Hér á eftir fer rökfærsluritgerð um Ísland og Evrópusambandið. Endilega komið með málefnaleg mótrök.
Stjórnmálamenn hafa löngum hræðst einangrun Íslands, einangrun þessa litla eylands í norðri. Núna á seinni árum hafa ríki Evrópu myndað með sér bandalag, Evrópusambandið eða ESB. Utanríkisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, hefur verið aðaltalsmaður fyrir inngöngu Íslands sem fylki í þetta nýja stórríki Evrópu. Umræðan hefur að miklu leyti klofið þjóðina í tvennt núna á seinni tímum, þeir sem eru hlynntir inngöngu og þeir sem eru á móti. Eftir mjög ígrundað mál og mikla rannsóknarvinnu er það deginum ljósara að mótrökin eru yfirgnæfandi sterkari en þau sem mæla með inngöngu Íslands í ESB, a.m.k. með tilliti til stöðu sambandsins og Íslands í dag.
Evrópusambandið er samvinnuvettvangur sjálfstæðra ríkja sem einkum fæst við að samræma lög og reglur aðildarríkjanna. Aðildarríkin fórna veigamiklum þáttum sjálfsstæðis síns til æðstu stofnanna þess með hliðstæðum hætti og fylkin í Bandaríkjunum. Þróunin er að sjálfsögðu komin mun lengra í Bandaríkjunum og enn er ESB miðja vegu á milli þess að vera ríkjasamband og sambandsríki. Augljóst þykir að ESB stefnir að því að verða geysistórt ríki sem dregur til sín sjálfsákvörðunarrétt aðildarþjóðanna á mörgum mikilvægum sviðum.
Sú röksemd þeirra sem vilja inn í ESB sem er mest áberandi er sú að þannig geti Ísland haft áhrif á þær reglur sem þar eru settar. Þetta er svona mátulega trúverðugt þar sem vægi hverrar þjóðar í sambandinu fer eftir stærð. Lítil lönd hafa lítið að segja, örlítil lönd hafa örlítið að segja! Þessu til staðfestingar er yfirlýsing Vaclav Klaus fyrrverandi forsætisráðherra Tékklands sem líkir inngöngu í ESB við inngöngu í lokaðan tennisklúbb. Viðræður um inngöngu fara fram á forsendum sambandsins og þeirra ríkja sem í því eru. Hagsmunir þeirra ríkja sem sækja um aðild víkja fyrir þeim sem í sambandinu sitja. Ennfremur þessu til staðfestingar reyndu írskir kjósendur á dögunum að greiða atkvæði gegn staðfestingu á svokölluðum ,,Nice” sáttmála sem breytir grundvallarreglum ESB. Ráðamenn sambandsins lýstu því yfir þegar í stað að ekkert yrði gert í þessum málum. Írar höfðu ekki meira neitunarvald en svo að sáttmálanum var þröngvað uppá þá.
ESB hefur sett staðla og reglugerðir á hina ýmsu viðskiptahætti. Þessir staðlar og reglugerðir eiga að einfalda og hjálpa okkur í viðskiptum og eru því að mörgu leyti af hinu góða. En eins og við vitum af ferðalögum okkar um Evrópulöndin eru þau talsvert ólík og því ógjörningur að setja staðla sem ganga snuðrulaust inní viðskiptahætti allra aðildarríkjanna. Gott dæmi um slíkan staðal er hinn svokallaði hágæða-gúrkustaðall ESB. Samkvæmt honum eru notaðir A-stimpils kassar fyrir hágæða gúrkur sem eiga að innihalda x margar gúrkur sem eru x kíló. Danir, sem eru aðilar að sambandinu, hafa ræktað gúrkur í gegnum aldirnar. Þeirra gúrkur eru örlítið ólíkar öðrum gúrkum frá öðrum löndum. Ekki að þær smakkist öðruvísi eða séu öðruvísi á litinn, nei, þær eru örlítið beygðari en gúrkur annarra þjóða í ESB! Af þessum sökum kemst ekki sá fjöldi gúrkna í A kassa Evrópusambandsins sem gerir það að verkum að gúrkurnar sem Danir rækta eru annars flokks! Ómögulegt er því fyrir Dani að flytja út gúrkur og ekki fá þeir undanþágu frá þessum staðli frekar en önnur ríki með aðra staðla eða reglugerðir. Ef það þjónar hugsmunum meirihlutans verður það ofan á og ríkin sem verða þessu að bráð verða að bíta í það súra epli. Önnur reglugerð sem hefur þótt mjög óvenjuleg er sú sem segir til um langtímamarkmið ESB, að leggja niður brennur. Þegnar aðildarríkja ESB sem fara í útilegu með fjölskyldunni, taka upp söngbókina þegar byrjar að skyggja og kveikja lítinn varðeld eru lögbrjótar. Fjölskyldan hefði þurft að sækja um sérstakt leyfi fyrir ,,brennunni” a.m.k. fimmtán dögum áður og borga svokallað brennugjald sem nú er tuttugu þúsund krónur! Ekki má heldur gleyma að þegar leyfið er komið gerist fjölskyldan lögbrjótur ef brennan varir lengur en fjórar klukkustundir! Hér er því komin þversögn í hugsjón sambandsins sem hefur verið sú að hámarka frelsi einstaklingsins. Með þessari reglugerð, og fleirum, er svo greinilega verið að hefta frelsi hans!
Viðskipti og verslun á Íslandi eiga eftir að hagnast á inngöngu í ESB. Þessi rök um inngöngu í ESB myndu vega hvað þyngst við ákvarðanatöku. Á móti þessu kemur að inngangur væri áfall fyrir landbúnaðinn! Af hverju? Með inngöngu í ESB er innflutningur á landbúnaðarvörum gefinn frjáls. Því er fyrirsjáanlegt að það yrði stórfelldur samdráttur í innlendri framleiðslu búvara, bæði hjá bændum og vinnslustöðvum, og þar með samdráttur í þjóðarframleiðslu. Sérfræðingar Bændasamtakanna hafa að vísu talið að lambakjötsframleiðslan gæti staðist samkeppnina. Aðra sögu er að segja af mjólkurframleiðslu og þá einkum smjör- og ostagerð. Bændasamtökin hafa rök fyrir því að allt að 50% mjólkurframleiðslunnar yrði í verulegri hættu auk þess sem eggja-, kjúklinga- og svínakjötsframleiðsla legðist af ásamt hvers konar grænmetisræktun á Íslandi. Þetta myndi leiða af sér gríðalegt atvinnuleysi í sveitum og bæjum sem byggja afkomu sína á vinnslu búvara og samdrátt í landsframleiðslu.
Hvað með evruna? Stuðningsmenn ESB hafa verið ósparir á að hefja upp sönginn um gagnsleysi íslensku krónunnar í kjölfar gengisfallsins sem átti sér stað í mars 2001. Kjarni málsins er sá, að utanríkisviðskipti Íslendinga eru aðeins að hluta til við evrulönd og íslenskt hagkerfi sveiflast alls ekki í takt við þær hagsveiflur sem helst einkenna efnahagslífið í evruríkjunum. Ef Íslendingar tækju upp evruna og afsöluðu sér því að halda uppi sjálfstæðri stefnu í peningamálum gæti það komið sér vel fyrir mjög svo takmarkaðan hóp fyrirtækja sem eingöngu framleiða fyrir markað evrulanda. Sjávarútvegur Íslendinga er mun háðari dollar og pundi en evru. Auk þess er ljóst að mun verra væri að kljást við hvers konar efnahagsleg vandamál sem upp koma þegar kreppir að. Hætt væri við að atvinnuleysi færi versnandi til tjóns fyrir atvinnulífið og launafólk.
Algengt er að fólk spyrji: ,,Er ekki hagvöxtur meiri í stórum ríkjum en minni?”
Það er fjarri sannleikanum. Hagvöxtur bæði Norðmanna og Íslendinga , sem báðir standa fyrir utan ESB, frá 1971-2000, var mun hraðari en að meðaltali í ESB ríkjum, OECD-ríkjum og Bandaríkjunum. Atvinnuleysi var einnig margfalt meira í löndum ESB en í Noregi og á Íslandi.
Aðalmótrökin gegn inngöngu Íslands í ESB eru miðin okkar. Grunnregla í ESB er sú að fiskiskip allra aðildarríkjanna eiga aðgang að sameiginlegri lögsögu utan tólf mílnanna, og fiskistofnar tilheyri ekki strandríkjum heldur teljist sameign ESB. Við aðild Íslands fengi ESB því úrslitavald um tilhögun veiða við Íslandsstrendur milli 12-200 mílna!
Af þessum rökum mætti ætla að ef af inngöngu í ESB yrði, væri nánast tilgangslaust að fagna 17. júní ár hvert, svo mikið sjálfstæði afsöluðum við okkur við inngöngu í sambandið! Með tilliti til allra þeirra reglugerða sem núverandi aðildarríki hafa fengið þröngvað uppá sig án þess að nokkuð tillit sé tekið til hagsmuna þeirra, stöðu Íslands í heiminum og þróun sambandsins segi ég: ,,Nei! Evrópusambandið er ekki álitlegur kostur fyrir Íslands.”
Kv
Gummi