E.t.v. er það fyrsta sem mörgum dettur í hug, þegar hugtakið þjóðernishyggja er nefnt, orð eins og “gyðingahatur”, “útrýmingarbúðir”, “nasismi” eða eitthvað því um líkt. En nákvæmlega hvað er þjóðernishyggja? „Þjóðernishyggja er hugmyndafræði sem setur á oddinn sérkenni, menningu, sjálfstæði og hagsmuni þjóðarinnar. Í þjóðernishyggju felst jafnframt að pólitísk hollusta fólks eigi fremur að vera bundin við þjóðríkið en alþjóðleg samtök og pólitískar stefnur“, sbr. samhljóma umfjallanir Íslensku alfræðiorðabókarinnar, The New Universal Encyclopedia, Encarta Encyclopedia og Encyclopedia Brittannica. Þeir sem ekki hafa kynnt sér málið setja þó gjarnan samasem merki á milli þjóðernishyggju og nasisma sem er alrangt. „Nasismi: öfgastefna; m.a öfgaútgáfa af þjóðernishyggju; grundvallast m.a. á alræði Foringjans, trú á yfirburði ákveðinna kynstofna og kynþáttahatri, einkum gyðingahatri“, sbr. fyrnefnd alfræðirit.
Í ítarlegum umfjöllunum áðurnefndra alfræðirita um þjóðernishyggju er hvergi minnst einu orði á nasisma eða nokkuð honum tengt. Einnig er í þessum alfræðiritum að finna margra blaðsíðna umfjallanir um nasisma. Í flestum þessum ritum er þó ekki minnst einu orði á þjóðernishyggju í þeim umfjöllunum og í öðrum er það eingöngu gert í því samhengi að nasisminn hafi ásamt mörgu öðru verið ótrúlega grimm og öfgafull þjóðernishyggja. Þessi rit, sem samin eru eftir bestu fræðilegu vitund manna, eru samhljóma um að nasismi og þjóðernishyggja séu algerlega tveir veruleikar og svo langt því frá að vera sami hluturinn. Það er meira að segja margfalt meiri munur á þessu tvennu en kommúnisma og sósíalisma. Sósílalismi og kommúnismi hafa sama markmið en greinir á um aðferðirnar, en þjóðernishyggju og nasisma greinir ekki aðeins á um aðferðirnar heldur eru markmiðin svo ólík að vel er hægt að tala um svart og hvítt í þeim efnum.
Staðreyndin er raunar sú að nasisminn er einfaldlega hrein nauðgun á hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar. Með nasismanum eru hugsjónir þjóðernishyggjunnar teknar, keyrðar upp í algera öfga, drýgðar með botnlausu hatri og hroka og loks notaðar sem ímynduð réttlæting til að líta niður á ákveðnar þjóðir og kynstofna. Í hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar er nákvæmlega ekkert sem kveður á um hatur á öðrum þjóðum eða ímyndaða yfirburði einhvers eins kynstofns yfir öðrum. Þjóðernishyggjan er einfaldlega þjóðræktarstefna og föðurlandshyggja þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru settir í forgang, hlúð er að menningu þjóðarinnar og því sem gerir hana að þjóð og barist fyrir því að fullveldi hennar sé ekki skert með nokkrum hætti. Það er þjóðernishyggja!
Ath. Til að fyrirbyggja óþarfa misskilning þá hefur þessi grein ekkert að gera með svonefnt félag FÍÞ, því síður er henni ætlað að verja það félag, enda verður að líta svo á að félagið sé til þess að gera allt of öfgafullt til að geta talist með eðlilegu móti þjóðernissinnað.
Greinin var upphaflega rituð í febrúar árið 2000 eða töluvert áður en ég hafði hugmynd um hvað FÍÞ var, en það félag mun hafa komið opinberlega fram á sjónarsviðið 1. maí sama ár.
Kveðja,
Ritte
Með kveðju,