Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. (Um ályktun Landsfundar um Réttarfars og stjórnskipunarmál.)

Mér fannst það súrt að sjá að í drögum að ályktun um Réttarfars- og Stjórnskipunarmál væri kafli þar sem Sjálfstæðismenn lýstu því yfir að þjóðin ætti að hafa eina ákveðna andlega kjölfestu, mér var í raun sama hvort kjölfestan átti að vera kristin eða af einhverju öðru trúarbragði. Það gladdi mig þó að þessi klausa komst ekki í gegn um nefndina sem fjallaði um þetta mál. Ég hélt að við slyppum með að álykta bara að kristinleg gildi séu mikilvæg fyrir Íslensku þjóðina, sem er í sjálfu sér rétt. Mér varð ekki að ósk minni. Upp stigu menn sem náðu á einhvern óútskýranlegan hátt að fullvissa fundarmenn um að setja “kjölfestu” klausuna aftur inn.
Mér finnst ógeðslegt að vera í flokki sem telur að það sé hans að ákveða hver andleg kjölfesta fólks á að vera, en ég verð víst að halda fyrir nefið og vona að fnykurinn deyi út.
Með því að samþykkja þessa “kjölfestu” klausu voru fundarmenn í raun að senda skilaboð til fólks sem er annarar trúar eða trúlaust. Að mínu mati eru skilaboðin eitthvað á þessa leið:

“Þið eigið að hafa okkar trú að ykkar andlegu kjölfestu, þið eruð ekki fær um að velja ykkur rétta leið í andlegum efnum, og því gerum við það fyrir ykkur.”

Ég vona að Sjálfstæðismenn fari að taka tillit til trúarskoðana annars fólks og hætti að skipta sér að trúarlífi þess. Og ég vona líka að ég sé enn velkominn í Sjálfstæðisflokkinn þó að ég sé trúlaus.

Sævar Guðmundsson