ójöfnuðinum og kaus ríkisstjórnina síðast, virðist fyrst og fremst færast frá Framsóknarflokkinum. Samtals missti stjórnin 2 þingmenn, og þótt hún rétt lafi með þingmannameirihluta, nýtur hún nú stuðnings minnihluta landsmanna með 48,3% atkvæða að baki.
Þetta er að mínu mati staðfesting á óánægjunni, staðfesting á ójöfnuðinum, staðfesting á að Íslendingar eru ekki alveg búnir að fyrirgefa Íraksstríðsstuðninginn, eftirlaunafrumvarpið, pólítískar ráðningar í Hæstarétt, Seðlabankann, og í utanríkisþjónustuna, staðfesting á því að kjósendur eru búnir að fá nóg af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og öðrum sviðum velferðarkerfisins, sem og mörgum afdrifaríkum mistökum í efnahagsstjórninni.
Því miður hefur refsivöndurinn heldur betur hengt bakara fyrir smið. Vissulega er Framsókn sek um ýmis mistök ríkisstjórnarinnar, svo sem hækkun húsnæðislána. En drifkrafturinn bak við hægri sveifluna í samfélaginu- með meðfylgjandi ójöfnuði, niðurskurði á velferðarkerfinu, stóriðju, o.sfrv- er fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn sem setið hefur í 16 ár í stjórn, og er nú að koma inn á þing á ný Árna Johnsen, sem gerðist sekur um yfirgripsmikla spillingu.
Ef við lítum á stjórnarandstöðuna, þá dalar Samfylkingin eilítið frá síðustu kosningum, missir tvo þingmenn, en Vinstri-Græn bæta við sig 4 þingmönnum, og eru þannig stærstu sigurvegarar kosninganna, svo ekki sé nú talað um hlutfallslega miðað við stærð flokksins. Fjálslyndir standa í stað, en virðast komnir til að vera. Til að vera hvað nákvæmlega veit ég ekki alveg, en það er önnur spurning.
En, svona til að draga þetta saman, þá tel ég að hið mikla afhroð Framsóknarflokksins sé fyrst og fremst áfellisdómur á ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna.
Framsókn hlutu álíka útreið í borgarstjórnarkosningunum í fyrra, en þá stukku þeir til í borgarstjórn með Sjálfsstæðismönnum. Þeir töldu sig geta endurnýjað sig í nýrri borgarstjórn. Það tel ég að sé raunhæfur kostur fyrir Framsókn í þingkosningunum nú (nema bara akkúrat öfugt). Þeir hafa goldið fyrir að vera hluti af þessari miklu hægri-stjórn, og mega vel túlka það sem skilaboð kjósenda til að færa sig lengra til vinstri á ný. Og hvert er ég að fara með þessu? Jú, ég teldi það sanngjarnan og öflugan kost að nú væri mynduð nokkurnskonar R-lista ríkisstjórn, þ.e.a.s. með Samfylkingu í broddi fylkingar, með fulltingi hinna sigursælu Vinstri-Grænna, og hinna lemstruðu Framsóknarmanna, sem fengu þannig tækifæri til að sanna sig í vinstri-stjórn, og endurnýja sig þannig.
Og svona sem smá viðbót, þá gæti sú ríkisstjórn litið einhvernvegin svona út:
Forsetisráðherra: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Utanríkisráðherra: Steingrímur J. Sigfússon
Fjármálaráðherra: Valgerður Sverrisdóttir
Dóms-og kirkjumálaráðherra: Siv Friðleifsdóttir
Heilbrigðisráðherra: Katrín Jakobsdóttir
Félagsmálaráðherra: Jóhanna Sigurðardóttir
Umhverfisráðherra: Ögmundur Jónasson
Iðnaðar-og viðskiptaráðherra: Össur Skarphéðinsson
Landbúnaðarráðherra: Guðni Ágústsson
Sjávarútvegsráðherra: Björgvin G. Sigurðsson
Menntamálaráðherra: Ágúst Ólafur Ágústsson
Samgöngumálaráðherra: Jón Bjarnason
Þórarinn Snorri