Aðför að réttarríkinu
“Baugsmálið” í heild sinni er aðför að réttarríkinu. Málatilbúnaðurinn grefur undan trausti almennings á lögregluyfirvöldum og dómsstólum. Hér berjast tvær valdablokkir um völdin í stjórnmálum og viðskiptalífi, eða hvað? Sakborningar, þ.e. forsvarsmenn Baugs samsteypunar, hafa haldið því fram að valdmiklir menn innan Sjálfstæðisflokksins með ítök í veikburða Kolkrabban, standi að aðförinni að sér. Forystumenn Samfylkingarinnar hafa tekið undir þetta í frægum ræðum. Fjölmiðlar í eigu Baugs samsteypunnar flytja reglulegar fréttir sem eiga að styðja þessar ásakanir. En við getum spurt okkur hvort þessi málatilbúnaður þjóni ekki aðeins þeim tilgangi að draga athyglina frá málssókninni sjálfri? Á móti veit alþjóð að Davíð Oddsson hefur lýst “andúð” sinni á “yfirgangi” Baugs bæði í viðskiptalífinu og í fjölmiðlarekstri. Stjórnmálamaðurinn Davíð Oddsson hefur fullan rétt á þessari skoðun án þess að það sé gert tortryggilegt. Að halda því fram hins vegar að Davíð fjarstýri lögreglu og saksóknurum ríkisins með sama hætti og tíðkast í einræðisríkjum er farsakennt og ótrúlegt að formaður Samfylkingarinnar hafi haldið þessu óbeint fram í ræðu og riti. Nægir tölvupóstur Jónínu Ben. til að sanna þessa kenningu? Mitt svar er nei. Ef formaður Samfylkingarinnar vill láta taka sig alvarlega þarf hún að koma með beinharðar sannanir - ella er hún aðalleikari í aðförinni að réttarríkinu. Ef henni tekst hins vegar að sanna mál sitt stendur hún uppi sem sigurvegari.