Nú styttist í kosningingar og mér fanst tilvalið að koma með smá grein um það hvernig mér finnst að stjórna ætti landinu.
Hagkerfi
Ég lýt á hægri- eða vinstristjórnkerfi sem úrelt fyrirbæri. Fyrir mér hafa bæði þessi stjórnkerfi sýnt og sannað það að þau virka ekki ein og sér. Hægri stjórn á það til að einblína á hag þeirra ríku en skilja hina fátækari eftir á meðan vinstri stjórn á það til að stöðva nær allan hagvöxt.
Mín hugmynd um hagkerfi felur í sér að markaðinum sé frjálst að gera það sem hann vill svo lengi sem hann brýtur ekki þar til gerð lög sem ríkið setur, hljómar svipað er er nú þegar, nema að mér finnst óþarfi fyrir ríkið að vera að blanda sér inn á markaði sem einkaaðilar sjá hvort eð er um, svo vill ég að vinnuaflið sé líka frjálst, það felur t.d. í sér að það sé ekkert til sem heitir ólöglegt verkfall því fólk ætti að vera frjálst til að fara í verkfall hvenær sem það vill.
Hver sem er mætti blanda sér í hvaða rekstur sem er svo lengi sem viðkomandi brýtur engin lög. Ríkið setur t.d. lög um að skóla beri að reka svona, svona og svona og svo má hver sem er reka skóla. Löggjafarvaldið ákveður svo hve mikið ríkið styrkir einkarekinn skóla en rekur samt aðra skóla sjálft eftir þörfum. Sama væri síðan upp á teningnum hjá öllum stofnunum og fyrirtækjum, allt frá fangelsum til ferðaskrifstofa. Þess vegna mætti einhver flippaður aðilli reka lögreglustöð ef hann sægi hag í því. Ríkið þyrfti þá bara að búa til lagaramma utan um rekstur lögreglustöðva.
Ríkið ætti samt ekki að vera undanskilið sínum reglum, heldur ættu allir að vera við sama borðið. Hlutverk ríkisins ætti því að vera að setja lagaramma um rekstur stofnanna og fyrirtækja og reka þær stofnanir og fyrirtæki sem þörf er á og markaðurinn sér ekki fyrir. Skattar gætu því verið mjög misjafnir eftir þátttöku markaðarins, það segir sig sjálft að því meira sem markaðurinn tekur þátt í rekstri hagkerfisins því lægri skattar, en ríkið ætti ekki að þröngva þátttöku uppá markaðinn með því að boða einkavæðingu á hinu og þessu eða öfugt..
Auðlindaskipting og nýting
Auðlindir ættu að vera sameign þjóðarinnar og því ætti það að vera ríkisins að skipta þeim á milli hagsmunaaðilla svo hægt sé að nota þær á sjálfbæran hátt. Það þýðir að núverandi kvótakerfi myndi ekki rúmast inn í fyrrgreinda skilgreiningu. Mín hugmynd er að kvótanum ætti hið opinbera að skipta á milli bæjarfélaga þannig að tekið sé mið af fiskveiðiflota hvers bæjarfélags, fiskimiðum í kring um bæjarfélögin og heildarafla bæjarfélagsins síðustu ár. Bæjarfélögin ættu síðan að skipta kvótanum sínum milli fyrirtækja eftir svipuðum stöðlum. Svipaða sögu væri svo að segja um flestar þær endurnýtanlegu auðlindir landsins. Hafa ber þó í huga að náttúra Íslands flokkast undir endurnýtanlegar auðlindir og því ætti að koma fram við hana sem slíka og nýta hana á sjálfbæran hátt svo öll þjóðin njóti góðs af. Kárahnjúkavirkjun fellur svo sannarlega ekki undir þá skilgreiningu sökum þess að hún er ekki sjálfbær nýting á náttúru Íslands.
En það er alltaf hægt að finna tvær hliðar á öllu. T.d. falla bæði hvalfriðun og hvalveiðar undir þessa skilgreiningu og því ætti það einfaldlega að vera þjóðarinnar að ráða ferðinni þegar svo ber á góma og ríkisins að takmarka þann skaða sem önnur auðlindanýtingin veldur hinni.
Stjórnarfar
Ég aðhyllist beint lýðræði. Hvernig standa skuli svo að beinu lýðræði hef ég einnig mínar hugmyndir fyrir. Ég vill halda í það fyrirkomulag sem nú er með fulltrúarlýðræðinu, þ.e. fólkið kýs þá fulltrúa sem stjórna landinu í gegnum þingið. Hins vegar vill ég ekki sjá kjördæmaskiptinguna. Hún, að mínu mati, hamlar fólk á vissum landshlutum, til að hafa áhrif á landið í heild. Þingmenn frá vissu kjördæmi einblína á sitt kjördæmi og fólkið kýs eftir því. Alþingi ætti að vera hafið yfir þessa byggðarpólitík og einblína eingöngu á landið í heild. Frekar ætti að skipta landinu í allnokkrar svæðisstjórnir (til dæmis Suðurnesin, höfuðborgarsvæðið, Snæfellsnesið o.s.frv.) og samhliða bæjarstjórnar kosningum kýs fólkið svo einn fulltrúa til að sitja fyrir hönd bæjarfélagsins í þar til gerðri svæðisstjórn, hvert bæjarfélag fær svo 1 eða 2 aðilla í svæðisstjórnina sem svo hefur bein áhrif á framkvæmdir og annað sem þarf að gera fyrir svæðið.
Aftur að beina lýðræðinu. Ég vill að málskotsréttur forsetans verðir færður til fólksins þannig að ef einhver nær að safna x mörgum undirskriftum gegn einhverju frumvarpi er hægt að skjóta því í þjóðaratkvæði. Einnig finnst mér að það ætti að vera hægt fyrir hinn almenna borgara að skjóta sínu eigin frumvarpi, eða frumvarpsdrögum, til þingsins með x mörgum undirskriftum. Ég vill líka að internetið sé notað í meira mæli við stjórnsýsluna. Til dæmis að á Alþingisvefnum væri starfrækur umræðuvefur sem hver sem er getur sent inn og rætt um greinar undir sínu eigin nafni. Svo ættu öll frumvörp að vera vel aðgengileg á mannamáli á vefnum og undir því ætti að vera mögulegt fyrir hvern sem er að segja sína skoðun á því sem og að kjósa í þar til gerðri skoðanakönnun um hvort frumvarpið ætti að verða að lögum. Alþingismönnum bæri svo skylda til að taka mið af þessum umræðum og könnum þegar þeir kjósa um frumvarpið.
Alþjóðapólitík
Ísland á að vera leiðandi í umhverfisvernd og leið heimsins til alheimsfriðar. Ísland ætti að skilgreina sig sem vopnlausa þjóð sem afneitar glæpum, ofbeldi og stríði af hverju tagi. Við ættum að hjálpa þjóðum í nauð eins og við mögulega getum og leggja okkar að mörkum í að reyna að koma í veg fyrir stríð. Það þýðir að við ættum að fordæma allskyns vopnaframleiðslu, vopnaburð, beitingu á vopnum, hryðjuverk og innrásir. Sem og ættum við að leggja okkar að mörkum í friðarviðræðum og friðargæslu á stríðshrjáðum svæðum.
Hvað umhverfisvernd ættum við að vera leiðandi í rannsóknum á hreinum og endurnýtanlegum orkugjöfum og reyna að hafa áhrif á gróðurhúsalosun og mengun annarra þjóða.
Hvað hluti eins og innflytjendamál og jafnrétti varðar þá lýt ég ekki á það sem stjórnmálalega hluti, heldur félagslega. Ríkið ætti ekki að mismuna neinum, allir ættu að vera jafnir, en það er einungis þjóðin sjálf sem skapar vandamálin varðandi innflytjendur og jafnrétti. Í staðin fyrir að einblína á að loka landinu fyrir utanaðkomandi vinnuafli ætti frekar að taka á félagslegum undirboðum og aðstoða ríki í nauð að koma stoðum undir atvinnulífið þar í landi. Þar af leiðandi ættu fyrirtæki ekkert að græða meira á að ráða til sín útlendinga sem og, ef ástandið skánar fyrir utan, ættu fleiri útlendingar að vilja halda sig í sínu heimalandi.