Eftirfarandi grein er samsett úr beinum tilvitnunum í vefritið Fullveldi.is sem ritstýrt er af Ragnari Arnalds, fyrrv. alþingismanni, fjármálaráðherra og forseta sameinaðs Alþingis:
“Inngangsorð ritstjóra
Ýmsir fjársterkir aðilar reka nú stífan áróður fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu sem sjálft ver tugum milljóna á ári hverju hér á landi til kynningar á starfsemi sinni. Einnig voru nýlega stofnuð sérstök samtök til stuðnings aðild. Þverpólitískt, skipulagt andóf er hins vegar lítt áberandi og litlum fjármunum varið til að vekja athygli á ókostum aðildar. Stuðningsmönnum aðildar gengur illa að finna skýr rök fyrir máli sínu en algengasta klisjan er sú að við Íslendingar hljótum að ganga í ESB úr því að svo margar aðrar þjóðir hafi gert það. Síðan er því fylgt eftir með gamalkunnum hræðsluáróðri: ef við förum ekki að dæmi þeirra hljótum við að ”einangrast". En þegar dýpra er skyggnst dylst fæstum að ókostirnir við aðild eru miklu stærri en kostirnir. Vefritinu fullveldi.is er ætlað að halda til haga rökum þeirra sem hafna aðild og telja farsælast fyrir Íslendinga að varðveita sjálfstæði sitt í framtíðinni. Um leið getur það gagnast útlendingum sem vilja fylgjast með íslenskum stjórnmálum en efnið á fyrstu tíu síðunum birtist í enskri þýðingu. Ábendingar frá lesendum eru vel þegnar. Netfangið er: leikir@centrum.is
Ragnar Arnalds
Hvað er ESB?
Þeir sem áróður reka fyrir aðild Íslands að ESB ræða oft um það sem samvinnuvettvang sjálfstæðra ríkja sem einkum fáist við að samræma lög og reglur aðildarríkjanna og sé í eðli sínu hliðstætt ýmsu milliríkjasamstarfi sem Íslendingar hljóti að taka fullan þátt í. En þetta er mikill misskilningur. ESB er fyrst og fremst vísir að nýju stórríki. Aðildarríkin fórna veigamiklum þáttum sjálfstæðis síns til æðstu stofnana þess með hliðstæðum hætti og fylkin í Bandaríkjunum. Þróunin er að sjálfsögðu miklu lengra komin í Bandaríkjunum og enn er ESB miðja vegu á milli þess að vera ríkjasamband og sambandsríki. En augljóst er að stefnt er að því marki. Aðild að ESB er því allt annars eðlis en aðild að SÞ og öðrum alþjóðlegum stofnunum eða að NATO, EFTA eða EES svo dæmi séu nefnd. ESB er smám saman að breytast í geysistórt ríki sem dregur til sín sjálfsákvörðunarrétt aðildarþjóðanna á flestum mikilvægum sviðum.
Vegnar ekki stórríkjum betur en smáríkjum?
Það er verðugt umhugsunarefni hvers vegna efnahagsþróun á Íslandi hefur verið svo miklu hraðari undanfarna áratugi en verið hefur í ríkjum ESB. Stórum ríkjum hefur hreint ekki vegnað betur á þessari öld en smáum ríkjum heldur þvert á móti, sjá Hagvöxtur. Það er því hrapaæegur misskilningur sem alltof margir eru haldnir af að Íslendingum hljóti að vegna betur ef þeir fljóta með straumnum og fara að dæmi nálægra þjóða. Þjóðin hefur sérlega vonda reynslu af því á liðnum öldum að láta embættismenn í mörg þúsund kílómetra fjarlægð ráða fyrir sér og segja sér fyrir verkum. Mönnum er einmitt áskapnað að muna reynslu sína og forfeðra sinna til þess að læra af henni.
Sjávarútvegur
Grunnreglan í ESB er sú að fiskiskip allra aðildarríkjanna eiga aðgang að sameiginlegri lögsögu utan tólf mílnanna, og fiskistofnarnir tilheyra ekki strandríkjunum heldur teljast sameign ESB. Við aðild Íslands fengi ESB úrslitavald um tilhögun veiða við Íslandsstrendur milli 12 og 200 mílna.
Úr því ESB-ríkin hafa enga veiðireynslu fá þau þá aflaheimildir?
Algengt er að reynt sé að telja fólki trú um að unnt sé að semja um það við ESB að Íslendingar fái undanþágur frá sjávarútvegsreglum sambandsins og geti því áfram setið einir að öllum veiðum við Íslandsstrendur. Ráðherraráð ESB sem úthlutar veiðiheimildum myndi afhenda Íslendingum allan veiðikvótann við Íslandsstrendur að undanteknum 3000 karfatonnum sem við gáfum eftir með EES-samningnum. ESB-þjóðir hafi enga viðurkennda veiðireynslu á Íslandsmiðum og fengju því engar aflaheimildir við Ísland. Á þetta geti Íslendingar treyst.
Menn virðast hafa gleymt því að áhrifamestu aðildarríki ESB eru einmitt sömu ríkin og stunduðu hér veiðar öldum saman, m.a. Bretar, Þjóðverjar, Belgar, Hollendingar og Spánverjar, jafnvel upp í landsteina allan fyrri hluta aldarinnar. Sum þeirra hurfu ekki af miðunum fyrr en 1976 eftir þrjú þorskastríð. Hugtakið veiðireynsla hefur enga fasta merkingu hjá ESB og þessi ríki myndu hafa mest um það að segja hver merkingin yrði talin á Íslandsmiðum, sjá söguleg veiðireynsla. Við Íslendingar gætum jafnframt glatað fiskimiðum okkar á annan hátt en þann að ESB úthluti hluta af veiðiheimildum hér við land til annarra en okkar. Helsta aðferð Spánverja til að komast yfir veiðikvóta annarra ríkja er ekki kvótaúthlutun heldur kvótahoppið, þ.e. kaup á skipum í öðrum ríkjum. Skipið er þá skráð í landi fyrri eigenda en afla landað í heimalandi nýrra eigenda. Þegar eru um 20% breskra fiskiskipa í eigu Spánverja og Hollendinga. Bretar hafa ákaft reynt að hindra að kvóti þeirra hoppi þannig úr landi - án árangurs.
Landbúnaður - Bjóðast ekki neytendum ódýrar, innfluttar búvörur?
Oft er það nefnt sem einn helsti kosturinn við aðild að ESB að innflutningur landbúnaðarvara verði gefinn frjáls og neytendum bjóðist ódýrar, innfluttar búvörur. Aðrir telja þetta verulegan ókost þar eð afleiðingin yrði stórfelldur samdráttur í innlendri framleiðslu búvara, bæði hjá bændum og vinnslustöðvum og þar með samdráttur í þjóðarframleiðslu. Sérfræðingar bændasamtakanna hafa að vísu talið að lambakjötsframleiðslan gæti staðist samkeppnina og var það einnig niðurstaða nokkurra nemenda við Samvinnuháskólann í sérstöku verkefni þeirra á haust misseri 1998. Um mjólkurframleiðslu og þá einkum smjör- og ostagerð gegnir öðru máli. Bændasamtökin hafa bent á að 25-50% mjólkurframleiðslunnar yrði í verulegri hættu ef Ísland gengi í ESB og jafnframt legðist svínakjöts-, kjúklinga- og eggjaframleiðsla af að mestu. Afleiðingin yrði verulegt atvinnuleysi í sveitum og bæjum sem byggja afkomu sína á vinnslu búvara og samdráttur í landsframleiðslu.
Gróði/tap - Er ekki ávinningur að aðild?
Hverjir eru fjárhagslegir ávinningar Íslendinga af aðild [að ESB]? Margir ganga út frá því sem gefnu, að innganga Íslands í ESB færi okkur öllum gull og græna skóga. En það er á miklum misskilningi byggt. Samtök atvinnurekenda telja að vísu að hugsanlegur ávinningur yrði af aðild fyrir íslensk fyrirtæki í formi lækkaðs rekstrarkostnaðar vegna lægri vaxta og viðskiptakostnaðar. En samkvæmt skýrslu stjórnvalda vorið 2000 þyrfti Ísland að greiða rúma 8 milljarða kr. árlega í skatt til sameiginlegra fjárlaga ESB. Sú upphæð nálgast óðfluga 9000 millj. kr. eftir gengisfall krónunnar og jafnast á við 2,5% í tekjuskatti einstaklinga sem að sjálfsögðu teldist veruleg tekjuskerðing hjá þorra launafólks.
Evran - Evra í stað krónu?
Sjálfsagt þykir mörgum það ávinningur að við aðild að ESB gætu Íslendingar tekið upp nýju myntina, evruna. Sameiginleg mynt verður vinsæl meðal almennings sem sleppur við að afla sér gjaldeyris á ferð um aðildarríkin og nokkur sparnaður næst hjá fyrirtækjunum. Ókostirnir sem fygja því að afsala sér eigin mynt eru hins vegar verulegir þótt minna sé um þá rætt.
Í sjálfstæðu ríki er gengisskráning eigin myntar ásamt ákvörðun vaxta og skatta helstu úrræðin til að berjast gegn neikvæðum afleiðingum hagsveiflna sem hafa þá sífelldu áráttu að keyra hagkerfi þjóðanna út af sporinu, ýmist með háskalegri ofþenslu eða alvarlegum samdrætti og atvinnuleysi. Ríki sem búa við hliðstæðar aðstæður og hafa samsvarandi efnahagskerfi geta tekið upp sameiginlega mynt og beitt þessum stjórntækjum sameiginlega með góðum árangri. Efnahagskerfið á Íslandi er hins vegar verulega ólíkt efnahagslífi aðildarríkja ESB. Hagsveiflur hér eru oft brattari en annars staðar og í engum takti við hagsveiflur í ESB vegna þess að hér er það t.d. útflutningsverð á sjávarafurðum sem mjög ræður ferð hagsveiflunnar en það á ekki við ESB. Það yrði Íslendingum afar óhagstætt ef gengisþróun myntar sem hér væri notuð tæki ekki lengur mið af íslenskum aðstæðum heldur kringumstæðum í löndum þar sem ástand mála er allt annars eðlis. Sama á við um beitingu skatta og vaxta sem nú er farið að miðstýra í ESB.
Viðskiptasamningar - Tryggir ekki aðild að ESB aukin viðskipti?
ESB er tollabandalag sem afnemur tolla í innbyrðis viðskiptum en setur upp tollmúra gagnvart þeim sem utan við standa. Fríverslunarsamningar einstakra aðildarríkja við ríki utan ESB falla því niður við aðild. Við Íslendingar höfum gert mjög hagstæða fríverslunarsamninga við ýmis ríki utan ESB, t.d. við Færeyjar, Tyrkland, Ísrael og ýmis ríki Mið- og Austur-Evrópu. Við fengjum því víða á okkur innflutningstolla ef við gengjum í ESB. Sívaxandi sókn okkar inn á markaði utan ESB gæti verið í hættu og eins gætum við hæglega orðið fórnarlömb viðskiptastríða sem ESB er alltaf öðru hvoru að lenda í við önnur markaðssvæði. Sama gildir um fiskveiðisamninga. Samningsumboðið myndi við aðild flytjast til stofnana ESB. Samningar Íslendinga við Grænland, Færeyjar og Noreg um síld og loðnu myndu til dæmis falla niður. Hvort ESB gerir síðan nýja samninga við þessi ríki fyrir okkar hönd og hvernig þeir samningar yrðu er önnur saga. Hagsmunir ESB eru allt aðrir en okkar en við hefðum ekki lengur heimild til að semja sjálfir um slík mál. Forræðið flyst til ESB. Samningsréttur glatast.
Hagvöxtur - Hvað um hagvöxtinn og atvinnuleysið?
Vegnar stórum ríkjum betur í hagvaxtarkapphlaupinu en litlum ríkjum? Síður en svo! Hagvöxtur árin 1971 - 2000 á Íslandi og í Noregi sem bæði stóðu utan ESB var miklu hraðari en í Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Spáni eða Ítalíu og hraðari en að meðaltali í ESB-ríkjum, OECD-ríkjum eða Bandaríkjunum. Atvinnuleysi á árinu 2000 var margfalt meira að meðaltali í ESB en á Íslandi og í Noregi. Sjá stólparitin sem fylgja þessari grein. Heimild: OECD Economic Outlook og Hagfræðisvið Seðlabanka Íslands."
Kveðja,
Hjörtu
Með kveðju,