Það er staðfest. Það sem menn hafa verið að velta fyrir sér frá örófi alda er loksins komið á hreint. Fyrir þá sem ekki vita um hvað ég er að tala sjá vonandi eftir að hafa ekki horft á Silfur Egils sunnudaginn 1. maí. Nú ætla ég að útskýra hvernig í pottinn er búið.
Egill Helgason hafði boðið fulltrúm fjögurra stærstu stjórnmálaflokka landsins til umræðunnar. Þeir voru: Margrét Frímannsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, Hjálmar Árnason, fulltrúi Framsóknarflokksins, Björn Bjarnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri-grænna.
Þessir annars ágætu aðilar voru að ræða um ýmislegt varðandi þingið og störf þess á því þingi sem senn er að ljúka. Eitthvað fór fyrrnefndur fulltrúi Framsóknarmanna að ræða um Ögmund Jónasson, þingflokksformann Vinstri-grænna. Þá kom reiðarslagið. Flokksbróðir Ögmundar, fyrrnefndur Steingrímur lét eftirfarandi orð falla: “Félagi Ögmundur…” Þetta kom eins og köld vatnsgusa framan í mig, þar sem ég var alveg að sofna út frá þessu og fór ég að hugsa um allar kvikmyndirnar sem ég hafði séð þar sem rússneski eða sovéski herinn hafði verið einhver hluti af myndinni. Þar var, og er, oft notað orðið Komrad, sem útleggst á ensku comrade. Samkvæmt Ensk-íslenskri/íslenskri-enskri orðabók orðabókarútgáfunnar þýðir það orð (flokks)félagi.
Nú lagði ég saman tvo og tvo og hugsaði, hvort að Vinstri hreyfingin, grænt framboð, gæti í raun verið afsprengi gamla kommúnistaflokksins íslenska og tæki jafnvel við skipunum frá yfirboðurum í Moskvu.
Ég vona að enginn komist að þessari samsæriskenningu minni en til öryggis ætla ég að láta lítið fara fyrir mér næstu daga.
Sjáumst, kannski.