Þúsundir Sjálfboðaliða streyma yfir til Afganistan Talið er að um 1.200 Pakistanar hafi haldið yfir landamæri Afganistan í morgun til þess að ganga í lið með talibönum í átökum gegn Norðurbandalaginu og Bandaríkjamönnum. Ríflega fjögur þúsund manns frá Pakistan hafa gerst sjálfboðaliðar í her talibana á síðustu dögum, flestir þeirra tilheyra heittrúarsamtökum múslima. Fjögur þúsund manns til viðbótar bíða eftir því að komast yfir landamæri ríkjanna og hefja vopnaða baráttu með talibönum.

Hópurinn sem hélt yfir landmæri ríkjanna í morgun var vopnaður sjálfvirkum rifflum og öðrum skotvopnum. Búist er við því að þeir haldi til borgarinnar Jalalabad í austurhluta Afganistan og gangi þar í lið með öðrum sjálfboðaliðum og bíði fyrirmæla frá talibönum. Um 1.200 manns héldu yfir landamærin í gær og um eitt þúsund á fimmtudag og föstudag til þess að ganga málstað talibana á hönd. Haft er eftir Mohammad Ismael yfirmanns hjá Tehreek Nifaz-e-Shariat Mohammadi, sem er flokkur heittrúaðra, að hann hefði haft samband við talibana, sem hefðu óskað eftir fleiri sjálfboðaliðum. Hann kvaðst vonast til þess að næsti hópur sjálfboðaliða gæti haldið frá Pakistan í næstu viku.