Kristján Guy Burgess fréttamaður RÚV náði Árna í þriðju gráðu yfirheyrslu, sem útvarpað var í hádeginu á mánudaginn. Hér á eftir fer útskrift af viðtalinu, sem á köflum er einsog absúrdleikrit. Lesendur geta dundað við að telja saman mótsagnirnar í málflutningi þingmannsins.

—–

Árni Johnsen: Ég held að það sé kominn tími til að segja sögu þessara leyndardómsfullu steina. Og það er best að segja ykkur þá sögu eins og hún er. Þegar ég pantaði steinana og sótti þá, þá var sama dag gefin tilkynning á frestun á framkvæmdum sem að var hugað á svæði Þjóðleikhússins. Þetta átti náttúrulega að fylgjast að svo ég ætlaði að koma þeim í geymslu en ákvað þá, fékk þá hugmynd að nota samskonar steina og notaði þessa pöntun fyrir mig sjálfan.

Kristján Guy Burgess: Þú notaðir sem sagt steinana sem þú pantaðir á nafni Þjóðleikhússins…?

Árni: Fyrir mig, já. Og ætlaði sem sagt að panta aðra pöntun, var því miður ekki búinn að gera þegar að svona fjaðrafokið byrjaði. Og síðan í morgun þegar ég ætlaði síðan að kanna að gera pöntun hjá BYKO sem ég auðvitað greiði þar sjálfur, hjá BM-Vallá, þá ákvað ég að miklu skynsamlegra væri að einfaldlega borga reikninginn.

Kristján: En í hvað ætlaðirðu að nota þessa steina upphaflega?

Árni: Þeir áttu að notast í stéttina fyrir framan austurtröppur Þjóðleikhússins sem eru mölbrotnar og skemmdar. Átti að brjóta upp stéttina þarna í þessu munstraða formi og þær henta mjög vel í það. Þeir eru 6 cm þykkir og síðan kantsteinarnir sem að geta puntað mjög fallega upp á og eru svona í stíl við Þjóðleikhúsið, svolítið stuðlalegir. Þannig átti að nota þá.

Kristján: En hver tók ákvörðun um að fresta framkvæmdunum?

Árni: Með?

Kristján: Við stéttina?

Árni:Ég tók ákvörðun um það.

Kristján: Þannig að þú pantar steinana og frestar síðan …

Árni: Nei, sko það er eiginlega búið að gefa grænt ljós á framkvæmd sem við ætlum að fara vinna við Þjóðleikhúsið.

Kristján: Þegar þú segir “við” þá áttu í raun bara við …

Árni: Ég er að tala bara um byggingarnefndina við Þjóðleikhúsið. Og það er í skipulagi borgarinnar til meðferðar og þá kom tilkynning um frestun á því og þetta fór saman og þá var skynsamlegt að láta það bíða.

Kristján: Nú er sem sagt upplýst að steinarnir, sem fundust ekki í gær, að þeir séu lagðir í garðinum heima hjá þér?

Árni: Já, já það er alveg rétt.

Kristján: Og hvað ætlar þú að gera í því?

Árni: Gera í því?

Kristján: Ætlarðu að taka þá upp?

Árni: Nei, ég hef borgað reikninginn í framkvæmdasýslunni.

Kristján: Úr eigin vasa?

Árni: Já.

Kristján: Er þetta eini reikningurinn úr bókhaldi byggingarnefndar Þjóðleikhússins sem að þú hefur nýtt í eigin þágu?

Árni: Þetta því miður gerðist svona og þetta eru mistök og ég harma það. Þetta er auðvitað ekki eins og þetta á að vera. En þannig er það og er kannski fljótfærnislegt en engu að síður svona er það.

[Texti fréttamanns:] Árni vill ekki meina að hann hafi gerst sekur um spillingu þótt vinnubrögðin séu að hans sögn ekki til fyrirmyndar. Hann segir aldrei annað hafa staðið til en að steinarnir yrðu notaðir í stéttina austan við Þjóðleikhúsið. En er honum áfram sætt í byggingarnefnd leikhússins?

Árni: Nei, ég held að, ekki bara út af þessu, heldur bara út af þessu fjaðrafoki öllu þá held ég að sé eiginlega kominn tími á mig í byggingarnefnd Þjóðleikhússins.

Kristján: En af því að þú talar um fjaðrafok, er það ekki fyrst og fremst vegna þess að þú hefur kosið að segja fjölmiðlum ósatt?

Árni: Ég sagði ekki beint ósatt, ég sagði ekki allan sannleikann en nú hef ég gert það.

Kristján: En þú sagðir að steinarnir væru á brettum úti í bæ.

Árni: Já, ég sagði það vegna þess að þegar maður gengur að lager hjá fyrirtæki sem selur þessa steina þá eru þeir geymdir þannig.

Kristján: En þeir voru í garðinum heima hjá þér.

Árni: Já.

Kristján: Ekki á bretti úti í bæ.

Árni: Nei.

Kristján: En þú sagðir þjóðinni það í gær.

Árni: Já, það er ósatt og það er ekki gott.

Kristján: Er þér, þegar það er upplýst að þú segir þjóðinni ósatt, er þér sætt áfram sem þingmaður fyrir þjóðina?

Árni: Já, já ég held að þetta sé nú ekki þess eðlis þetta mál. Þegar standa öll járn á manni og þá reynir maður ósjálfrátt að víkja sér undan og þetta er nú ekki alvarlegt.

Kristján: Þér finnst þetta ekki alvarlegt brot?

Árni: Nei, ekki stóralvarlegt en þetta er ekki til fyrirmyndar.

—–
Tekið af strik.is

kv.
cul-de-sac

Mæli ég með að hann verði grýttur með óðalskanntsteinum! :)