Hæstiréttur lögfesti nú á fimmtudaginn dóm yfir manni sem fundinn var sekur fyrir heimilisofbeldi en dómur Héraðsdóms Reykjarness um þetta mál vakti mikla reiði í þjóðfélaginu nú fyrr í vetur. Þó dómur hæstaréttar sé mjög vægur þá er hann skref í rétta átt og mun betri en sá fyrri þar sem hæstiréttur tekur ekki undir þau rök er lágu ofbeldismanninum til málsbóta í héraðsdómi eins og „hún reitti hann til reiði“. Ég bendi á mjög góða greinagerð Kvennaathvarfsins um dóm Héraðsdóms Reykjarness sem er að nálgast hér:
Kallar á sérstaka löggjöf um heimilisofbeldi
Þessi dómur ítrekar enn og aftur þörfina fyrir sérstaka löggjöf um heimilisofbeldi. Í hegningarlögunum í dag skiptist refsiramminn í tvennt eftir alvarleika brota og heimilisofbeldi lendir nánast undantekningarlaust í lægri refsirammanum. Ástæðan er sú að aðeins er tekið tillit til líkamlegra áverka en ekki til þess hve langur brotatíminn er, aðstöðumunar ofbeldismanns og fórnarlambs, andlegs ofbeldis og fleiri þátta sem skipta máli þegar horft er til alvarleika og sérstöðu heimilisofbeldis.
Eitt stærsta vandamálið við að koma höndum yfir þessa ofbeldismenn er að konur, sem hafa búið við ofbeldið svo árum eða áratugum skiptir, eru oft á tíðum mjög tregar við að rísa gegn ofbeldismanninum, stíga út úr vítahringnum og kæra, þar sem hræðsla og brotin sjálfsmynd þessara kvenna blindar þeim sýn. Ekki bætir þessi dómur ástandið heldur sendir þessum konum mjög letjandi skilaboð. Það er sjaldgæft að svo borðliggjandi dómur komi fyrir rétti, áverkaskýrsla og skýrsla vitnis sem hjálpaði hálfberri konunni í skjól var lögð fram, en samt er dómurinn ekki harðari en raun ber vitni .
Áhugaleysi ríkisstjórnarflokkanna til skammar!
Nú er mælirinn fullur. Það bara VERÐUR að gera eitthvað í þessum málum! Ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú enn og aftur ekkert frumkvæði og ekki nóg með það heldur standa þeir hreinlega í vegi fyrir úrbótum í málaflokknum. Stígamót, Kvennaathvarf og fleiri aðilar sem láta sig málið varða hafa ár eftir ár þrýst á stjórnvöld um að gera heildstæða aðgerðaráætlun í málum er snerta kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi líkt önnur lönd hafa gert en ekkert gerist. Samfylkingin lagði fram í vetur mjög góða þingsályktunartillögu ( ) þar sem mælt er með því að heimilisofbeldi sé skilgreint sérstaklega í lögum, en tillagan hefur ekki fengið hljómgrunn meðal stjórnarþingmanna. Kolbrún Halldórsdóttir hefur nú tvívegis lagt fram frábært frumvarp ( )til laga um Austurrísku leiðina sem miðar að því að tryggja fórnarlömbunum friðhelgi á sínu eigin heimili í stað þess að þurfa að flýja eigið heimili með því róti sem því fylgir, en enn og aftur sýna stjórnarþingmenn þessu máli engan áhuga. Fyrsta skrefið í rétta átt gæti einmitt verið að samþykkja þessi mál. Þess má geta að þegar Kolbrún talaði fyrir þessu máli í þingsal nú fyrir stuttu þá var ekki einn einasti stjórnarþingmaður viðstaddur! Geta þeir ekki einu sinni sýnt þá lágmarks virðingu að mæta og kynna sér málið? Það er greinilegt að það er ekki sama hvaðan góð mál koma.
Sameinuðu þjóðirnar ávíta íslensk stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi!
Frammistaða stjórnvalda í þessum málum er til háborinnar skammar fyrir Ísland. Sameinuðu þjóðirnar hafa ávítað íslensk stjórnvöld fyrir að taka vægt á ofbeldi gegn konum ( ). Stjórnarandstaðan hefur komið með hverja þingsályktunartillöguna, fyrirspurnir og frumvörp á fætur öðru, Stígamót og Kvennaathvarfið hafa fundað með þingmönnum allra stjórnmálaflokkanna á hverju ári svo árum skiptir og komið með tillögur til úrbóta en ekkert gerist. Enginn virðist ná til eyrna þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarandstaðan gerir sitt besta en það sem kemur frá henni er því miður kæft í nefnd trekk í trekk. Ef til vill gerist ekkert fyrr en Samfylkingin leiðir ríkisstjórn.
Stjórnvöld gera illt verra
Stjórnvöld hafa ekki myndað sér heildstæð markmið né sett fram framkvæmdaráætlun til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Í staðinn hafa þau skorið niður í þjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana og rannsóknarverkefni á vegum Rauða krossins um meðferð fyrir þá sem valda heimilisofbeldi og kynferðisafbrotum var hætt í miðju ferli vegna fjárskorts!
Það er greinilegt að stjórnarflokkarnir hafa hreinlega ekki nægan áhuga á þessum málum - eða setja þau allavega mjög aftarlega í forgangsröðina.
Hægrisinnaðir flokkar áhugalausir um þessi málefni?
Á ráðstefnu um ofbeldi gegn konum, sem fór fram fyrir nokkrum árum með fulltrúum frá öllum Evrópulöndunum, var gerð óformlega könnun á því hvernig málum var háttað í hverju landi fyrir sig, þ.e. hvort til væri aðgerðaráætlun, búið væri að setja sér lög um heimilisofbeldi eða hvort einhver vinna væri í gangi til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi o.s.frv. Þá kom í ljós að flest öll löndin voru búin að setja sér markmið og með ferli í gangi til að koma í veg fyrir þetta algengasta mannréttindarbrot í heiminum í dag. Þau lönd sem EKKERT höfðu aðhafst í þessum málaflokki, þar á meðal Ísland, áttu það sameiginlegt að þar höfðu hægrisinnaðir flokkar verið við völd meira og minna síðustu 10 -15 ár! …varla tilviljun?
Sem dæmi um þetta má nefna Austurríki sem er mjög framarlega í þessum málaflokki og önnur lönd í Evrópu hafa mikið litið til þess við gerð sinnar stefnu. Árið 1997, þegar Austurríska leiðin var sett í lög, voru einmitt vinstri sinnuð stjórnvöld við lýði en eftir að hægriflokkur komst þar til valda fyrir nokkru hefur verið dregið mjög úr framlögum til þessa málaflokks svo loka hefur þurft athvörfum ofl.
Hvað þurfa margir að deyja?
Að hafa ekki stefnu í þessum málaflokk er hreinlega óafsakanlegt. Hvað þarf að gera til að fá stjórnvöld til að viðurkenna ofbeldi gegn konum? Heimilisofbeldi er eitt algengasta mannréttindarbrot í heiminum í dag og mjög stórt heilbrigðisvandamál meðal kvenna. Um 70% myrtra kvenna í Bretlandi falla af völdum heimilisofbeldis, ég veit ekki prósentutöluna á Íslandi en hér voru allavega tvær konur myrtar á síðasta ári sökum heimilisofbeldis. Ekki má heldur gleyma því að karlmenn deyja líka að völdum heimilisofbeldis því oft drepa kúgaðar eiginkonur menn sína í sjálfsvörn.
Ef þessar tölur eru ekki nóg til að vekja stjórnvöld til umhugsunar þá er þeim ekki við bjargandi.