Heill og sæll,
Svo ég útskýri nánar fyrir þér þessi stefnumál Flokks framfarasinna:
Að sjálfsögðu felur þetta 1% ekki í sér fjölgun höfuðborgarbúa sjálfra, hélt að það hlyti að vera nokkuð augljóst. Hér er fyrst og fremst um að ræða hugmynd til að sporna við flóttanum af landsbyggðinni og til höfuðborgarinnar sem fáir andæfa lengur að þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar sem heildar. Ljós þykir að eitthvað verði að gera til að tryggja stöðugleika í þessum efnum - kannski þú hafir einhverjar betri lausnir á vandanum?
Hvað varðar ríkisborgararéttinn og skilyrði þau sem við viljum setja fyrir veitingu hans þá er sú leið að innflytjendur séu látnir þreyta próf og standast þau til að fá ríkisborgararétt ekkert nýbrigði og þekkist í mörgum löndum, nægir þar að nefna t.d. Kanada. Ríkisborgararéttur á að vera umbun fyrir góða aðlögun. Hver er tilgangurinn annars með því að innflytjendum sé gert hvarvetna að hafa búið samfellt í ákvenum löndum til að öðlast ríkisborgararétt? Jú fyrst og fremst til að nokkurn veginn sé ljóst að viðkomandi ætli sér með sjáanlegum hætti að setjast að í viðkomandi landi en einnig er gert ráð fyrir að viðkomandi aðilar hafi á þeim tíma aðlagast því þjóðfélagi sem þeir setjast að í. Það gerist þó í fæstum tilfellum, því miður.
Sú hugmynd sem einnig er viðruð í stefnuskránni að ekki sé sett skilyrði um að innflytjendur hafi búið á Íslandi um ákveðinn tíma, heldur sé miðað við hversu vel þeim gengur að aðlagast þjóðfélaginu, er sú hugmynd sem Flokkur framfarsinna vill helst að hrint verði í framkvæmd. Hins vegar veist þú eins vel og ég að auðveldara er að breyta því kerfi sem fyrir er en skipta algerlega um kerfi. Hugmyndin um 8 árin má því líta á sem einhverns konar varahugmynd. Þess má svo geta að hugmyndin um að veiting ríkisborgararéttar verði miðuð við aðlögun innflytjenda hefur verið borin undir marga aðila, bæði hægrimenn og vinstrimenn, og jafnan fengið jákvæða innfjöllun. Menn eru sammála um að þetta sé mun sanngjarnari leið gagnvart einstaklingnum en núverandi kerfi. Af hverju ætti innflytjandi sem er duglegur að aðlagast þjóðfélaginu, og leggur á sig mikla vinnu við það, að vera settur undir sama hatt og innflytjandi sem leggur ekkert á sig til að aðlagast? Sanngjarnt? Varla!
Hvað er stjórnmálalegur ferill þinn langur? Varla langur. Og hvað er svona heimskulegt við þessa “klásúlu” ef ég má spyrja? Óska hér með eftir þeim rökstuðningi sem virðist hafa “gleymst” hjá þér varðandi þetta atriði. Annars, eru aðfluttir einstaklingar sem veittur hefur verið íslenskur ríkisborgararéttur ekki þar með íslenskir ríkisborgarar? ÉG geri ráð fyrir að þú eigir við Íslendinga í þessu tilfelli, enda ljóst að íslenskur ríkisborgari þarf ekki nauðsynlega að vera Íslendingur. Því er síðan til að svara að þessi atriði á ekki við um Íslendinga, enda eru þeir á okkar ábyrgð, heldur útlendinga sem veittur hefur verið íslenskur ríkisborgararéttur.
Að sjálfsögðu ógildist veiting ríkisborgararéttar ef forsendur veitingar hans eru rangar. Þetta hlýtur að segja sig sjálft og þekkist alls staðar í heimi lögfræðinnar, en það þarf sennilega ekki að segja þér að ríkisborgararéttur sem slíkur er lögfræðilegt fyrirbæri. Ef þú tekur lán hjá lánastofnun og í ljós kemur að þú hefur gefið upp rangar upplýsingar við lántökuna er lánveitingin gerð ógild, eðlilega. Sama gildir síðan auðvitað um ríkisborgararéttinn, þar er einfaldlega um að ræða ákveðinn samning milli tveggja aðila, hins aðflutta og íslenska ríkisins. Ákveðnar forsendur eru gerðar fyrir veitingu réttarins og ef í ljós kemur að þær hafa ekki verið uppfyllar getur ríkið rift samningnum. Hvað er það sem ekki er ljósu varðandi þetta atriði?
Hvað varðar það álit þitt að Flokkur framfarasinna sé ekki “hreyfing fólks sem reynir að gera hluti á skynsaman máta” þá er þér fullkomlega frjálst að hafa þínar skoðanir á flokknum. Ég vil hins vegar leyfa mér að hafa aðra skoðun á því atriði.
Með góðri kveðju,
Hjörtur
E.s Annars er athyglisvert að þú gerir hér athugasemdir við aðeins sjö greinar stefnuskrár Flokks framfarasinna af a.m.k. 130. Ber að skilja það sem svo að þú sért samþykkur því sem af gengur? Merkilegt annars hvað allir sem gagnrýna stefnuskrána geta týnt til fáar greinar sem þeir eru ósammála…