Á öfgafrjálslynda vefritinu Kreml.is birtist grein fyrir skemmstu þar sem umfjöllunarefnið er skoðanakönnun DV á fylgi stjórnmálaflokkanna, en í þeirri könnun kom fram að Samfylkingin fengi ekki nema 15,8% fylgi ef kosið væri nú. Vill greinarhöfundur, sem ekki getur nafns síns, víst meina að ástæða fylgishruns Samfylkingarinnar sé að flokkurinn hafi ekki “tekið skýra afstöðu til grundvallarmála íslenskra stjórnmála” eins og það er orðað. Mun greinarhöfundur með því eiga við að Samfylkingin skuli t.a.m. ekki setja alþjóðavæðingu íslensks þjóðfélags og aðild Íslands að ESB sem forgangsmál á stefnuskrá sína.

Greinarhöfundur virðist greinilega ekki átta sig á því að ástæða fylgishruns Samfylkingarinnar er einmitt afstaða flokksins til ESB-aðildar og alþjóðavæðingar. Það hefur sýnt sig að þeir flokkar sem hvað mest eru að gæla við slíkt hafa verið að tapa gríðarlegu fylgi. Það er nokkuð ljóst að íslenska þjóðin er einfaldlega ekkert hrifin af slíkum gælum. Greinarhöfundur Kreml.is er því nokkuð ljóslega ekki að átta sig á hvert vandamálið raunverulega er og flokkist hann sem dæmigerður innanbúðarmaður Samfylkingarinnar er ég fyrir mína parta ekki hissa á því þó fylgið reitist af flokknum.

(Ritað 10. júní 2001)

Kveðja,

Hjörtu
Með kveðju,