(sem mitt fyrsta innlegg á Huga.is, þá vil ég fyrirfram biðjast afsökunar ef ég er að brjóta einhver viðmið sem hér gilda, t.d. um staðsetningu þessa skrifa, og sömuleiðis ef þessi umræða hefur nú þegar átt sér stað á öldum hugvakans.)
Í síðustu Alþingiskosningum, 2003, hlaut Samfylkingin 31% atkvæða, eða rétt um 2% minna en Sjálfstæðisflokkurinn. Fyrir ekki svo löngu hæddist áðurnefnd fylking að “pilsner” fylgi Framsóknarflokksins. Núna gengur brandari á netinu sem hljómar einhvernvegin svona: Hvað er ólíkt með Samfylkingunni og Campari? Jú, bæði eru rauð og bitur, en Campari nær þó 21%.
En markmiðið með skrifum mínum er þó alls ekki að hæðast að Samfylkingunni, heldur að velta því fyrir mér hversvegna þessi flokkur, sem var stofnaður árið 1999 sem bandalag allra jafnaðarmanna, er búinn að hrapa niður í fylgi síðustu misseri.
Sumir vilja kenna formanninum um. Það má færa rök fyrir því að ummæli hennar um að fólk treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar til að sitja í ríkisstjórn hafi verið óheppileg, þótt sem slík séu þau tekin úr samhengi og ein og sér skýra ekki fylgistapið.
Getur verið að Ingibjörg, sem var, leyfi ég mér að fullyrða, vinsæl borgarstýra, hafi misst “kjörþokkann”? Sjálfur hef ég heyrt útundan mér að hún þyki of köld, of stíf. Væri þá Samfylkingin í betri málum ef hún hefði haldið sem fastast í Össur sem formann? Ég get nú viðurkennt það að persónulega þykir mér Össur betri ræðumaður.
Aðrir vilja meina að fylgistapið megi rekja til stefnuleysis Samfylkingarinnar. Hún hefur í ýmsum málum verið að mjaka sér inn á miðjuna til hægri, og eðli flokksins samkvæmt inniheldur Samfylkingin afar breiðan skoðanahóp. Eru vinstri-sinnaðari kjósendur Samfylkingarinnar að snúa við henni baki vegna þessa miðjubrölts? Vill fólk skýrari afstöðu? Þetta tvennt gæti bæði útskýrt fylgistap fylkingarinnar sem og uppgang Vinstri-Grænna. Og reyndar rauk fylgi Frjálslyndra upp þegar þeir tóku “skýra afstöðu” gagnvart innflytjendum, þannig að það virðist vissulega borga sig. Er hinn “gullni meðalvegur” ekki sexý í stjórnmálum í dag?
Með því að varpa fram þessum spurningum og þreifingum vil ég stofna til umræðanna um þetta áberandi fylgistap xS og leita skýringa.
Þakka, Þórarinn Snorri