Hvað er helst að í vorum stjórnarháttum og skipan mála ?
Þarf að gera miklar breytingar og þá hverjar og hvernig vilja menn forgangsraða verkefnum ?
Fyrir mína parta vildi ég sjá komið á fót stjórnlagadómstól, hið allra fyrsta til þess að auðvelda dómstólum starfssemi sína, og tryggja að ekki gangi lög í gegn um Alþingi sem ekki standist stjórnarskrá landsins. Lög á lög ofan jafnvel um nær sömu atriði allt aftur í Jónsbók, þar sem teygja má og túlka fram og til baka
sömu hlutina, hlýtur að mega endurskoða og taka úr gildi.
Skilvirkni heilbrigðiskerfisins þarf að lúta árangursstjórnun
þar sem fullmönnuð sjúkrahús eru starfandi, allt árið um kring,
með nauðsynlegu símati gæðaþátta allra. Greitt aðgengi hvers einasta landsmanns að grunnheilbrigðisþjónustu þarf að vera til
staðar, þar sem kostnaður sjúklinga má aldrei hamla leitun.
Nema þarf staðar í stóriðjustefnu og efla smærri einingar atvinnuveganna til jafns við þær stærri, og fullvinna afurðir innanlands í stað útflutnings hráefna. Til þess þarf breytingar
í fiskveiðum og landbúnaði, er aftur mun leiða af sér minni
fólksflótta á höfuðborgarsvæðið.
Hér eru þrjú atriði sem ég vildi sjá ofarlega í forgangsröðun
breytinga.
gmaria.