Nú líður að því að nauðsyn brjóti lög og við þurfum að standa með Bandaríkjamönnum, og vonandi N.A.T.O., og ráðast á og afvopna Írani.
Íranir eru í óða önn við að koma sér upp kjarnorkusprengjum. Þetta má ráða t.d. ef athuguð eru viðbrögð Írana við tillögum Rússa um að auðga fyrir þá úran. Íranir höfnuðu þeim tillögum alfarið enda þótt það kostaði þá refsiaðgerðir af hálfu Sameinuðu þjóðanna, refsiaðgerðir sem bæði Rússar og Kínverjar styðja, auk vestrænna þjóða. Í stað þess að þiggja boð Rússa eru Íranir nú að koma sér upp viðamiklum búnaði til auðgunar úrans. Það hafa þeir sjálfir tilkynnt.
Þá eru líkur til að þeir séu í samstarfi við Kim Jung-Il, harðstjórann í Norður-Kóreu um þróun kjarnorkuvopna, sjá:
http://www.telegraph.co.uk/news/main.jhtml?xml=/news/2007/01/24/wiran24.xml
Ekki nóg með að Íranir séu að koma sér upp gjöreyðingarvopnum, heldur styðja þeir við bakið á Hezbollah hryðjuverkasamtökunum, sem starfa í Líbanon og Sýrlandi, og hafa þannig gerst meðsekir um árásir á óbreytta borgara í Ísrael. Þá styðja þeir og við hryðjuverkastarfsemi í Írak, og hafa þar hvatt til undirróðurs og árása á Bandaríska hermenn og þannig gerst að fyrra bragði aðili að hernaði gegn Bandaríkjamönnum.