
Maulvi Najibullah, stjórnarerindreki talibana í landamæraborginni Peshawar í Pakistan, sagði að þyrlurnar hefðu verið skotnar niður á meðan þær tóku þátt í loftárás. „Önnur þyrlanna hrapaði í Hockack í Nawur-héraði og hin í þorpinu Hasrat," að sögn Najibullah.
Staðirnir tveir eru nærri hvor öðrum og sagði AIP að vafi léki á hvort brak á svæðinu væri úr einni eða tveimur flugvélum. Najibullah sagði að erfitt væri að fá upplýsingar frá svæðinu þar sem farið væri að snjóa.
Bandaríkjamenn sögðu í nótt að herþyrla hefði brotlent í Afganistan í gær vegna slæms veðurs en fjórir menn úr áhöfninni slösuðust í brotlendingunni. Að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins var áhöfninni bjargað og var flak þyrlunnar, sem var mikið skemmd, sprengt upp síðar.