Þú ert að gleyma því sama og sorglega mikill meirihluti vestrænna þjóða.
Fyrst vil ég taka það fram að ef þú nennir ekki að lesa allt svarið, slepptu því þá að lesa nokkuð af því. Ég nenni ekki að lesa svör frá mönnum sem hlusta ekki og þykjast síðan vita eitthvað um málið.
Þetta *er ekki* Íslendinga slagur. Jújú, við getum haldið með Kananum, en það er ekki þar með sagt að A: Við gerum nokkuð gagn með því að þykjast hjálpa þeim, B: Að það sé okkur hollt.
Og þú minnist á að það eigi ekki eftir að stoppa þá að láta þá í friði… ég er því reyndar innilega ósammála. Þetta fólk fæddist ekkert með reiðina í hjarta, og það er ekkert að berjast gegn hinum vestræna heimi af ástæðulausu. Þetta fólk berst og þráir bardaga vegna þess að það hefur ákveðna mynd af hinum vestræna heimi, rétt eins og að við höfum ákveðna mynd af þeim. Það er því miður þörf á því að nefna að þessar myndir beggja aðila eru að meirihluta kolrangar.
Við sáum brjálaða Araba sem fagna á torgum þegar saklausir borgara deyja.
Þeir sjá hrokafulla Aría sem styðja og stundum taka jafnvel þátt í loftsprengjur og lofthernað gagnvart þjóðum, vegna þess eins að það hentar þeim vel í því tilfelli, sama hvað það kostar í lífum borgara.
Ég get ekki séð að hinn vestræni heimur sé neinu saklausari en hinn austræni, hvorki í þessum málum né öðrum. (Og í guðanna bænum, ekki leiða umræðuna yfir í alls óskyld efni eins og Hitler/Stalín.)
Það kemur of oft fyrir að menn haldi að maður haldi eitthvað sérstaklega með terroristum þegar maður talar eins og ég geri nú, en til leiðréttingar vil ég segja það, að ég er á móti ofbeldi í allri sinni mynd. Ég geri mér grein fyrir því að stundum er þörf á því, því miður, enda verða Bandaríkin og þeirra herbúnu vinaþjóðir að gera eitthvað í málunum. En við erum ekki hernaðarþjóð, sem betur fer, og þetta er ekki okkar slagur.
Þú ferð ekki niður í bæ um hverja Föstudagsnótt og leitar uppi slagsmál til að stoppa. Og þú ferð ekki niður í Mið-Austurlönd til þess að stoppa slag þar sem þú þekkir ekki hliðsjónir beggja aðila, og ert í raun í órétti, vegna þess að við, hinn vestræni heimur, er ófær um að dæma hugsanlegar afleiðingar þessa “stríðs”. Við erum ekkert með neina sérstaka yfirsín yfir ástandið, og erum ekki hæf né megnug til að dæma lifandi eða dauða.
Og fyrst þú nefnir að aðgerðaleysi bæti ekki neitt, þá sé ég nákvæmlega ekki neitt benda til þess að hernaður leysi nein vandamál. Það munu verða terroristar áfram, og ef hranalega er hlaupið í málin, verður almenningur út um allar trissur gjörsamlega snælduvitlaus, og þá getum við vel verið að horfa á stríð á milli þjóða. Stríð, sem ég vil ekki láta kenna mig við. Athugaðu að hugtakið “hryðjuverkamaður” hefur ekki einu sinni verið almennilega skilgreint! Þeir eru að vinna í að fullkomna skilgreininguna til þess að geta vitað hverjum þeir eiga að stúta.
Sem dæmi getur lausn Bandaríkjanna sjálfra frá Bretunum á sínum tíma, ekki talist sem neitt annað en skæruhernaður og uppreisn. Bara því þá “langaði” í eitthvað betra en að Bretar segðu þeim hvernig þeir ættu að lifa lífinu. Það er frelsisher. Ef einhver gerir þetta við Bandarískt sendiráð erlendis, þá er það hryðjuverkamaður. Ég sé ekki muninn, og reyndar ekki æðstu ráðamenn plánetunnar… þú vilt kannski skilgreina þetta fyrir okkur snöggvast og redda málunum?
Það er gömul klisja en sönn undir þessum kringumstæðum: Þetta er ekki svona einfalt.