A: Samgönguráðherra fór með eftirfarandi orð í framsögu ræðu sinni: Ég er þess fullviss að sá rammi sem fjarskiptalöggjöfin hefur búið fjarskiptamarkaðinum tryggir að samkeppnisaðilar Landssímans fái eðlilegt svigrúm til athafna, m.a. til að bjóða þjónustu á grunnkerfum Landssímans. Þessu til staðfestingar eru samningar Íslandssíma og Tals um aðgang að farsímakerfi Landssímans. Samningarnir eru til marks um að heilbrigðir viðskiptahættir þróast hratt á þessu sviði þannig að hagkvæmni og fjölbreytni fara vaxandi.
A: Hefur í raun fjarskiptalöggjöfin búið til nægilega góðan ramma til að tryggja samkeppni?
Ö: Ég held að samkeppnismarkaðurinn sem ráðherrann talar um verði aldrei fyrir hendi hér á landi. Við erum fámenn þjóð í afar dreifbýlu landi. Við sjáum hvað er að gerast hjá samkeppnisaðilum Landsímans núna. Þeir eiga mjög í vök að verjast. Þegar yfirráðin eru komin í hendurnar á grimmum erlendum samkeppnisaðila mun hann auðveldlega geta náð einokunaraðstöðu á þessum þrönga markaði hér á landi. Þá tek ég nú undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins ekki alls fyrir löngu, að ýmsar spurningar hljóti að vakna. Menn hljóta fyrst og fremst að spyrja hvernig eigi að tryggja öllum Íslendingum góða þjónustu. Ég tel að Landsími í eign og forsjá þjóðarinnar sé best til þess fallinn. Svo einfalt er það mál.
Viðtalið í heild sinni er hægt að nálgast á WWW.STJORN.IS