þingið aftur til starfa:

Georg W. Bush, kallaði í dag árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin í fyrradag “stríðsaðgerðir.” Bandaríska þingið kom aftur til starfa í dag. Bush sagði að hann myndi falast eftir aðstoð þingsins til fjármögnunar á uppbyggingu í kjölfar árásanna og til aukinnar verndar Bandaríkjanna. Þingmenn sneru aftur til starfa í dag en þinghúsið var rýmt í kjölfar hryðjuverkanna.


“Þetta verður bardagi hins góða gegn hinu illa. En það góða mun hafa betur að lokum,” sagði forsetinn. Hann sagði að þjóðin væri tilbúin til að verja eins miklu fé og nauðsynlegt væri til að bæta skaðann. “Við munum safna öllum heiminum saman til að berjast gegn hryðjuverkum.”

Osama bin Laden efstur á lista:


Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur fengið 700 ábendingar í tengslum við árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin. Enginn hefur verið handtekinn.

Bandarísk stjórnvöld segja að hryðjuverkamennirnir sem framkvæmdu árásir gærdagsins hafi verið þjálfaðir flugmenn og þrír til fjórir hafi rænt hverri flugvél. Þessar upplýsingar byggja á símtölum farþega en töluvert margir náðu að hringja í ættingja og vini áður en flugvélarnar fórust.

“Svo virðist vera sem flugræningjarnir hafi verið þjálfaðir flugmenn,” sagði Mindy Tucker, sem vinnur í bandaríska dómsmálaráðuneytinu.

Tucker vildi ekkert segja um tengsl árásanna við Osama bin Laden eða hvort að gefnar hefðu verið út handtökuskipanir. Bandarískir embættismenn hafa sagt að of snemmt sé að skella skuldinni á bin Laden, sádi-arabískan auðkýfing og sem löngum hefur verið bendlaður við hryðjuverk, en hafa sagt að vísbendingar bendi til þess að hann standi að baki árásinni.

“Allt bendir til í áttina til Osama bin Laden,” sagði Orrin Hatch, þingmaður repúblikana og meðlimur í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar.



ekki búist við fleirum lifandi í rústum Pentagon:


Sjö manns var bjargað úr rústum World Trade Center í dag. Ekki er búist við því að finna fleiri lífs í Pentagon. Björgunarsveitarmenn fundu sjö manna á lífi í rústum World Trade Center í dag, sex slökkviliðsmenn og einn lögreglumann.

Embættismenn í Washington segjast ekki búast við því að finna fleiri fórnarlömb á lífi í Pentagon.

Sérþjálfaðaru björgunarsveitir eru að störfum á vettvangi árásanna. Seint í gærkvöld fundust þrír á lífi í rústum World Trade Center. Björgunarsveitum tókst að finna þau eftir að þau höfðu komist í samband við systur eins þeirra sem hringdi í björgunarsveitir og gaf leiðbeiningar um staðsetningu fólksins.

Átta hæðir standa enn af nyrðri turni World Trade Center. Björgunarsveitir hafa einblínt á björgunarstörf í þeim.

Ekki er vitað hve margir létust í árásinni á World Trade Center og Pentagon.

Á fjórða hundrað slökkviliðsmanna og lögreglumanna er saknað í New York, en um 50.000 manns unnu í turnunum tveimur. Talið er að þúsundir manna hafi látist þar.

Sömuleiðis er óljóst hve margra er saknað í Pentagon en talið er að fórnarlömbins séu á bilinu frá 100 til 800 manns.