Æ, það verður víst seint sem vesalings maðurinn hættir að fara í taugarnar á mér. Núna er hann að þenja sig, nú talar hann sem formaður BSRB um aðgerðir sjómannasambandsins og lögbann á aðgerðir þeirra. Það sem fer mest í taugarnar á mér að maður veit aldrei hvaða Ögmundur er að tala, hvort það er Ögmundur þingmaður vinstri grænna, Ögmundur formaður lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða þá Ögmundur formaður BSRB. Mín skoðun er sú að hann rugli þessum hlutverkum sínum ansi oft saman og oft noti hann þessi embætti sín til að koma sínum pólitísku skoðunum á framfæri. Mér fannst alla vega oft á meðan ég var opinber starfsmaður og var í BSRB, að Ögmundur væri ekki að tala fyrir mína hönd, heldur að koma sínum eigin pólitísku skoðunum á framfæri þegar hann talaði í nafni samtakanna.

Alla vega ég tel óheppilegt að menn séu að vasast í of mörgu og oft að menn séu á gráu svæði þegar menn blanda saman hagsmunagæslu fyrir einhver samtök við eigin hagsmuni. Ég veit vel að Ögmundur er ekki eini þingmaðurinn í þessari stöðu, Vilhjálmur Egilsson er dæmi um annan þingmann sem stundum lendir í undarlegri aðstöðu vegna þess að hann hefur marga umbjóðendur sem hafa hagsmuni sem stundum fara ekki saman við hans eigin. En þar sem Ögmundur fer í mínar fínustu, þá fannst mér hann kjörið dæmi til að benda á þá spillingu sem felst í því þegar að menn eru að misnota aðstöðu sína sem formenn einhverra samtaka, til að koma eigin skoðunum á framfæri í nafni samtakanna.

RJ