Þarna sannaðist reyndar kenning mín um fordómanna, því skilningur ritters virðist einnig vera takmarkaður á merkingu orðsins fordómar. Orðið for-dómur þýðir að búið er að dæma eitthvað fyrir fram. Án þess að vitneskju sé aflað. Fyrirfram dæmt. Þess vegna er talað um að for-dómar séu undirrót t.d. kynþáttahaturs, því blessuð börnin sem kalla sig þjóðernissina vita ekki betur, eru langt frá því víðlesnir (nema í bókum sem styðja þeirra kenningar) og hafa engan áhuga á að kynna sér málið frá öllum hliðum. Þannig vill ég meina að sé komið fyrir flestum þeim hér sem hafa allt á hornum sér þegar minnst er á ESB.
Fordómar VG að vera á móti einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar? Nei, aldeilis ekki. Þó að margt misjafnt megi segja um VG menn, þá hafa þeir krufið málið til mergjar og hafa verið málefnalegir í andstöðu sinni við einkavæðingaráformin, eins og reyndar í virkjanamálunum.
Fordómar Frjálslyndra að vera á móti kvótakerfinu? Nei, alls ekki. Annar þingmanna þeirra hefur mikla reynslu af sjómennsku og þekkir kerfið út og inn. Þeir byggja ekki andstöðu sína á kvótakerfinu á fyrirfram gefnum palladómum, heldur viðamikilli þekkingu um hvað kvótakerfið er að gera landsbyggðinni og hvað það getur gert fiskistofnum í kringum landið.
Fordómar Sjálfstæðisflokksins að vera á móti ESB? Það er erfitt að segja, því í þeim flokki hefur ekki mátt minnast á ESB síðan Davíð bannaði það í kringum árið 1994. Síðan hefur virk umræða um þetta tiltekna mál verið andvana borin í flokknum. Það er því erfitt að segja til um það hvort að flestir flokksmenn sem fylgja opinberri flokkslínu Davíðs hafi raunverulega kynnt sér báðar hliðar málsins, eða hvort þeir eru eingöngu “já-menn” eins og þingflokkurinn virðist vera upp til hópa.
Það eru alveg stórkostleg rök að segjast vilja frekar hafa engin áhrif á þá löggjöf sem kemur inn í landið en að hafa einhver áhrif. Þó að þingmannahópurinn sem við fengjum væri ekki stór, þá hefði hann altjent einhver áhrif, ólíkt stöðunni nú. Og ef norðurlönd taka sig saman og mynda blokk, eins og Svíar og Finnar hafa mælst til, þá yrðu áhrif okkar langt umfram stærð okkar, hvort sem mælt er í þingmannafjölda eða fólksfjölda.
Hver var að tala um að við hættum að verða sjálfstæð? Eingöngu þú. Enginn annar. Ekki eru Svíar eða Finnar minni þjóð eða minna sjálfstæðir eftir að þeir gengu inn í ESB. Það var reyndar hamrað á þessum “sjálfstæði þjóðarinnar glatast” rökum þegar við gengum í NATO, EFTA og nú síðast þegar við skrifuðum undir EES en þessir svartsýnu forspár íhaldsmanna (í öllum flokkum) hafa ekki ræst enn og munu ekki rætast. Það er kominn tími til að þetta fólk fari að hætta að berjast á móti litasjónvörpum, réttlátari atkvæðadreifingu og nútímanum yfir höfuð..
Mín kenning er reyndar sú að þeir sem vilja vera einir upp á skeri norður í ballarhafi, einangraðir frá umheiminum, haldandi í mynt sem er verðminni en Matadorpeningar, og kostar okkur 80-120 milljarða á ári að halda úti, séu að bregðast þjóð sinni mest af öllum.
Það er engin tilviljun að íhaldsmenn í öllum flokkum -fólk sem vill engar breytingar, sé sameinaðir í skoðunum sínum í þessu máli.
Sæll,
Já mér líst bara vel á þessa skilgreiningu þína á fordómum. Gallinn við þetta allt er auðvitað sá að hún á afskaplega lítið erindi við mig þar sem ég hef kynnt mér mjög bæði galla og kosti aðildar að ESB og einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að ákveðnir kostir geti fylgt aðild þá vegi gallarnir einfaldlega miklu meira.
En alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Ber að líta á þetta opinberlega sem nýjasta baráttutæki Evrópusinna að væna þá, sem eitthvað hafa út á ESB-aðild að setja, um fordóma gagnvart sambandinu? Meina, gæti hugsanlega alveg gengið. Þessi áróðursaðferð virðist a.m.k. hafa gengið bara vel varðandi innflytjendamálin þar sem helst ekkert má tjá sig um þau mál nema til að lofsyngja þau. Svo halda menn að þetta með nýju tóbaksvarnarlöggjöfina sé eitthvað nýtt…
Ég veit auðvitað ekki nákvæmlega hvaða forsendur þú gefur þér í þinni afstöðu en eitt lykilatriðið í minni afstöðu er sú staðreynd, hvort sem þér líkar betur eða verr, að við MUNUM glata sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar við aðild að ESB. Sömu sögu er að segja um EES-samninginn. Við lögtöku hans glötuðum við ákveðnum hluta sjálfstæðisins og eru meira að segja Evrópusinnar duglegir að benda á þá staðreynd enda núorðið víst eitt helsta vopn þeirra í áróðri sínum fyrir aðild Íslands að ESB. Sömuleiðis má benda á að ekki er deilt um þessa staðreynd innan lögfræðinnar (alþjóðaréttar), en það vill svo til að hann “óupplýsti” ég er mjög vel lesinn í lögfræði enda hef ég tekið ýmsa áfanga í þeim fræðum við Háskóla Íslands.
Hvað snýr að Finnum og Svíum má kannski benda á þá staðreynd að í dag styðja aðeins um 20-30% sænsku þjóðarinnar aðildina að ESB miðað við um 55% þegar landið gekk í sambandið. Af sama skapi eru nú um 60-70% Svía andvíg því að vera áfram í ESB. Hvers vegna skyldi það vera? Er grasið bara grænna hinum megin eða skyldi það vera að Svíar séu bara ekki sáttir innan ESB? Gengu kannski loforðin ekki upp? Þessar tölur segja vissulega meira en mörg orð.
En hvað snýr að því að við verðum einangraðir frá umheiminum ef við göngum ekki í ESB vil ég nú meina að einmitt með því að ganga í ESB værum við að einangra okkur innan ESB og frá umheiminum. Hvað er annars að því að vilja hafa allar leiðir opnar?
Hvað varðar Evruna þá vil ég frekar Dollarann af tvennu illu. Bandaríkin eru þó a.m.k. ekki að heimta að við göngum í þau ef við tækjum upp myntina þeirra. Auk þess er um miklu sterkari gjaldmiðil að ræða. En ég vil þó að sjálfsögðu halda í krónuna eins lengi og það er mögulegt enda er það einfaldlega hluti af því að vera sjálfstæð þjóð - það kostar! Ef við komumst að því einn daginn að það borgi sig ekki að vera sjálfstæð þjóð lengur, eigum við þá bara að hætta því? Sumt er, a.m.k. að mínu mati, einfaldlega ekki mælanlegt í peningum. Það er auðvitað best að vera bara heima hjá mömmu og pabba alla ævi en að verða sjálfstæður einstaklingu og takast á við það hefur einfaldlega í för með sér kostnað. Ef ráðamenn þjóðarinnar hefðu verið að hugsa á sömu nótum og þú 1944 þá leyfi ég mér að fullyrða að við værum ekki sjálfstæð þjóð í dag.
Athyglisverð kenning hjá þér um blokkahverfin. þetta breytir þó engan veginn þeirri staðreynd að jafnvel þó norðurlöndin stæðu saman í gegnum súrt og sætt þá hefðu þau aldrei meiri áhrif en t.d. VG hefur á Alþingi í dag. Gætum rifið endalaust kjaft en kæmum litlu eða engu í gegn um þingið. Og af hverju? Jú vegna þess að stóru aðilarnir ráða öllu þar, Bretland, Frakkland og ekki síst Þýskaland, og ákvarðanirnar sem teknar verða munu hafa hag þessara ríkja fyrst og fremst að leiðarljósi en ekki okkar. Skv. lögfræðinni verðum við í sömu stöðu lagalega séð innan ESB og við vorum 1904 þegar við fengum fyrsta íslenska ráðherrann. Fullveldi okkar mun vera í höndum ESB á sama hátt og það var í höndum Dana 1904. Þetta er einfaldlega söguleg og lögfræðileg staðreynd.
En af hverju verða menn að vilja breytingar? Eru menn ekki frjálsir skoðana sinna? Ég sem hélt að við byggjum í lýðræðisríki en mér virðist þetta tal þitt einhvern veginn passa betur inn í þjóðfélagsumhverfi Sovétríkjanna eða Hitlers-Þýskalands, þar sem menn áttu bara að hugsa á einn hátt og alls ekki annan.
Auk þess má svo benda á það að nær undantekningalaust vilja allir nú einhverjar breytingar á hlutunum, jafnvel íhaldsmenn, þó þeir vilji kannski ekki endilega sömu breytingar og þú. Ég býst við að þegar öllu er á botninn hvolft snúist þetta ekki um að vilja breytingar eða að vilja ekki breytingar heldur að vilja ákveðnar breytingar og aðrar ekki. Þetta er þannig í raun einfaldlega það sama og segja að mínar skoðanir eru þær einu réttar, þeir sem hafa aðrar skoðanir eru bara menn sem vilja engar breytingar, svo vitnað sé í þín eigin orð.
Annars er gott að vita að til séu svona “upplýstir” og “fordómalausir” einstaklingar eins og þú sjálfur sem eruð ekki einu sinni með fordóma gagnvart þeim sem telja sig hafa þjóðernissinnaðar eða íhaldssamar skoðanir. Virðing þín fyrir grundvallarmannréttindum þessa fólks er alveg sérstaklega aðdáunarverð. Já, þínir líkar hljóta að teljast til mætustu hlyna lýðræðisins!
Hafðu það sem best félagi,
Kveðja,
Hjörtu
0