Þingmaður einn af góðum framsóknarættum kallar það öfund, þegar fólk er að furða sig á því að hann fái “gefins” 15-20 milljónir þegar hann fær að kaupa jörð á 4 milljónir, sem er trúlega 20-25 milljóna virði. Mér finnst það ekki skrítið að fólk “öfundi” hann að njóta þeirra forréttinda að geta auðgast á svona auðveldan hátt, vegna þess að flokksfélagar hans landbúnaðarráðuneytinu (sniglaráðuneytinu) setja kíkinn fyrir blinda augað. Það er ótrúlegt að þeim finnist í lagi að selja þessa jörð á 4 milljónir, á meðan að þeir samþykktu ekki tilboð upp á ríflega 17 milljónir fyrir jörðina við hliðina á þessari.

Þegar fólk notfærir sér elli eða fáfræði einhverra einstaklinga til að auðgast sjálft þá er það ólöglegt. Það hlýtur því að vekja spurningar þegar að þrír einsetukarlar á áttræðisaldri ákveða að gefa þingmanninum sínum slík verðmæti. Mér er til efs að þeir hafi vitað hvaða verðmæti þeir hafi haft í höndunum og mér er líka til efs að þingmaðurinn hafi haft fyrir því að segja þeim frá þeim.

Mér finnst þetta mál dæmi um spillingu af verstu gerð, þingmaður notfærir sér vankunnáttu annara og flokkstengsl sín í landbúnaðarráðuneytinu til þess að auðgast gríðarlega. Trúlega er þetta löglegt, en þetta er siðlaust og það er ótrúlegt hvað landbúnaðarráðuneytið kemst upp með að hegða sér eins og versta tegund af skipulagðri glæpastarfsemi, sem hyglar sér og sínum og þumbast og þvælist fyrir þegar kemur að hagsmunamálum almennings í landinu. Mín skoðun er sú að við höfum ekkert að gera við þingmenn sem hafa siðferði á borð við þennan og það sé orðið löngu tímabært að stokka upp í landbúnaðarráðuneytinu, þannig að það fari að vinna með hag almennings í landinu í huga, en ekki alltaf útfrá sérhagsmunum Framsóknarflokksins.

Kveðja

Jubii