Hér eru nokkrar athugasemdir við vafasamar greinar í stefnuskrá Flokks “Framfarasinna”, forsprakka flokksins fannst stefnuskráin ekki njóta þeirrar gagnrýni sem hún verðskuldar, hér hefur hann hana. (gagnrýni á 22,3% greinar stefnuskrárinnar)
“Hagsmunir heildarinnar (meirihlutans) verða að ganga fyrir hagsmunum einstaklinga eða hagsmunum einstakra hópa innan þjóðfélagsins. Þar sem þessir hagsmunir stangast á verða hagsmunir heildarinnar að ganga fyrir. Meirihlutanum ber þó eðlilega að taka fullt tillit til hagsmuna minnihlutans. Í þessu felst lýðræðið! Þeir sem eru andsnúnir þessu geta ekki talist mjög lýðræðissinnaðir.”
Það er ekkert lýðræðislegt við það að hagsmunir stórra hópa gangi fyrir hagsmunum annarra, það kallast víst alræði, þar sem eitthvað vald (meirihlutinn) ríkir yfir hinum færri og hugsar aðeins um að fá að fylgja sínum hagsmunum, við þurfum ekki annað en að líta á Kína, til þess að sjá hvað meirihlutastjórnun virkar vel. Ég held að ritarar stefnuskrár þessar séu að rugla saman lýðræðislegum kosningum við lýðræðislegt stjórnarfar, því í lýðræðislegri kosningu er það oftast meirihlutinn sem kemst til valda, en það þýðir ekki að hann geti stjórnað hinum færri, heldur ber honum að taka tillit til allra, hvort sem þeir eru íslenskir eða ekki!
“Hæstiréttur Íslands verður að tryggja að ákvæðum stjórnarskrárinnar sé framfylgt í hvívetna. Hæstaréttur á að hafa vald til að reyna hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána áður en þau taka formlega gildi leiki á því einhver vafi.”
Hér er ansi vafasamt mál á ferð, þegar Dómsvaldið er farið að dæma hvort lög sem Löggjafinn setur standast þá er farið að tefla þrískiptingu ríkisvaldsins í tvísýnu.
“Flokkurinn telur að þörf sé á því að skilgreint verði hvað felist í því að vera íslenskur ríkisborgari og hvaða réttindi íslenskir ríkisborgarar hafi á Íslandi umfram þá sem ekki hafa slíkan rétt, enda virðast mörkin þar á milli vera að verða æði óljós.”
Íslenskir ríkisborgarar eru verndaðir af Íslenska ríkinu, hér eiga þeir að hafa öruggt skjól, en það þýðir þó ekki að þeir skuli njóta forréttinda yfir aðra.
“Ríkið eignist þá aðila er þjóðfélagslegt öryggi eður hagkvæmni felur í sér að séu betur komnir í faðmi ríkisins.”
Getur ritari stefnuskrárinnar kannski útskýrt þetta atriði betur, sumir telja eflaust að öll útgerð og fiskvinnsla eigi að vera ríkisrekin, hvar nákvæmlega eru mörk flokksins í þessum efnum? Og ennfremur, hvernig skal staðið að eignatöku ríkisins á eignum einkaaðila?
“Tekin verði upp hálfs árs til árs þegnskylda við verk í þágu samfélagsins fyrir ungmenni á aldursbilinu 15-20 ára sem taka má út í einu lagi hvenær sem er á tímabilinu. Stefnumál þetta komi aðeins til með breytingum þeim á menntamálum og námstíma sem nefnd eru undir kaflanum menntamál.”
Í stefnuskránni segir að flokkurinn vilji vinna að einstaklingsfrelsi, ef skylduþrælkun ungmenna er skyld einstaklingsfrelsi skal ég hundur heita, sérstaklega vegna þess að um helmingur hópsins sem hér um ræðir er sjálfráða.
“Það er álit flokksins að ef 10.000 kjósendur samþykkja að mál skuli fara í þjóðaratkvæði eigi að ganga að því. Sömuleiðis ættu þessi atriði einnig að eiga við sveitarfélögin í landinu eftir því sem við á.”
Ágætis hugmynd, en mér finnst talan vera of lág, Sjálfstæðisflokkurinn er skipaður um 32.000 einstaklingum, hann gæti auðveldlega skapað það vægi sem til þarf til þess að fara út í atkvæðagreiðslur, hér er aðeins dæmi um afl sem gæti gert þetta.
“Flokkur framfarasinna er algerlega andvígur aðild Ísland að alþjóðlegum samtökum og samtökum almennt sem felur í sér afsal á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar.” “Flokkur framfarasinna er hlynnur áframhaldandi aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum, en ljóst er að gera þarf róttækar endurbætur á SÞ ef þær eiga að geta sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað.” “Náið samstarf og samhjálp verði tekin upp við Færeyjar, þá hugsanlega með gagnkvæmum skattaívilnunum og gagnkvæmum stuðningi á ýmsum sviðum.”
Hér fyrir ofan lýsa ritarar stefnuskrárinnar yfir andstöðu flokksins við því að Ísland sé partur af samtökum (takið eftir, “…andvígur aðild Ísland að alþjóðlegum samtökum OG samtökum almennt sem felur í sér afsal á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar…” hér er bæði verið að tala um samtök og samtök sem skerða fullveldið(að þeirra mati).) ef mér skjátlast ekki þá eru Sameinuðu þjóðirnar samtök. Þrátt fyrir að flokksmenn séu andvígir aðild Íslands að samtökum og stofnunum þá vilja þeir tengja Ísland við Færeyjar skattalega séð, þetta finnst mér stangast á.
“Leita þarf leiða til að hækka laun og bæta aðbúnað í fiskvinnslugreinum, bæði til mótvægis við flóttann af landsbyggðinni og til að gera störfin meira aðlaðandi í augum Íslendinga.”
Því að gera störfin meira aðlaðandi í augum Íslendinga ef við getum gert störfin meira aðlaðandi í augum allra, viljum við kannski enga útlendinga hingað? Svo finnst mér alveg út í hött yfir höfuð að ríkið sé að skipta sér að því hve aðlaðandi störf í einkageiranum séu, eða fellst þetta kannski undir fyrirtæki sem eru ”betur kom[in] í faðmi ríkisins”?
“Sporna verður gegn áframhaldandi fjölgun á höfuðborgarsvæðinu umfram 1% á ári. Reynt verður að sjá fyrir uppbyggingu eins til tveggja stórra byggðakjarna í hverjum landshluta í gegnum skattaívilnanir og vaxtalaus eða vaxtalítil lán til sveitarfélaga.”
Að meina fólki að flytjast til höfuðborgarsvæðisins er rangt fólk á að vera frjálst að lifa í hvaða borg sem það kýs.
“Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins. Tryggja þarf að fjölskyldan geti eytt sem mestum tíma saman.”
Hvergi í víðri veröld hefur nokkrum manni tekist að setja það í lög eða “tryggja” það með beitingu ríkisvaldsins að “fjölskyldan geti eytt sem mestum tíma saman.”
“Leita þarf leiða til að stytta vinnuvikuna.”
Fólk á að fá að vinna eins mikið og það vill, svo framarlega að ekki sé verið að brjóta á rétti þeirra til þess að taka þá frídaga sem það á rétt á, það er svo aftur einstaklingsins að ákveða hvort hann vill vinna þessa frídaga. Það er gott að hafa möguleikann, en ekki að vera neyddur til að nota hann.
“Draga á verulega úr rekstri dagheimila, en þess í stað meta starf uppalandans að verðleikum og leita leiða til að greiða þeim mæðrum eða feðrum sem vilja vera heima hjá börnum sínum fyrir það með einum eða öðrum hætti. Starf uppalandans er eitt af grundvallarstörfum þjóðfélagsins.”
Mér líst vel á þá hugmynd að borga fólki fyrir að sjá um börnin sín ef af einhverri ástæðu það telur það hentugra en að hafa þau á dagheimili, en það réttlætir þó ekki að ríkið fari að skipta sér að rekstri dagheimila, það er nú nógur skortur á leikskólaplássum í höfuðborginni. Rekstur dagheimila mundi líka að öllum líkindum dragast saman að sjálfu sér ef kólk kysi að nýta ekki þann möguleika.
“Öll born ættu rétt á því að reyna fyrir sér í íþróttagreinum og tónlistariðkun tvo vetra án endurgjalds.”
Ég held að viðkomandi átti sig ekki fyllilega á hve tónlistar og íþróttaiðkun kostar, það væri mun skynsamlegra að nota peningana í eitthvað nytsamlegra, börn fá jú íþróttakennslu í skólum og oft er boðið upp á tónlistarnám gegn greiðslu.
“Afnema á skatta á eftirlaun enda um að ræða óþolandi tvísköttun.”
Þetta er bara rangt, eftirlaun og lífeyrir er ekki skattlagður áður, hann er bara skattlagður þegar hann er greiddur.
“Íslenskir ríkisborgarar verða að ganga fyrir um atvinnu á Íslandi. Annað hlýtur að vera til þess að grafa undan þýðingu og vægi íslensks ríkisborgararéttar. Atvinnurekendur sem skortir vinnuafl verða fyrst að hafa samband við innlendar vinnumiðlanir áður en þeir leita á Evrópska efnahagssvæðinu eða annað út fyrir landssteinana.”
Útlendingum sem vilja vinna hér er í flestum tilvikum úthlutað tímabundnum dvalar og atvinnuleyfum, þetta atvinnuleyfi tryggir réttindi viðkomandi á atvinnumarkaðnum, hann er með sömu réttindi og hver annar á atvinnumarkaðnum. Ef ríkisborgarar eiga að ganga fyrir er það ekkert annað en mannréttindabrot, þá yrðu t.d. innflytjendur lágstétt á atvinnumarkaðnum vegna þess að þeir þyrftu samkvæmt ykkar reglum að bíða í heil 8 ár til þess að gerast ríkisborgari, þetta þýðir að viðkomandi væri nánast réttindalaus í átta ár!
“Þeir geta einungis sótt um ríkisborgararétt sem hafa hreina sakaskrá, sem geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni og hafa á 8 ára búsetu í landinu orðið til þess að styrkja íslenskt þjóðfélag. Auk þess verða umsækjendur að hafa staðist munnlegt og skriflegt próf í íslensku, auk prófs í íslenskri sögu og menningu.”
Af hverju þurfa Íslendingar þá ekki að standast þessi próf til þess að fá að vera ríkisborgarar? Ég þekki fullt af fólki sem veit lítið sem ekkert um sögu landsins, er alveg sama um menninguna og eru varla skrifandi! Af hverju þurfa innflytjendur að kunna söguna en við ekki?
“Eftir að einstaklingi hefur verið veittur ríkisborgararéttur má þó svipta hann réttinum verði hann sakfelldur fyrir alvarlega glæpsamlegt athæfi.”
Með þessu er verið að segja að innflytjandi sem gerist ríkisborgari sé í raun ekki fullgildur ríkisborgari. Það gengur ekki að hafa mismunandi reglur fyrir “íslenska íslenska ríkisborgara” og “útlenda íslenska ríkisborgara”.
“Ísland getur tímabundið veitt pólitískum flóttamönnum hæli. Slíkir flóttamenn geta fengið útgefið tímabundið landvistarleyfi sem endurnýja þarf á árs fresti. Þegar aðstæður batna í heimalandi þeirra skulu þeir sendir heim.”
En ef flóttamanninum líst vel á land vort og menningu og vill setjast hér að?
“Flóttamenn verði ekki geymdir hjá Rauða krossi Íslands á meðan verið er að fara yfir umsókn þeirra og séu ekki algerlega lausir án eftirlits í samfélaginu.”
Ha?? Á að setja þá í fangelsi eða stofnun á meðan?
“Flóttamenn á ekki að gera að innflytjendum. Flokkur framfarasinna vill að pólitískum flóttamönnum sé hjálpað í nágrannalöndum sínum, þ.e. sem næst heimalandi sínu.”
Af hverju ekki?
“Öll réttindi sem veitt eru útlendingum á Íslandi verða að vera byggð á gagnkvæmum milliríkjasamningum við þau ríki sem viðkomandi einstaklingar eru ríkisborgarar í. Með þessu er átt við að tryggja verði að íslenskir ríkisborgarar njóti sömu réttinda í þessum ríkjum og ríkisborgarar þeirra njóta á Íslandi. Annað getur einfaldlega hvorki talist eðlilegt né sanngjarnt.”
Þetta er rangt, það á að gæta mannréttinda fólks hvernig svo sem mannréttindum er háttað í heimalandi þeirra, munið að við erum að tala um einstaklinga sem geta lítið sem ekkert gert í því hvernig er komið fram við íslendinga í heimalandi þeirra.
“Auka þarf notkun óeinkennisklæddra lögreglumanna í baráttunni gegn glæpum, auk ýmissa annarra óhefðbundinna aðferða.”
Já, fáum nokkra Bond kalla sem hafa frjálsar hendur til þess að hjálpa okkur að handsama hættulegar fyllibyttur og fíkniefnaneytendur.
“Hin evangelíska-lúterska kirkja er og skal áfram vera þjóðkirkja Íslendinga.”
Af hverju ekki hin kaþólska? Og af hverju yfirleitt Kristin kirkja? Tengist það kannski trúarskoðunum formanna flokksins?
“Þýska verði gerð að fyrsta erlenda tungumálinu í því skyni að varna gegn áhrifum enskunnar. Þýskukennsla verði hafin í fjórða bekk og enskukennsla í þeim sjötta. Byggir þetta m.a. á þeirri staðreynd að þýskan er lykillinn að hjarta Evrópu og töluð meira eða minna í a.m.k. sjö Evrópulöndum af um 90 milljónum manna.”
Af hverju bara ekki að efla dönskukennslu, við eigum jú langa og hlykkjótta sögu með Dönum, hvaða sögu höfum við með Þýskurum? Við höfum álíka sögu með þeim og Frökkum, franska er líka mikið notað tungumál í evrópu. Tengist þetta kannski dálæti formanna flokksins á Þýskri tungu, menningu og SÖGU.
“Leita þarf leiða til þess að lækka skatta, þá fyrst og fremst skatta á tekjur landsmanna.”
Merkilegt miðað við öll þau útgjöld sem flokkurinn vill auka til hinna ýmsu mála.
“Efla þarf starfssemi samkeppnisstofnunar til muna svo stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu fljótt og örugglega í þágu landsmanna allra.”
Samkeppnisstofnun hefur nú þegar rannsóknar, ákæru, dóms og refsivald. Þessi stofnun getur varla orðið hættulegari frjálsum markaði.
“Setja þarf lög sem koma í veg fyrir að fyrirtæki, erlend sem innlend, geti lagt undir sig meira en 20% íslenska markaðarins.”
Því miður þyrfti að skipta sjónvarpsstöðvunum niður því þær hafa víst meiri markaðshlutdeild en 20%, einnig þyrfti að skipta Vífilfelli og Ölgerðinni upp því að þessi fyrirtæki hafa víst allt of mikla markaðshlutdeild. Málið er það að það er ekki hægt að stjórna eftirspurn almennings í Coke, það er ekki hægt að minnka markaðshlutdeild Vífilfells nema að meina því að framleiða svo og svo mikið magn af Coke, það væri einfaldlega rangt.
Ég vona að ég fái að heyra álit ykkar á þessum greinum og mig hlakkar sérstaklega til að heyra mótrök annars formannsins á þessu.