Yfirlýsing Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, þar sem hann varaði bandarísk stjórnvöld við því að blíðka arabaríki til samstarfs í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi á kostnað Ísraels, er „óviðunandi“ í augum Bandaríkjastjórnar, að sögn Ari Fleischer, talsmanns George W. Bush forseta.
Í yfirlýsingunni varaði Sharon Bandaríkjamenn við því að bregðast við eins og Evrópuríki gerðu á Münchenarfundinum 1938 er þau friðmæltust við Adolf Hitler með því að samþykkja að hann leggði undir sig hluta Tékkóslóvakíu. Gagnrýndi hann tilraunir Bandaríkjanna til að mynda samstöðu meðal arabaríkja um hefndaraðgerðir vegna hryðjuverkaárásanna 11. september. Sagði hann þær ekki mætti verða á kostnað Ísraela.
„Reynið ekki að blíðka arabana á okkar kostnað. Það sættum við okkur ekki við. Ég hvet hinn vestræna heim, og fyrst og síðast Bandaríkin sem forysturíki hins frjálsa heims, til að gera ekki sömu hrikalegu mistökin og áttu sér stað 1938 er evrópsk lýðræðisríki fórnuðu Tékkóslóvakíu fyrir tímabundinn ávinning. Ísrael ætlar sér ekki að verða Tékkóslóvakíua,” varaði Sharon við.
„Yfirlýsingar forsætisráðherranns eru að mati forsetans óviðunandi," sagði Fleischer í dag. Hann bætti því við að Bush forseti hefði komið óánægju sinni með ummæli Sharons á framfæri við hann fyrir milligöngu bandaríska sendiráðsins í Ísrael.