“Gefðu manni fisk, það dugir til dagsins; en kenndu honum veiðar, það endist ævilangt.”
Mig langar aðeins að velta upp spurningunni: “Hvað viljum við gera til að hjálpa fátækustu löndum heims?”
· Viljum við láta duga að gefa einn og einn brauðmola í kringum jólin svo okkur líði vel?
· Viljum við gefa eftir hluta af því sem við höfum í dag til þess að lina þjáningar annarra í heiminum?
Ég ætla ekki að svara þessum spurningum – það verður hver og einn að gera fyrir sig. Ég ætla hins vegar að benda á nokkrar staðreyndir sem sýna að fátækt og fylgifiskar hennar eru tilbúið vandamál, en ekki náttúrulögmál.
· Ef allri matvælaframleiðslu heimsins væri skipt jafnt milli íbúa jarðarinnar myndi hver og einn fá 2,3 kg í sinn hlut á degi hverjum - sem er rúmlega þrefalt meira en mannslíkaminn þarf til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi. Kornframleiðslan ein og sér myndi duga til að allir gætu fengið tvö brauð á
dag.(1)
· Ekki skortir peninga. Nærtækasta dæmið um sóun á peningum er að sjálfsögðu þær fúlgur sem fara í vígbúnað á hverjum degi. Árið 1986 voru hernaðarútgjöld heimsins 900 milljarðar dala.(2) Ein B-2 sprengjuflugvél kostar 2 milljarða Bandaríkjadala.(3)
· Síðustu áratugi hefur matvælaframleiðslan í heiminum aukist ár frá ári. Kornuppskera hefur t.d. aukist um 2,1% á ári, sem er þó nokkuð meira en fólksfjölgunin, en hún hefur verið 1,6% á ári. Af þessu er ljóst að hungur stafar ekki af því að matvælaframleiðslan aukist minna en fólksfjölgunin. Ef matvælaframleiðsla heldur áfram að aukast eins og verið hefur er talið að hún geti fullnægt þörfum jarðarbúa þó að þeir verði orðnir 10 milljarðar að 100 árum liðnum. (1)
· Í mörgum fátækustu ríkjum heims má finna dæmi þess hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa skapað meiri fátækt. Fjármunir ríkisins fara ekki til að byggja upp menntun og heilsugæslu eða bæta tekjumöguleika fólks, heldur til að kaupa vopn og byggja upp heri. (1)
· Á síðustu áratugum hefur verð á matvælum og hráefnum sem þróunarlöndin selja iðnríkjum lækkað. Á sama tíma hefur verð á iðnvarningi sem þróunarlöndin kaupa frá iðnríkjunum hækkað til muna en þetta misræmi geri fátæku löndin enn þá fátækari.(1)
Bara nokkrir punktar inn í umræðuna.
P.s. Og fyrir ykkur misjafnlega gáfaða rasista sem hugsið ykkur að tjá ykkur um þessa punkta vinsamlegast hafið þá í huga að það er ekki langt síðan Íslendingar voru illa lyktandi og lúsug moldkofaþjóð sem átti ekki bót fyrir rassgatið á sér… ok þetta síðasta er nú kannski ekki alveg rétt því það kom fyrir að menn sniðu niður skinnhandrit forfeðranna og notuðu sem bætur.
(1)
http://www.redcross.is/default.asp?fmID=00,07,01,04(2) Robertson, Ian: Maður og Jörð. Félagsfræði III, bls. 130.
(3)
http://jdw.janes.com/sample/jdw0462.html