Sem aldrei fyrr höfum við skattborgarar sóað fé í nefnd sem hafði það markmið að skapa sátt í fiskveiðistjórnum, en skilaði “ MÖRGUM ÓLÍKUM NIÐURSTÖÐUM ”.
Fyrir það fyrsta átti nefnd þessi að segja af sér þegar í ljós kom að ekki væri hægt að ná niðurstöðu meðal nefndarmanna og láta skipa aðra menn í nefndina sem hugsanlega gætu hafa komist til þess að vinna þá eðlilegu vinnu að skila sameiginlegu áliti.
Annað er hneyksli og dæmi um ófagleg vinnubrögð í þessu annars stóra hagsmunamáli er varðar landsmenn alla til framtíðar.
Talsmaður annars stjórnarflokksins, er komið hefur fram til þessa varðandi nefndastörfin, virðist einungis hafa fram að bera umræðu um “ skammtímahagkvæmni peningalega ” burtséð frá breytingum á innbyrðis landshögum s.s. byggðaröskun, sem núverandi kerfi hefur orsakað í stórum stíl, og kostar þjóðina meira en hún hefur efni á, því ber skattprósentan vitni, þvi verksmiðjuútgerðin borgar litla sem enga skatta til samfélagsins, né heldur hefur verið reiknað út hvað það kostar að tvibyggja hús yfir landsmenn, fyrst úti á landi svo á höfuðborgarsvæðinu, svo ekki sé minnst á þjónustuna því til viðbótar.
Þessu hafa menn kosið að horfa framhjá, til þessa, þótt ótal vandamál s.s húsnæðisleysi þeirra efnaminni, hrjái á þéttbýlisstöðum, sem aldrei fyrr.
Jafnframt virðist ekki nokkurt einasta tillit tekið til þess að fiskistofnar minnki ár frá ári, sökum þess að í lífriki hafsins
er ógnað með þeim veiðiaðferðum sem viðhafðar eru og hugmyndir um auðlindagjald átti m.a að taka á.
Með raun réttu hafa hér skapast aðstæður af hálfu Alþingis í ákveðnu máli sem varða aðalatvinnuveg þjóðarinnar og skipulag í honum, er ættu með réttu að leiða til þess í ljósi þessa nefndarstarfa að mál þetta yrði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kjörnir fulltrúar hafa ekki getað innt sitt hlutverk af hendi betur en raun ber vitni.
Það er algjörlega óviðunandi að stjórnvöld skuli bjóða landsmönnum slíka aðferðafræði, af hálfu hins háa Alþingis.