Þingmenn landsbyggðarinnar eiga fjölmarga ása uppi í erminni, þegar þeir eru að svindla á þjóðinni í póker lífsins. Einn þessara ása heitir: Flytjum ríkisstofnanir út á land.
Einhvern veginn virðumst við vera svo samdauna því að fólki á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur sinnt störfum sínum af alúð árum eða jafnvel áratugum saman sé sagt upp störfum, vegna þess að þingmaður úti á landi þarf nauðsynlega að flytja vinnustað þess í kjördæmi sitt, til þess að tryggja sér áframhaldandi þingsetu næstu fjögur árin.
Allir vita að þetta er nauðsynlegt, vegna þess að starfsmaðurinn sem enginn þekkir er jú ekki svipur hjá sjón við hliðina á þingmanninum knáa, sem bregður sér óboðinn í heimsókn til þorra landsmanna eins oft og hann mögulega getur í gegnum ríkislímonaðið RÚV eða Stöð 2. Þetta er jú vinur okkar.
Fyrir örfáum árum síðan voru Landmælingar Íslands fluttar frá Reykjavík til Akraness. Þetta var gert til þess að efla atvinnulíf á Akranesi. Starfsmönnum var boðið upp á rútuferð til vinnu á hverjum morgni, og heim að kveldi, það er þeim örfáu sem ekki sögðu upp vegna vitleysunnar. Þessi flutningur kostaði 100 milljónir. Starfsfólk þakkaði sínu sæla fyrir að stofnunin var ekki flutt á Ísafjörð, því þá hefði vinnudagurinn farið í það að rúnta fram og til baka.
Íbúðalánasjóður var fluttur á Sauðárkrók. Ráðherrann Guðmundur Bjarnason varð svo hrifinn af flutningnum að hann flutti með og tók við þægilegu djobbi sem framkvæmdastjóri sjóðsins. Flestum starfsmönnum syðra var sagt upp, og nýir ráðnir í sveitinni fyrir norðan. Sniðugt ekki satt? Þægilegt fyrir starfólkið fyrir sunnan sem núna þurfti ekki að gera neitt annað en að sækja atvinnuleysisbæturnar og mæla göturnar.
Byggðastofnun. Frábært múv. Send beint á Sauðárkrók. Staffinu í Reykjavík sagt upp, þar á meðal Guðmundi Malmqvist, sem hafði stýrt stofnuninni með miklum myndarbrag árum saman.
Nei bíddu bíddu. Hvað er þessi Byggðastofnun? Jú, þetta er apparat sem gerir fyrirtæki á landsbyggðinni að sveitaómögum. Þetta er líka þægilegt stjórnunartæki fyrir landsbyggðaþingmenn sem geta barið sér á brjóst eftir að hafa úthlutað fyrirtækjum í kjördæmum sínum peningum, sem ekkert frekar þarf að greiða til baka, enda er talað um að stjórnarformannsseta hjá Byggðastofnun jafngildi ráðherradómi.
Allir þessir flutningar eiga það sameiginlegt, að þeir gera stærstum hluta þeirra sem til þeirra sækja erviðara fyrir að nálgast þjónustu þeirra. En það skiptir auðvitað ekki máli, þingmaðurinn þarf atkvæðið sitt.
Fyrir nokkrum vikum síðan bauðst KEA til þess að leggja til fjármuni til þess að greiða fyrir flutningum ríkisstofnana til Akureyrar, sem ku vera sveitarfélag fyrir norðan. Tilgangurinn að gera fleiri höfuðborgarbúa atvinnulausa, og skapa atvinnu fyrir norðan.
Hvað er þetta KEA aftur. Ójú, þetta er samvinnuapparat, sem áratugum saman stuðlaði að því að Eyjafjarðarsvæðið var mesta láglaunasvæði landsins. Eigum við að treysta þeim? Hmmmm, e, nei.
En hvernig væri að snúa vörn í sókn. Er ekki komið að höfuðborgarsvæðinu. Hvernig væri að flytja KEA til Reykjavíkur? Það væri allavega góð byrjun held ég.
Confused? You wont be after next episode of Soap.