Kæri herra forseti.
Ég bið þig að fyrirgefa það að ég skuli senda þér línu hérna, en hvað með það, þetta er víst alveg eins góður vettvangur og hver annar. Auk þess gæti það nú bara skeð að þú rækir nefið hingað inn.
Heyrðu, mér varð nú hugsað til þín þegar konurnar fóru að brýna raustina um helgina, eftir að þú veittir heilum hóp karla fálkaorðuna en einungis tveimur konum. Má ég koma með smá hugmynd.
Við vitum það báðir, að þessar orður skipta bara ekki nokkru máli. Við þekkjum fæsta þeirra sem orðurnar hljóta, hvað þá fyrir hvað þeir hljóta þær. Auk þess fást þær víst á spottprís í skranverslunum.
Svo eru víst 5 karlar og 1 kona í orðuveitinganefnd. Uss uss.
Má ég koma með hugmynd? Hún hljómar svona:
Allir meðlimir orðuveitnganefndar skulu vera konur. Enginn skal fálkaorðuna hljóta nema hann sé kvenmaður eða kynskiptingur í kvennátt.
Ég held nefnilega þér að segja, að þessar orður skipti karlmenn bara engu máli, og þeir tækju ekki eftir því að á brosmyndum 17. júní væru bara konur… og auðvitað þú að sjálfsögðu.
Má ég líka koma með hugmynd að orðukandidötum? Mér dettur í hug konur sem hafa unnið í frystihúsum landsins, sumar áratugum saman. Óeigingjarnar konur sem hafa þrælað sér út við að þrífa í kringum okkur svo einhverjar séu nefndar. Án þessara dugnaðarforka væri þjóðfélagið okkar nefnilega ekki merkilegt, þessar konur hafa ekki mátt missa sín, það eitt er víst.
Reyndar vil ég gjarnan bæta á listann ágætri eiginkonu þinni, og legg það til að fjárlögum til útfluningsráðs verði skorið verulega niður, en henni greidd sanngjörn laun fyrir það óeigingjarna starf sem hún hefur innt af hendi undanfarin ár við að kynna afurðir okkar og land og þjóð. Já, svei mér þá, hún mætti gjarnan fá tvær orður.
Hafðu það svo sem allra best í framtíðinni og ekki eyða um efni þjóðarinnar fram.
Þinn einlægur,
Fellini